Áramótakveðja frá stjórn U3A Reykjavík
Um leið og við óskum félagsmönnum árs og friðar viljum við þakka góða þátttöku í starfinu á árinu sem er að líða. Þriðjudagsfyrirlestrar í Hæðargarði hafa verið sérstaklega vel sóttir í haust, að meðaltali hafa 56 manns mætt í salinn og 152 að auki horft á upptöku af fyrirlestrunum í þá viku sem þeir hafa verið aðgengilegir. Þannig njóta að meðaltali 208 manns fyrirlestranna. Viðburðir menningarhóps hafa verið vel sóttir og oftar en ekki fullbókað á þá. Aðrir hópar hafa einnig verið virkir og umhverfishópur hefur staðið að fyrirlestri um loftslagsmál og stefnir að málþingi í janúar.
U3A Reykjavík hefur nú gert samning við FEB sem felur í sér að formönnum félaga eldri borgara utan höfuðborgasvæðisins býðst að sýna félagsmönnum sínum upptöku fyrirlestra í þeirra samkomusal sem mun væntanlega auka áhorf enn frekar.
Baráttan við verðlagið og verðbólguna
Eftirlaun og lífeyrisgreiðslur okkar taka takmarkað (ef eitthvað) mið af hækkandi verðlagi, vöxtum né verðbólgu. Árum saman hefur því verið haldið fram að verðskyn Íslendinga sé skert m.a. vegna flöktandi krónu. Við upplifum flest að verð á nauðsynjavörum eru að hækka en munum kannski ekki nákvæmlega hvað bláa mjólkin kostaði síðast þegar við né í hvaða verslun.
Nú hefur Alþýðusamband Íslandshefur lagt til ókeypis og einfalt verkfæri til að aðstoða okkur að gera verðsamanburð á vörum á milli verslana. Það er gert með nýju smáforriti sem heitir Prís sem maður hleður niður í síma. Með smáforritinu geta notendur á augabragði skoðað mismunandi verðlagningu vara á milli verslana. Það er gert með því að skanna strikamerki á tiltekinni vöru og þá birtist strax hvað varan kostar í fjölda verslana. Ef að þú t.d. skannar strikamerkinguna á Kristal í áldós kemur fram að dósin kostar kr. 108 í Krónunni, kr. 129 í Nettó og kr. 249 í Iceland. En ein vara er ekki til marks um almennt verðlag í viðkomandi verslun. MS mjólk með tappa er t.d ódýrust í Nettó – mun ódýrari en í Bónus og Krónunni.
Neytendur eru hvattir til þess að nota þeitta auðvelda smáforrit og veita þannig virkt aðhald með samkeppni á smásölumarkaði.
Smáforritið er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og iOS.
Nýtt ár – nýtt dagatal 2024
Þá er enn eitt árið liðið. Ég upplifi alltaf svolítið blendnar tilfinningar þegar ég horfi á ártalið fjara út á sjónvarpskjáunum og hlusta á „Þá árið er liðið“. Ég upplifi samtímis eftirsjá, þakklæti og eftirvæntingu. Með árunum hef ég gert mér grein fyrir hvað lífið hefur fært mér og orðið þakklátari fyrir.
Á árum áður fylgdi ég þeirri aldagömlu hefð, líkt og 50% íbúa hins vestræna heims, að strengja áramótaheit. Í janúarfréttabréfinu okkar 2021 fjölluðum við um 10 vinsælustu áramótaheitin og þar kemur ekkert á óvart sjá: https://voruhus-taekifaeranna.is/frettabref/frettabref-i-januar-2021/ Sjálf strengdi ég áratugum saman vinsælasta áramótaheitið: að missa fullt fullt af kílóum.
En nú er ég steinhætt að strengja megrunar-áramótaheiti. Einhver kíló til eða frá er ekki það sem skiptir mestu máli. Nú þegar sit ég fyrir framan nær því autt dagatal í tölvunni minni fyrir árið 2024 ætla ég að fylla það með öllu því „skemmtilega“ sem ég ætla að gera á árinu. Nú plana ég matarboð og hittinga með ættingjum og vinum, að fara í bíó- og á leiksýningar, á þriðjudags-fyrirlestra U3A, á hljómleika, að vinna sem RK sjálfboðaliði í þágu hælisleitenda, fara í ferðalög innanlands og utan, sumargöngu með kvenna-gönguhópnum mínum og fl. og fl.
Sumt er þó misskemmtilegt sem ég set inn í dagatalið mitt og er ekki skemmtilegt fyrr en eftir á. Mér finnst t.d. ekkert sérlega gaman að fara í líkamsræktarstöðina og púla. En þá notast ég við ráð líkamsræktarþjálfara sem sagði mér að bera saman líðan mína fyrir og eftir spriklið. Líðan mín er auðvitað betri eftir spriklið – sem er þá „skemmtilegt“ eftir á. Þetta trix má nota við alls konar verkefni sem ekki vekja endilega eftirvæntingu en geta skapað vellíðan eftir á eins og t.d. eftir að maður tekur til í geymslunni eða hreinsar til í fataskápnum. Svo getur maður verðlaunað sig eftir á með kaffibolla og krossgátu.
Ég óska lesendum Fréttabréfsins okkar gleðilegs nýs árs. Vonandi verður 2024 dagatalið ykkar gjöfult og skemmtilegt.
U3A eflir félagsstarf eldra fólks um dreifðar byggðir
U3A – Háskóli 3ja æviskeiðsins hefur hrint af stað tilraunaverkefni í samstarfi við LEB – Landssamband eldri borgara. U3A veitir aðildarfélögum LEB utan höfuðborgarsvæðisins tímabundinn aðgang að fyrirlestrum U3A sem haldnir verða á árinu 2024.
LEB hefur gert samning við U3A – Háskóla 3ja æviskeiðsins um rafrænan aðgang að sínum vikulegu fyrirlestrum fyrir aðildarfélög LEB sem eru utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessu vill U3A leggja sitt af mörkum til að efla félagslíf og fræðslu um dreifðar byggðir landsins
Þetta er röð fyrirlestra sem eru afar fjölbreittir, áhugaverðir og skemmtilegir, eins og félagsmenn U3A þekkja og vita. Fyrirlestrarnir eru haldnir vikulega í bækistöðvum U3A í Félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar að Hæðargarði 31, 108 Reykjavík, 8 mánuði ársins (janúar – maí / september – nóvember).
Fyrirkomulag:
Hver fyrirlestur er haldinn á þriðjudegi og í sömu viku sendir U3A LEB slóð á upptöku sem gildir í 10 daga.
LEB sendir slóðina til formanna aðildarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.
Formennirnir mega aðeins nota upptökurnar til að sýna í samkomusal fyrir félagsmenn sína, en ekki dreifa upptökunum.
Þeir einstaklingar sem vilja njóta fyrirlestranna heima hjá sér, gerast einfaldlega félagsmenn í U3A og þá fá þeir senda fyrirlestrana á eigið netfang og geta notið hvers fyrirlesturs innan 10 daga eftir heimsendingu. Árgjald að U3A fyrir hvern einstakling er afar lágt, 2.000 kr.
Tillaga að fyrirkomulagi hjá einstökum aðildarfélögum:
Lagt er til að stjórnir/formenn aðildarfélaga LEB komi á vikulegum, reglubundnum sýningum á fyrirlestrunum, sem hluta af starfsemi sinni.
Fyrsti fyrirlesturinn verður í annari viku janúar (þriðjudaginn 9. janúar) og þá er heppilegt að sýna hann ákveðinn dag í þriðju viku janúar. Síðan koll af kolli… 😊
Af hverju bara utan höfuðborgarsvæðisins?
U3A eru frjáls, óhagnðardrifin félagasamtök sem byggir afkomu sína á félagsgjöldum sinna félagsmanna, og heldur úti öflugu starfi með aðsetur sitt í Reykjavík. Eldra fólk á höfuðborgarsvæðinu (Hafnarfjörður, Garðabær, Álftanes, Kópavogur, Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbær) á betra tækifæri á að sækja fyrirlestra U3A en þau sem búa út á landi. Þessi nýji samningur LEB og U3A er tilraunaverkefni til eins árs til að efla félagslíf utan höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega í dreifðum byggðum þar sem fólk hefur ekki sama aðgengi að fjölbreyttri fræðslu eins og gefst oft í þéttbýli sem höfuðborgarsvæðið er.
Tom Holloway minnst
Fyrsta vefsíða U3A Reykjavík, uppsett 2012
Við minnumst með þakklæti frumkvöðulsins Tom’s Holloway sem lést 1. desember síðastliðinn.
Tom Holloway skipti sköpum við stofnun og framgang U3A Reykjavík á árdögum samtakanna. Tom var kerfisfræðingur og vefgerðarmaður sem bjó í Hyderabad á Indlandi. Tom og Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir, sem átti frumkvæði að stofnun U3A Reykjavík, kynnust á ráðstefnu WorldU3A í Chitrakoot á Indlandi árið 2010. Bauðst Tom þá til þess að hanna og halda úti vefsíðu U3A samtaka á Íslandi ef Ingibjörg stofnaði þau. Það gekk eftir og aðeins tveimur vikum eftir að U3A Reykjavík var stofnað fór vefsíða samtakanna í loftið. Vefsíðan var ómetanleg við kynningar á samtökunum sem fylgdu í kjöfar stofnunar þeirra þar sem hægt var að vísa í hana til upplýsinga um samtökin, hvað þau stóðu fyrir og starfsemi þeirra.
Tom hélt vefsíðu U3A Reykjavík úti í tvö ár en þá tók Ingibjörg við í kjölfar þess að Tom kom til Íslands í vikutíma til þess að kenna henni að búa til nýja vefsíðu fyrir samtökin. Auk vefsíðunnar var hann alltaf tibúinn að veita góð ráð þegar þurfti með. Tom hélt einnig fjar-fyrirlestur um Indland á einum af fyrstu viðburðum U3A Reykjavík.
Tom var mikill baráttumaður fyrir hugmyndafræði U3A hreyfingarinnar og vann að henni til dauðadags. Það gerði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri og ritstjóri fyrir WorldU3A sem þjóna U3A samtökum víða um heim gegnum netið sem og önnur tengslanet. Tom bjó í Hyderabad, Indlandi, mestan hluta ársins í 17 ár þar til fyrir nokkrum árum síðan er hann flutti alfarið til Englands. Í Hyderabad starfaði Tom í fátækrahverfum borgarinnar m.a. við skóla og að setja upp vefsíður fyrir góðgerðarfélög.
Tengsl Toms við U3A Reykjavík héldust órofin gegnum Ingibjörgu, fyrsta formann U3A Reykjavík og Hans Kristján Guðmundsson, fyrrverandi formann samtakanna, þar til hann lést.
Þriðja æviskeiðið - Á döfinni úti í heimi
Á þeim tæpu tólf árum sem liðin eru frá stofnun samtakanna U3A Reykjavík, háskóla þriðja æviskeiðsins, hefur sérstaða þeirra í starfi í þágu okkar sem erum á þessum gullnu fullorðinsárum ekki hvað síst falist í alþjóðlegri tengslamyndun og miðlun upplýsinga um það sem efst er á baugi í málefnum þessa sívaxandi aldurshóps um heim allan.
Auk aðildar að alþjóðasamtökum U3A (AIUTA) og hinna evrópsku samstarfsverkefna sem unnin hafa verið, má fullyrða að tengslanetið Pass it on Network séu ein mikilvægustu tengslin sem hafa opnað fyrir miðlun bæði utan úr heimi og frá okkar starfi út í heim. Í fyrri fréttabréfum hefur iðulega verið sagt frá ýmsu sem miðlað er og rætt á mánaðarlegum rafrænum netfundum. Þessir fundir eru teknir upp og eru aðgengilegir á YouTube rás tengslanetsins, Pass It On – YouTube. Á desemberfundinum var fjallað um áhrif gervigreindar á stöðu eldra fólks í framtíðinni, og á janúarfundinum er fjallað um það hvernig beita má Montessori kerfinu við umönnun eldra fólks með heilabilun.
Mánaðarlega er svo gefið út fréttabréfið Global PIONeer Gazette þar sem tíundaðar eru helstu fréttir af starfi með og fyrir eldra fólk um heim allan. Í desemberfréttabréfinu kennir margra grasa. Nefna má þar frásögn af starfi OEWGA, Vinnuhóps Sameinuðu þjóðanna um málefni aldraðra þar sem PION netið hefur verið virkt í að fylgja eftir áralangri en árangurslítilli vinnu að sáttmála um réttindi og velferð aldraðra sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki tekið þátt í. Starf OEWGA hefur verið tíundað í fyrri fréttabréfum U3A Reykjavík.
Þar má líka lesa um og skoða Hvítbók um öldrun frá Alþjóðlegu langlífismiðstöðinni í Bretlandi (ILC-UK) þar sem fimm ára stefnumörkun 2023-2028 leggur áherslu á áhrif langlífis fyrir alla aldurshópa – lífshlaupið allt – ekki eingöngu á eldra fólk.
Að lokum skal hér bent á umfjöllun um vinnu samtakanna Age Platform Europe að stefnuyfirlýsingu – Age Manifesto – fyrir kosningaárið 2024 í Evrópu, þar sem lögð er áhersla á jafnrétti, þátttöku, virka öldrun og tryggt sjálfstæði og velferð.
Margt fleira er að finna í þessu desemberfréttabréfi PION netsins og er áhugafólk um virka öldrun og stöðu aldraðra í samfélaginu hvatt til að fylgjast með starfi þessa mikilvæga tengslanets.
Viðburðir U3A Reykjavík í janúar 2024
F.v.: Ólafur Páll Jónsson, Björn Örvar, Guðmundur Hálfdánarson
Í janúar eru fjölbreyttir fyrirlestrar og viðburðir á dagskrá sem fyrr:
9. janúar: Borgaraleg óhlýðni, Ólafur Páll Jónsson.
16. janúar: Getum við framleitt kjöt án þess að drepa dýr, Björn Örvar ORF Líftækni.
23. janúar: Palestína og Ísrael: óleysanleg deila?, Guðmundur Hálfdánarson.
24. janúar: Menningarhópur efnir til heimsóknar á Ljósmyndasafn. Reykjavíkur, kl. 14:00. Spjall á kaffihúsi í miðborginni að heimsókn lokinni.
30. janúar: Umhverfishópur stefnir að málþingi um loftmengun í þéttbýli – áhrif á heilsu eldri borgara. Fyrirlesarar auglýstir síðar.
Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík.