Fréttabréf U3A
Febrúar 2025

Að þreyja þorrannn

Að þreyja febrúar

Febrúar er öðruvísi mánuður en aðrir mánuðir. Hann er stystur allra mánaða en þrátt fyrir það upplifa margir febrúar sem afar langan mánuð – þann lengsta í árinu. Í febrúar erum við búin að þola marga mánuði af hitastigi undir frostmarki, snjó og gráma  og 66 gráðu úlpurnar eru orðin að einkenniklæðnaði stórs hluta þjóðarinnar.

Á jákvæðari nótum má benda á að febrúar spannar bilið á milli vetrardrungans og aukinnar dagsbirtu sem gefur fyrirheit um vor nálgist. Febrúar er aðeins annar mánuður ársins svo við eigum 10 mánuði inni til efna áramótaheitin – hver svo sem að þau voru. Rómantískir geta látið sér hlakka til að háma í sig hjartalagað konfekt á Valentínusardag .

En hvar sem við erum tilfinninga stödd gagnvart febrúarmánuði mælum við með að allir félagsmenn U3A taki  D-Vítamín  – þá þraukum við örugglega fram í mars. 😊

Hjördís Hendriksdóttir, formaður U3A Reykjavík

Vinir eða vandamenn

Vinir eða vandamenn

Áhrif félagslegra tenginga fólks á þriðja æviskeiðinu hafa töluvert verið rannsökuð á undanförnum árum. Meðal annars hafa vísindamenn komist að því hvernig einmanaleiki getur beinlínis valdið líffræðilegum kvillum hjá eldri einstaklingum. Þá eru ekki síður forvitnilegar rannsóknir á hvers konar félagsleg tengsl fær eldra fólk til að líða sem best.

Félagstengsl breytast eftir því sem við eldumst. Það eru svosem engin ný sannindi. En samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn komu í ljós kostir þess fyrir eldra fólk að eiga í sterkri tengingu við þröngan og góðan vinahóp. Slík félagstengsl hefðu að sumu leyti jafnvel betri áhrif heldur en fjölskyldutengsl, – þó fjölskyldan sé vissulega mjög mikilvæg í félagslegu samhengi fyrir alla.

Þegar aldurinn færist yfir og fólk ákveður að draga úr atvinnu hugsa margir sér gott til glóðarinnar að endurnýja kynnin við alla gamla vini, kunningja, frændur, frænkur og fjarskylda ættingja. Nú verði loks tími til að rækta öll tengslin sem hafa setið á hakanum vegna brauðstrits og daglegs amsturs. Og vonast jafnvel til að mynda fleiri vinatengsl. – En svo virðist þetta ekki raungerast.

Þröngur vinahópur
BBC Essential segir frá viðamikilli rannsókn á félagstengslum fólks, 65 ára og eldri, sem Katherine Fiori sálfræðiprófessor við Adelphi-háskólann í New York stjórnaði, þar sem ýmislegt óvænt kemur í ljós. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar líður fólki á þriðja aldursskeiðinu best í vinfengi við fáa  einstaklinga, helst við einhverja utan nánustu fjölskyldu. En áður hafði verið talið að fjölskyldutengsl væru mest gefandi í lífi þeirra sem eldri eru. Ástæða þessarar nýju vitneskju er talin vera sú að í fjölskyldutengslum geta komið upp vandamál sem eldra fólk tekur inn á sig og veldur áhyggjum í lífi þeirra. En í vinatengslum utan fjölskyldu snúast samskiptin að öllu jöfnu um sameiginleg uppbyggileg áhugamál og ánægjuleg skoðanaskipti en valda síður hugarangri. Fjölskyldan skiptir eftir sem áður miklu máli í huga þeirra sem eldri eru, en vinatengslin eru annars eðlis. Þau snúast um að rækta þau hugðarefni sem vinirnir eiga sameiginleg, hvort sem það eru tómstundir, íþróttir, menning, stjórnmál eða bara skoðanaskipti um daginn og veginn. Þannig geta tíð og góð vinasambönd verið spennulosandi og skemmtileg og auk þess verið heilsubætandi og aukið lífaldur. Þessar niðurstöður eru í andstöðu við eldri rannsóknir sem lögðu meiri áherslu á fjölskylduna sem helstu stuðningsuppsprettu fyrir eldra fólk. Í þessu sambandi skiptir litlu máli hvort einstaklingarnir séu að eðlisfari úthverfir persónuleikar eða einrænir.

Munur á félagstengslum eldra og yngra fólks
Þá er samkvæmt rannsókninni mikilvægur munur á því hvernig eldra og yngra fólk velur og viðheldur vináttusamböndum. Ungt fólk hefur tilhneigingu til að leita virkt eftir nýjum tengingum, en hins vegar minnkar eldra fólk meðvitað félagsnet sitt. Þessi minnkun á fjölda tengsla hefur mikilvæga kosti, en henni fylgja einnig nokkrir gallar.

Haft er eftir prófessor Fiori að þegar fólk eldist breytist sýn þess á framtíðina. Forgangsröðunin breytist eftir því sem styttist í hinn enda lífsins. Við eldumst og við einblínum meira á fámennan og góðan vinahóp. Yngra fólk lítur hins vegar á framtíð sína sem víðfeðma, fulla af nýjum tækifærum, spennandi áskorunum og leggur því áherslu á að byggja ný og spennandi tengsl. Þá sýnir rannsóknin að eldri einstaklingar draga úr viðhaldi á lauslegum kunningskap, sem áður fyrr var mikilvægur í lífi þess.

Þessi félagslegi munur á eldra og yngra fólki er þó engan veginn algildur. Þegar yngra fólk er minnt á brothætt eðli lífsins og takmarkaðan tíma sinn á jörðinni, breytast félagsleg markmið þeirra einnig úr víðfeðmari stefnu yfir í markvissari stefnu samkvæm rannsóknum.

Hvort þessar félagslegu tengingar eldra fólks meðal Íslendinga eru sambærilegar við Bandaríkin skal ósagt látið, en rannsóknin gefur sannarlega tilefni til að samanburðarrannsóknar hér á landi.

Sjá í RÚV: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-12-felagsleg-tengsl-geta-baett-heilsu-og-dregid-ur-sjukdomsahaettu-432702

Emil B. Karlsson

The Elders – Öldungarnir

Myndin er skjáskot af forsíðu vefs Öldunganna sem opnast ef ýtt er á myndina.

Samtökin The Elders – Öldungarnir eru hópur áhrifamikilla leiðtoga á heimsvísu sem hafa sameinast um að takast á við mikilvægar áskoranir mannkyns og stuðla að friði, mannréttindum og sjálfbærni.

Þessi samtök voru stofnuð árið 2007 að frumkvæði Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður Afríku, en hann hefur orðið heimstákn friðar, sátta og félagslegs réttlætis vegna baráttu sinnar gegn kynþáttamisrétti og grimmri aðskilnaðarstefnu Suður Afríku. Hann hlaut, ásamt DeKlerk þáverandi forseta, friðarverðlaun Nóbels 1993 og var síðan kjörinn forseti fyrstu lýðræðislega kjörnu ríkisstjórnar Suður Afríku sem byggði á jafnrétti án mismununar vegna uppruna og kynþáttar og gegndi því embætti árin 1994 – 1999.

Hugtakið Elder/Öldungur getur haft ýmsar merkingar. Í huga höfundar þessara lína er Öldungur eldri einstaklingur af hvaða kyni sem er, sem eins og aðrir aldraðir búa yfir langri lífsreynslu og þekkingu sem hægt er að nýta til gagns og gamans, en Öldungurinn býr auk þess yfir visku, vilja og hæfileikum til að leiða og miðla af þekkingarbrunni sínum til farsællar þróunar mannlegs samfélags.

Í þeim skilningi bera samtökin Öldungarnir það nafn með rentu. Þau sem þar hafa verið virk eru gjarnan fyrrverandi leiðtogar eða virtir einstaklingar á heimsvísu sem hafa haft forystu um aðgerðir í þágu friðar og verið talsmenn félagslegs réttlætis og mannúðarstarfs. Hugmynd Mandela var að Öldungarnir væru hópur sem gæti gripið inn í þegar alþjóðlegt hættuástand kemur upp og veitt leiðsögn án þess að vera bundinn af pólitískum eða þjóðlegum hagsmunum.  Þeirra á meðal eru og hafa verið meðal annarra Kofi Annan, Ban Ki-moon, fyrrum framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna, Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands, Desmond Tutu, erkibiskup og hin nýlátni Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti.

Meginmarkmið Öldunganna er að nýta reynslu og áhrif meðlima sinna til að takast á við brýn alþjóðleg málefni á borð við lausn ágreiningsmála, mannréttindi, loftslagsbreytingar, jafnrétti kynjanna og fleira. Hópurinn leitast við að miðla málum og veita forystu í mikilvægum málum þar sem diplómatískra eða pólitískra lausna er þörf. Nálgun Öldunganna er sjálfstæð og óháð og þau beita gjarnan diplómatískum aðferðum á bak við tjöldin, miðla sérfræðiþekkingu og taka siðferðilega forystu við aðstæður þar sem svigrúm hefðbundinna stjórnmála gæti verið takmarkað. Markmiðið er að veita stjórnvöldum óhlutdræga ráðgjöf, stuðla að félagslegu og efnahagslegu réttlæti og styðja friðarferli.

Meðal sviða þar sem Öldungarnir hafa látið til sín taka eru:

Mannréttindi fyrir hönd jaðarsettra hópa, jafnrétti kynja og réttindi minnihlutahópa
Friðarviðræður og diplómatísk leiðsögn á átakasvæðum
Loftslagsbreytingar og sjálfbærni með stuðningi við alþjóðasamninga
Heilbrigðismál á heimsvísu, aðgengi  að þjónustu og alþjóðleg heilbrigðisvandamál.
Þrátt fyrir að Öldungarnir hafi ekki opinbert vald, gerir siðferðileg forysta og víðtækt tengslanet þeim kleift að hafa áhrif á alþjóðlega umræðu og stefnumótun. Þau vinna iðulega með ríkisstjórnum, frjálsum félagasamtökum og öðrum samtökum til að vinna að markmiðum sínum.

Í stuttu máli eru Öldungarnir einstakur hópur viturra leiðtoga sem vinna að bættum heimi með því að takast á við flókin hnattræn málefni með áherslu á frið, réttlæti og sjálfbæra þróun. Höfundur þessa pistils vonar að Öldungarnir geti í krafti sinnar siðferðilegu forystu haft jákvæð áhrif á stöðu og fyrirsjáanlega þróun heimsmála, sem í dag lúta stjórn og ofbeldi ýmissa aldraðra valdhafa.

Þessi grein er að mestu tekin saman og  unnin upp úr upplýsingum á vef The Elders og má nálgast hana  hér. Þar er að finna mikið efni um starf  Öldunganna og lýsingar á starfi þeirra og verkefnum.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamaður á RÚV, tók viðtal við eina af Öldungunum, Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, sem birtist í Silfrinu á Rúv 18.nóvember 2024. Viðtalið er mjög áhugavert og gefur innsýn inn í verk og viðhorf Öldunganna. Viðtalið er í lok þáttarins og hefst þegar 41,15 mínútur eru liðnar af þættinum, sjá:

Silfrið | RÚV Sjónvarp

Hans Kr. Guðmundsson

„Ég brenn fyrir eldra fólki“.

Í upphafi hvers árs  hellist yfir okkur alda auglýsinga frá heilsuræktastöðvum sem sýna okkur vel þjálfaða og  sveitta kroppa fólks í yngri kantinum sem hleypur hálft maraþon á hlaupabrettum á milli þess sem það þeitir ketilbjöllum og lóðum hátt til himins. Það er því ekki að undra að það þyrmi yfir konu á sjötugsaldri að að taka ákvörðun um skrá sig á slík námskeið, enda þótt viljinn kunni að vera fyrir hendi.

Nýlega rakst ég á  viðtal við Helenu Björk Jónasdóttur íþróttakennara, sem hefur helgað sinn feril að stuðla að hreyfingu eldra fólks. Í viðtalinu segir Helena Björk hvernig það æxlaðist að hún valdi að einbeita sér að hreyfingu eldri borgara umfram aðra aldurshópa.

„Ég réð mig í afleysingar í eitt ár til að sinna hreyfingu eldri borgara þegar ég var 24 ára gömul. Nýútskrifuð úr íþrótta- og heilsufræði, sá ég auglýsingu um starf á Hrafnistu við að þjálfa eldra fólk, vatnsleikfimi, boccia, dans, pútt, stólaleikfimi, tækjasalur og fleira sem mér fannst afar spennandi. Fólk á aldrinum 70 – 100 ára var eini aldurshópurinn sem ég hafði aldrei komið nálægt því að þjálfa. Núna 24 árum seinna er ég enn að þjálfa eldra fólk og ég elska það. Fólk sem er að glíma við alls konar hindranir, áskoranir og verkefni sem lífið hefur rétt þeim“.
Eftir að hafa starfað á Hrafnistu í Hafnarfirði í 23 ár sagði hún  skilið við vini sína þar og hóf störf á HL Stöðinni í Hátúni sem er Endurhæfingastöð hjarta- og lungnasjúklinga. Þar er hún að þjálfa nemendur á breiðu aldursbili en þó eru flestir komnir í seinni hálfleik í lífinu. Helena segir að á HL stöðinni ríki sérstök stemning og andi sem erfitt sé  að lýsa með orðum.
Þú finnur þegar þú kemur inn á Stöðina hversu gott andrúmsloftið er og hversu fallega samfélag samheldnin og samhugs, hefur skapast þarnaí gegnum árin“.

Rétt fyrir áramót tók Helena einnig við starfi íþróttafræðings hjá Takti Endurhæfingu sem er fyrir aðila sem hafa verið greindir með Parkinsonsjúkdóminn. Líkt og á HL Stöðinni vinnur Helena með fólk á breiðu aldursbili þó þangað sæki frekar eldra fólk.

„Að vinna með eldra fólki eru forréttindi“ segir Helena sem segir að frásögn eldra fólks og  reynsla þess hafi kennt henni mikið, „Mér finnst ég oft hafa lært miklu meira af þeim heldur en ég hef nokkurn tímann getað kennt þeim. Að elska það sem maður gerir og þykja vænt um þá sem maður er að vinna með skiptir mig líka miklu máli“.

Eitt af því sem Helena kveðst hafa lært er að taka lífið og sjálfa sig  ekki allt of alvarlega. Hún segist reyna að vera létt og kát og að fyrir sig hafi það  virkað vel. Hennar upplifun gegnun þessi ár sem hún hefur unnið með eldra fólki er að hlutirnir gerist í seinni hálfleik. Því er um að gera að fyrir eldra fólk að finna þjálfun við hæfi hjá fólki eins og Helenu.

Hjördís Hendriksdóttir

Ég brenn fyrir eldra fólki - Helena Björk Jónasdóttir, íþróttakennari

Helena Björk Jónasdóttir, íþróttakennari

Væntanlegir fyrirlestrar og viðburðir
U3A Reykjavík

Fyrirlesarar 2025-02

F.v.: Óttar Guðmundsson, Jóhanna Þórhallsdóttir, Ingunn Ásdísardóttir, Páll Jakob Líndal, Sigurborg Birgisdóttir og Baldur Hafstad

4. febrúar koma Óttar Guðmundsson, geðlæknir og rithöfundur og Jóhanna Þórhallsdóttir, listamaður í Hæðargarð 31 og fjalla um Sigurð Breiðfjörð rímnaskáld, ævi hans og samtíð en Óttar skrifaði bók um Sigurð: Kallaður var hann kvennamaður sem kom út 2024.

11. febrúar  Þriðjudaginn 11. febrúar kemur Ingunn Ásdísardóttir  í Hæðargarð og kynnir ritverk sitt  Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi.

18. febrúar kemur Páll Jakob Líndal sálfræðingur og fjallar um Umhverfi og líðan.

19. febrúar stendur menningarhópur U3A fyrir heimsókn í Seðlabanka Íslands.

25. febrúar mun Sigurbjörg Birgisdóttir sérfræðingur í sjálfboðaliðastjórnun hjá Rauða krossinum  fjalla um jákvæð áhrif sjálfboðaliðastarfa á einstaklinginn og á samfélagið í heild.

4. mars mun Dr. Baldur Hafstað í norrænum fræðum fjalla um Gamla áhrifavalda eins og Ara fróða, Maurer og Jónas frá Hriflu og hvort unga fólkið sé að verða afhuga Íslendingasögunum?

Fyrirlestrar fara fram í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík kl. 16:30. Nánari upplýsingar og skráningar á fyrirlestra og viðburði má finna á heimasíðu U3A  https://u3a.is/vidburdayfirlit/
Félagar eru hvattir til að senda stjórn U3A tillögur að fyrirlestrum og viðburði á netfangið u3areykjavik@gmail.com
 
Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík

Scroll to Top
Skip to content