Jólakveðja frá U3A Reykjavík
U3A er komið í jólafrí. Á haustönninni sem nú er að ljúka höfum við fengið til okkar fjölda fyrirlesara sem bæði fræddu og skemmtu okkur. Við heimsóttum söfn, fórum í leikhús, á tónleika og ferðuðumst til Tyrklands.
Í dag eru félagar U3A Reykjavík 1.500 manns og fer fjölgandi. Stjórn U3A og starfandi hópar á vegum félagsins eru nú í óðaönn að skipuleggja vordagskrá fyrir árið 2025 með markmið félagsins að leiðarljósi þ.e. „að stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreyttri fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða“.
Að meðaltali koma 40 manns í salinn í Hæðargarði á þriðjudögum til að njóta fyrirlestra og fræðslu sem boðið er upp á og til að taka þátt í umræðum. Að jafnaði fylgjast 10 manns til viðbótar með fyrirlestri í streymi. Fyrirlestrarnir eru teknir upp og félagsmenn hafa aðgang að upptökum í fjórar vikur eftir flutning. Á þeim tíma opna að meðaltali 200 manns fyrirlesturinn í eigin tölvu og njóta þannig fræðslunnar. Auk þess hefur U3A Reykjavík gert samning við Landssamband eldri borgara um að veita samtökum þeirra utan höfuðborgarsvæðisins aðgang að upptökunum og geta félögin sýnt þær á fundum sínum.
Stjórn U3A þakkar félagsmönnum fyrir jákvæðar viðtökur á árinu. Við óskum ykkur gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.
Hjördís Hendriksdóttir, formaður U3A Reykjavík
„Ég verð að hrökklast inn í skápinn aftur. Ég þori ekki annað“
Hvernig er að eldast hinsegin á Íslandi?
Þau sem stóðu að stofnun Samtakanna ’78 á sínum tíma eru komin á ellilífeyrisaldur. Af þeim sökum blasa við nýjar áskornir þessa hóps sem mörg hver þurfa að endurlifa gamla fordóma frá yngri árum sem þau höfðu sigrast á – nú á síðasta æviskeðinu.
Við hjúkrunarheimilum landsins blasir alveg nýr veruleiki: Fólk sem er að koma þar inn hefur sumt verið opið með sína kynhneigð og út úr skápnum mestan hluta ævinnar. Þetta fólk hefur ekki verið í felum með hver þau eru og vill halda því áfram. Það vill ekki fara inn í skápinn af því það er komið á hjúkrunarheimili.
Sama máli gegnir í búsetukjörnum fyrir eldra fólk eingöngu.
Vinur minn einn býr á slíkum kjarna og þar er auðvitað fyrir fólk sem er á svipuðum aldri og hann eða eldra. Skyndilega var hann aftur kominn í sömu stöðu og sem ungur maður þegar hann var einn stóð í fylkingrbrjósti í mannréttindabaráttu Samtakanna 78. Þá þurfti hann að líða einelti og hatursorðræðu sem hann hafði kjark og dug til að berjast gegn. Hann er að upplifa þessa tíma aftur inni á íbúðakjarnanum og er að einangrast þar. Því hann lokar að sér og lætur lítið fyrir sér fara, því hann heyrir hvískrið, sér bendingar og augngotur. Í sameiginlegum rýmum er hann sífellt á varðbergi því hann óttast að þurfa að upplifa það sama og hann þurfti mörgum áratugum áður. Hann hefur ekki það þrek lengur að verjast augliti til auglitis. Eða eins og hann sagði við mig: „Ég verð að hrökklast inn í skápinn aftur. Ég þori ekki annað. Ég er að mæta aftur fólki sem sýndi mér andúð í gamla daga. Ég get ekki tekið þessum fordómum aftur.“
Fyrir nokkrum árum fór kona nokkur hér á landi inn á hjúkrunarheimili, en hún upplifði þar að það væri ekki tekið tillit til reynslu hennar og langrar sambúðar hennar með konu. Hún hafi í raun verið komin inn í skápinn aftur af því að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að hún væri lesbísk. Ávallt sé gert ráð fyrir því, alveg frá leikskóla og upp úr, að foreldrar séu karl og kona og að maki sé af hinu kyninu.
Í stærri samfélögum eins og Danmörku eru rekin sérstök hjúkrunarheimili og íbúakjarnar fyrir þennan hóp, því Danir hafa áttað sig á að við þessu þarf að bregðast.
Fyrir nokkrum árum birtist viðtal við gamlan Dana sem var orðinn ekkill. Hann hafði stungið myndunum af sér og manninum sínum niður í skúffu. Honum fannst erfitt að þurfa að koma út úr skápnum aftur gagnvart öllu starfsfólkinu á þessu nýja heimili sínu, svo hann bara hrökklaðist inn í skápinn aftur. Svo var stofnað þetta nýtt hjúkrunarheimili, hann flutti þangað og er með allar sínar fjölskyldumyndir og regnbogafána upp um alla veggi, alls staðar. Þetta skiptir máli, það skiptir máli að fá að hvíla sæll í sjálfum sér, sama hvar þér er holað niður.
Í október sl. fór fram Norræn ráðstefna í Stokkhólmi um stöðu eldra hinsegin fólks á Norðurlöndunum með þáttakendum frá Íslandi, Svíþjóð, Grænlandi, Danmörku, Færeyjum, Noregi, Álandseyjum og Finnlandi.
Í lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem birtist HÉR á íslensku.
Viðar Eggertsson
Biðlistakona tjáir sig
Sigrún Stefánsdóttir
Ég er þreytt, reið en kannski mest hissa. Ég veit að ég á ekki að skrifa þegar ég er reið en ætla að gera það samt. Ég er meðal þeirra sem eru stimpluð sem afgangsstærð þjóðfélagsins. Ég er á biðlista eftir valkvæðri aðgerð. Stundum finnst mér einn staf vanta í orðið en það er bókstafurinn k – kvalkvæð aðgerð. Ég kalla ekki allt ömmu mína, en biðin á þessum lista tekur sannarlega toll af lífsgæðum.
Ég hlustaði á Silfrið á dögunum þar sem biðlistarnir voru ræddir. Tveir þátttakendur gerðu hálfgert grín af þessum lista. Þeir væru svo ungir að þetta kæmi þeim ekki við. þriðji var að agnúast út í að ríkið hefði samið við einkafyrirtæki sem væri út í hött. Heilbrigðisráðherra bætti litlu við umræðuna.
Sjúkratrygginar ríkisins voru í fréttum í vikunni. Stofnunin birti yfirlit yfir aðgerðir sem hafa verið gerðar hjá einkafyrirtækjum á þessu ári og þar með stytt hina alræmdu biðlista. Enn eru þeir hins vegar langir. Ég fékk spurningaskema frá Heilsuvernd í lok október þar sem mér var boðin aðgerð fyrir lok árs. Vildi ég þiggja það? Ég átti val um tvö einkafyrirtæki sem Sjúkratryggingar höfðu samið við. Það stóð ekki á svarinu mínu. Hvort ég vildi!! Næsta dag fékk ég upphringingu frá fyrirtækinu og þetta staðfest. Læknirinn hringir á eftir til þess að ákveða aðgerðardag, sagði stúlkan. Símtalið kom ekki. Nokkrum dögum seinna fékk ég tölvupóst þar sem læknirinn lýsir þessu útspili Sjúkratrygginga sem pólitískum ómöguleika. Fyrirtækið hans hafi lofað að taka að sér 100 aðgerðir það sem eftir lifir árinu en ég sé ekki búin að vera nægilega lengi á lista til þess að komast að. Því miður. Kannski í næstu lotu á nýju ári.
Þetta vekur upp spurningar um þessa biðlista. Á sínum tíma setti heimilislæknirinn mig á biðlista á fleiri en einum stað til þess að auka líkur á því að ég kæmist einhvers staðar að. Er það bara ég sem er margskráð? Varla. Hve eru margir á listunum búnir í aðgerð á annarri sjúkrastofnun? Hve margir eru dánir og þar með hættir biðinni? Ef Sjúkratryggingar treystu sér til þess að lofa öllum biðlistahópnum aðgerð fyrir áramót er margt sem bendir til þess að sú stofnun hafi ekki yfirsýn yfir stærð hópsins.
Í síðustu viku fékk ég upphringju frá sjúkrastofnun á suðurvestur horninu. Viltu koma í aðgerð 30. nóv.? Ég þakkaði boðið fagnandi og fór að gera mín plön. Panta gistingu og skipuleggja. Þá kom annað símtal. Við þurfum að fresta aðgerð um eina viku. Já, já. Allt í lagi. Biðlistafólkið hefur ekki leyfi til þess að hafa neinar skoðanir. Bara að segja já og þiggja það sem að þér er rétt.
Kunningi minn þurfti á „valkvæðri“ aðgerð að halda. Hann býr í Reykjavík. Hann fór á biðlista og var loks sendur til Akureyrar. Ég fór á biðlista hér á Akureyri en er nú að fara suður í aðgerð. Ég hlakka ekki til ferðarinnar heim með samansaumaða rasskinnina í vetrarfærðinni daginn eftir aðgerð. En ég segi bara já.
Þessa dagana eru frambjóðendur að lofa öllu fögru. Ég myndi kjósa þann flokk sem lofar að gera ítarlega úttekt á hinum raunverulegu biðlistum og hvort ekki væri hægt að koma á betra skipulagi og samvinnu milli þeirra sem sinna þessum aðgerðum. Það væri líka æskilegt að frambjóðendur lofuðu líka að hætta þessu þreytandi tuði um það hvort það sé réttlætanlegt að semja við einkareknar stofnanir í þessu lýðræðissamfélagi sem við búum í. Ég er vissum að þeir munu fljótt skipta um skoðun þegar þeir sjálfir verða komnir á biðlistaaldur.
Og svona rétt í lokinn. Margir foreldrar skrá ungabörnin sín á leikskóla strax við fæðingu. Ég legg til að þeir sem eru að komast á eftirlaunaaldur skrái sig strax á biðlista vegna yfirvofandi k-valkvæðra aðgerða.
Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Hvað er lífsskrá?
Þessu greinarkorni er ætlað að vekja athygli á gerð lífsskráar eða lífsviljaskráar eins og hún er einnig nefnd, en skráin er skjal með fyrirmælum einstaklings til heilbrigðisstarfsmanna um hvernig hann vill hátta meðferð við lífslok. Lífsskráin tekur gildi þegar einstaklingurinn getur ekki sjálfur tjáð sig um það og ekki er von um bata né að hann geti viðhaldið þeim lífsgæðum sem hann hefur skilgreint. Einstaklingur sem gerir lífsskrá getur tilnefnt umboðsmann sinn sem tekur ábyrgð á að fylgja eftir vilja hans og óskum þegar hann er ekki fær um það sjálfur.
Tilgangur með Lífsskrá er eins og segir á vefsíðu Hjartaheillar „Tilgangur lífsskrár er að einstaklingur fái að deyja með reisn og að aðstandendur séu eins sáttir við ákvarðanir sem teknar eru við lífslok og kostur er. Með lífsskránni hefur einstaklingurinn sjálfur tekið ákvörðun um að ekki sé hafin meðferð eða meðferð haldið áfram sem ekki hefur í för með sér raunhæfa von um lækningu eða líkn…“ Hafa skal þó í huga að vilji sem kemur fram í lífsskrá á við ákveðinn tímapunkt og getur breyst. Jafnframt að gerð lífsskráa er ekki aðeins fyrir þá sem eru komnir á efri árin og nálgast lífslok heldur fyrir alla á fullorðinsaldri.
Á sama vef eru tvær meginástæður tilgreindar fyrir því að einstaklingur kýs að gera lífsskrá
- að með lífsskrá getur hann haft stjórn á meðferð við lok lífs síns og
- að skráin léttir ákvörðunum um lífslok hans af aðstandendum.
Meðferðir sem einstaklingur vill ekki að séu viðhafðar við lífslok hans geta verið endurlífgun með hjartahnoði og/eða annar stuðningur við öndun eins og öndunarvél, blóðhreinsun með vélum, næring með slöngu eða slöngum eða gjörgæslumeðferð.
Hér á árum áður, 2005 til 2015, hélt embætti landlæknis utan um lífsskrár fyrir um 300 einstaklinga sem höfðu sent embættinu lífsskrá sína. Ástæða þess að embættið hætti að taka við þeim var sögð vera að lífsskráin var aðeins til á pappírsformi, aðeins væri hægt að nálgast hana á dagvinnutíma og að ekki væri lagastoð fyrir henni. Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 með áorðnum breytingum eru engin ákvæði um gerð lífsskráa en í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt sjúklings til þess að ákveða sjálfur hvort hann þiggur meðferð. Formaður félagsins Lífsvirðing hefur bent á að lífskrá geti verið rafræn og aðgengileg heilbrigðisstarfsmönum á hverjum tíma.
Nánari upplýsingar um lífsskrá og þar sem leitað var heimilda við þessi skrif eru m.a. að finna á vefsíðu Hjartaheillar, https://hjartaheill.is/2015/01/14/tilgangur-lifsskrar/ á vefsíðunni https://lifsvirding.is/index.php/frodleikur/lifsviljaskra og í grein, Endurvekjum lífsviljaskrána, eftir Ingrid Kuhlman, formann félagsins Lífsvirðing, https://heimildin.is/grein/16840/ Upplýsingar á ensku má t.d. finna á https://www.mayoclinic.org/healthy-lifestyle/consumer-health/in-depth/living-wills/art-20046303 og dæmi um eyðublað fyrir lífsskrá á vefsíðunni https://www.hov.org/media/1112/living-will_forms.pdf .
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
Höfum við gleymt tveggja-lotu nætursvefni?
Ef þú átt það til að vakna eftir nokkurra tíma svefn á nóttunni, liggja andvaka og sofna aftur nokkru síðar, skaltu ekki hafa áhyggjur. Það er nefnilega merki um hinn náttúrulega nætursvefn mannsins. Að sofa í einum dúr alla nóttina eru áskapaðar venjur seinni tíma kynslóða. Nætursvefn í tveimur lotum er hins vegar manninum eðlislægra. Þetta er niðurstaða bresks vísindamanns sem áratugum saman hefur rannsakað svefnvenjur forfeðra okkar og -mæðra.
Árþúsundum saman skipti fólk nætursvefni upp í tvö svefntímabil á hverri nóttu, í fyrri svefn og seinni svefn. Inn á milli gekk fólk til ýmissa húsverka, snæddi mat eða átti í rólegum samskiptum hvert við annað, áður en það lagðist aftur til hvílu. Á tímanum sem leið milli þessara tveggja svefnlota hafi hjón jafnframt verið upplögð í að sinna sínum rómantísku athöfnum. Það var fyrst stuttu fyrir iðnbyltingu að fólk tók upp svefnvenjur nútímamannsins, þar sem sofið er samfleytt í einum dúr yfir nóttina til að vera úthvíldur fyrir daglegt brauðstrit allan tímann meðan dagsbirtu nýtur við.
Breski sagnfræðingurinn Roger Ekirch komst fyrst á snoðir um þessar svefnvenjur forfeðra okkar í lok síðustu aldar. Hann hefur helgað sig þessum rannsóknum og meðal annars skrifað um það bókina „At Day‘s Close: A History of Nighttime“. Ekirch nefnir fjölda dæma úr rituðum heimildum, allt frá Forngrikkjum um 800 f. Kr. og mun fleiri heimildum frá miðöldum, þar sem þessum svefnvenjum er lýst eins og sjálfsögðum hversdagsvenjum. Í Frakklandi var fyrri svefn kallaður “premier somme“; og á Ítalíu “primo sonno“. Raunar rekur Ekrich einnig dæmi um lýsingar á tvískiptum nætursvefni til Afríku, Suður- og Suðaustur Asíu, Suður-Ameríku og Miðausturlanda. Þá hefur hann fundið söngtexta þar sem sungið er um dásemdir bæði fyrri og seinni svefns.
Með því að rýna í heimildir telur Roger Ekirch algengt að fólk hafi vaknað af sjálfsdáðum eftir um tveggja til þriggja klst. svefn um kl 23 og vakað til um kl 01 eftir miðnætti. Þetta hafi verið náttúrunnar gangur.
Í dýraríkinu má sjá þessar tvískiptu svefnvenjur samkvæmt niðurstöðum Ekirchs. Nefnir hann dæmi því til sönnunar og telur það renna frekari stoðum undir þá kenningu að slíkur svefn sé okkur mannskepnunum eðlislægur.
Ánægjulegustu niðurstöður þessarar rannsóknar telur Ekirch vera fyrir þá sem líða af þannig svefnvanda að þeir vakni um miðjar nætur, vaki í nokkurn tíma og velti sér í rúminu andvaka. Alltof margir taki lyf við þessum „vanda“, án þess að gera sér grein fyrir að tvískiptur nætursvefn hefur verið okkur eðlislægur frá örófi alda.
Þá má minna á að til skamms tíma var algengt hjá íbúum í heitum, suðlægum löndum og víðar að leggja sig eftir miðdegismáltíð dagsins, svokölluð siesta. Á sama hátt var algengt til sveita hér á landi að karlar legðu sig eftir hádegismat (ekki man ég til þess að konur hafi veitt sér þann munað). Í seinni tíð hafa margir málsmetandi menn, m.a. þekktir stjórnmálamenn eins og Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, ráðlagt öllum sem geta, að leggja sig eftir hádegismat til að ná kröftum fyrir átök síðari hluta dagContinue sins.
Góða nótt!
Fundur með lettneskum sveitarstjórnarmönnum
Formaður og varaformaður U3A Reykjavík kynntu félagið og starfsemi þess fyrir hópi lettneskra sveitarstjórnarmanna á fundi miðvikudaginn 26. nóvember. Við greindum frá markmiðum félagsins að stuðla að fræðslu og virkni félagsmanna alla ævi. Sögðum frá vinsældum þriðjudagsfyrirlestra svo og starfsemi hópanna sem eru virkir, heimsóknum og ferðalögum félagsmanna. Eftir kynningu okkar var spurt og spjallað, m.a. um hvernig við náum til félagsmanna með upplýsingar.
Félaginu berast reglulega erindi frá aðilum sem óskaa eftir kynningu á starfseminni og er í öllum tilvikum brugðist við slíkum beiðnum. Að þessu sinni var beiðnin frá fyrirtæki sem skipulagði Íslandsheimsókn lettneskra sveitarstjórnarmanna sem flestir starfa í mennta- og menningarmálum. Megináhersla hópsins var á að kynna sér fullorðinsfræðslu, hvata fullorðinna til frekari menntunar og fræðslutilboð til eldri borgara. Starfsemi U3A Reykjavík var því meðal þess sem hópurinn óskaði eftir að kynna sér.
Heimsókn hópsins frá Lettlandi til Íslands er hluti af evrópsku samstarfsverkefnis sem styrkt er af Uppbyggingarsjóði EFTA.
Jólafundur U3A Reykjavík
Jólafundur U3A Reykjavík verður haldinn miðvikudaginn 4. desember kl. 15:00 í sal á veitingastaðnum Nauthól. Samkvæmt venju á jólafundi fáum við kaffi og meðlæti og það verður tími fyrir samveru og spjall.
Skrá mig hér
Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur flytur erindi sem hún nefnir: Gömlu, gleymdu jólafólin. Flestir þekkja gamlar og ljótar sögur um Grýlu sem var hryllileg mannæta og jólasveinana sem forðum voru til vandræða hvar sem þeir komu. Sumir í fjölskyldunni eru samt að mestu gleymdir eins og fyrri eiginmenn Grýlu og jólasveinar eins og Lungnaskvettir, Flórsleikir eða Flotnös. Sagt verður frá óhugnanlegum sögum og þjóðtrú um Grýlu og hennar hyski. Sumt af því hentar varla mjög ungum börnum eða viðkvæmum sálum, en öll sem þora eru hjartanlega velkomin!
Aðgangseyrir er kr. 4.200.- sem greiðist inn á reikning U3A Reykjavík.
kt: 430412-0430
reikn: 0301-26-011864.
Vinsamlegast merkið greiðsluna með kennitölu greiðanda.
Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík