Fréttabréf U3A
Febrúar 2024

Snilld að vinna við að læra að verða eldri borgari

Lífið, maður lifandi, lífið! Það tekur mann með sér á ólíklegustu staði og útdeilir manni ýmsum áhugaverðum hlutverkum.

Þegar ég var kominn undir sextugt fylltist ég áhuga á og forvitni um hvernig kjör eldra fólks væru í raun þegar það kæmist loks á eftirlaun. Mér bauðst hlutastarf hjá LEB – Landssamband eldri borgara og tók því fagnandi. Þá settist ég í raun á skólabekk í eftirlaunafræðum og kallaði mig gjarnan „Verðandi eftirlaunamann í starfsþjálfun“

Eini starfsmaðurinn á skrifstofunni við hlið formanns hverju sinni.

Starfið hefur verið margvíslegt, fyrir utan að sinna almennum skrifstofustörfum af öllu tagi, hef ég komið að brýnum stefnumálum LEB. Þar erum við að tala um helst kjaramál, heilbrigðismál, réttindamál og önnur velferðarmál sem snerta þennan stóra og breiða hóp fólks. Því hópurinn er langt frá því að vera einsleitur. Það eru um 53.000 manns 67 ára og eldri. Áherslur í starfinu hafa einkum beinst að þeim hluta hópsins sem hverju sinni stendur höllum fæti eftir því hvaða málaflokkur er undir hverju sinni.

Fólk hefur átt erfiðast með að fóta sig í reglum sem varða eftirlaun þess og þar kemur til samspil greiðslna frá lífeyrissjóðum annars vegar og frá almannatryggingum (TR) hinsvegar.

En í raun er kerfið sáraeinfalt eftir að ný lög um almannatryggingar tóku gildi 1. janúar 2017. Þau sneru einfaldlega algjörlega við fyrra módeli. Sem varð til þess að greiðslur úr lífeyrissjóðum eru nú fyrsta stoð og greiðslur frá TR urðu önnur stoð og því víkjandi eftir að greiðslur lífeyrissjóða og allar aðrar tekjur eru taldar.  Því allar tekjur skerða rétt til ellilífeyris frá TR, eftir tvenns konar frítekjumörk pr. mánuð: 25.000 kr. almennt frítekjumark og 200.000 frítekjumark vegna atvinnutekna.

Margir átta sig ekki á að bankavextir og verðbætur af bankareikningum teljast tekjur (fjármagnstekjur) í skilningi laga um almannatryggingar, jafnvel þó vextir séu í raun neikvæðir.  Fjármagnstekjur falla undir almenna frítekjumarkið ásamt greiðslum úr lífeyrissjóðum. Á verðbólgutímum eru innlánsvextir hærri en annars og telja því fleiri krónur, þó þær séu fengnar sem neikvæðir vextir. Þarna hafa t.d. margir flaskað á að setja þessar krónur í tekjuáætlun sína hjá TR. Tekjuáætlun einstaklinganna sjálfra er það sem TR hefur til að ákveða greiðslur til viðkomandi. Þegar fólk hefur síðan skilað staðfestri skattskýrslu, þá fyrst er  í raun staðfest hvað fólk hefur haft í aðrar tekjur en frá TR.

Þetta er ástæðan að sumir eru í skuld við TR meðan aðrir eiga jafnvel inni hjá TR. Lokauppgjör á árinu á undan á sér því stað í maímánuði árinu á eftir. Fólk sem hefur skilað tekjuáætlun sem er fjarri rauntölum getur einfaldlega fengið skert af taugaáfalli þegar uppgjörið kemur. Þá er bara eitt að gera: Að vanda sig betur við að gera sem réttasta tekjuáætlun, því hún er í rauninni eina gagnið sem TR hefur til að ákvarða mánaðarlegar greiðslu til eftirlaunataka.

Hitt er svo annað mál – og mjög mikilvægt: Það er að hækka almenna frítekjumarkið til muna! Það hefur verið óbreytt, 25.000 kr., í heil 7 ár, eða frá 1. janúar 2017. Þótt það hefði bara fylgt verðlagsþróun þennan tíma, þá væri það strax umtalsverð kjarabót.

Einnig þyrfti að hækka hámarks ellilífeyri, svo hann væri a.m.k. ekki lægri en lægstu laun á vinnumarkaði og hann taki þeim hækkunum sem lög kveða á um, en á því hefur orðið misbrestur að mínu áliti og margra annarra.

Þetta tvennt myndi fyrst og fremst koma lágtekju og millitekju eftirlaunatökum til góða. Ekki veitir þeim af!

Þessi hluti kjaramála sem ég týni hér til hafa verið meðal margra helstu baráttumála LEB meðan ég hef starfað þar.

Nú, að fjórum og hálfu ári liðnu, er ég nánast orðinn sérfræðingur í kjaramálum eldra fólks og ýmsum hagsmunamálum sem ég hef sett mig inní af kostgæfni.

Á þessum tíma hefur þó orðið afar góð þróun í upplýsingagjöf til eftirlaunataka á netinu og hægt að fá nánast svar við öllu þar í dag. Vil ég helst nefna tvær slóðir á Island.is: Að fara á eftirlaun  og  Að eldast. Einnig öfluga vefi Samtaka lífeyrissjóða og TR

Nú er komið að leiðarlokum hjá mér hjá LEB. Ég er útskrifaður! Og lífið mun væntanlega taka mig á nýjar, óvæntar og spennandi slóðir… ef ég þekki það rétt.

LEB leitar því að ráðagóðri og áhugasamri manneskju í starfið sem ég hef sinnt, að læra að verða eldri borgari. Get mælt heilshugar með því.

Viðar Eggertsson

Hvernig þú átt að undirbúa þriðja æviskeiðið

Hér á eftir fer lausleg  þýðing og endursögn á grein Nigel Pacey, Hvernig þú átt að undirbúa þriðja æviskeiðið (How to Prepare for your Third Age). Nigel er af eftirstríðskynslóðinni, sem fæddist milli 1946 og 1964, s.k. „baby boomers“. Hann hætti í starfi sem forstjóri þegar hann var 55 ára og ákvað þá að hann vildi njóta áranna framundan  og um leið vaxa sem manneskja. Menntaði sig sem markþjálfi og stofnaði eigið fyrirtæki. Hann hefur sem markþjálfi lagt sérstaka áherslu á þriðja æviskeiðið.

Nigel minnist í grein sinni fyrst á þriðja æviskeiðið, sem hann skilgreinir sem aldurinn frá 50 til 75 ára. og segir að það sé nú allt mikilvægara og sýnilegra en áður vegna lengri lífaldurs, nokkuð sem fyrri kynslóðir hafi ekki fengið að njóta. Miklir möguleikar séu í boði fyrir fólk á þessu æviskeiði til þess að skapa sér ný hlutverk og nýja sjálfsmynd, leita að  nýjum tilgangi og gera mikilvægar breytingar á lífi sínu.

Um undirbúning að eftirlaunaárunum segir Nigel að hjá mörgum af eftirstríðskynslóðinni, sem eru að hætta í starfi, sé eini undirbúningurinn fyrir eftirlaunaárin að reyna að tryggja að eftirlaunin dugi til. Í auknum mæli er fólk af þessari kynslóð þó farið að gera sér grein fyrir þeim tækifærum sem felast í því að vera á þessu æviskeiði og taka ákvarðanir um hvað það vill gera þegar þangað er komið. Oft eru þetta ákvarðanir um breytingu á starfsferli, endurmenntun og/eða stofna sitt eigið fyrirtæki fremur en halda áfram á sömu braut.

Nigel segir að það eigi að hugsa um þriðja æviskeiðið eins og að ferðalag til framandi lands. Menn fari mismunandi leiðir til þess að undirbúa ferðalagið. Sumir undirbúi sig lítið og taki hlutina eins og þeir eru þegar á áfangastað er komið, en aðrir skipuleggi ferðalagið eins ítarlega og þeir geta.  Þeir vita hvað þeir vilja gera og hvert þeir ætla áður en að heiman er farið. Enn aðrir telja skynsamlegt að skipuleggja ferðina en hafa skipulagið sveigjanlegt svo þeir geti gert breytingar í lok ferðar.

Við undirbúning ferðalagsins, heldur hann áfram, viljum við kannski læra nýtt tungumál,  reyna að skilja menningu og lifnaðarhætti áfangastaðarins, kynna okkur matarmenningu sem þar tíðkast, veðurfar, hvaða staði eigi helst að heimsækja, hvaða útbúnaður er nauðsynlegur og taka með okkur nýtanlegan gjaldeyri.  Ánægja okkar af ferðinni og áfangastaðnum mun að einhverju leyti ráðast af því hvernig við högum undirbúningnum og af væntingum okkar og hæfni til þess að vera sveigjanleg. Ekki sé verra að hafa í fararteskinu góða bók til leiðsagnar um áfangastaðinn.

Nigel segir að hið sama gildi um þriðja æviskeiðið og ferðalagið. Ef við undirbúum okkur ekki undir þetta æviskeið og skipuleggjum hvernig við viljum nýta það þá gætum við, þegar kemur að starfslokum og taka eftirlauna hefst, komist að raun um að við höfum misst af tækifærum sem stóðu okkur til boða á þeim tíma.

Það væri okkur í hag telur Nigel að hugsa ekki aðeins um fjármál og réttindi okkar á þessu æviskeiði heldur einnig um hvað við viljum með starfið sem við erum í áður en að starfslokum kemur, tengslin við okkar nánustu, heilsu okkar og velferð, andlegt-, trúar- og félagslegt líf okkar, frístundaiðju, hvar við viljum búa og hvernig við hugsum um þroska okkar sem manneskjur. Fyrir mörg okkar tengist tilgangur lífsins við starfið og frama á starfsvettvangi. Lykillinn að lífsfyllingu á þriðja æviskeiðinu er hvernig og hvar við finnum tilgang fyrir utan starfsvettvanginn.

Greinina má finna á https://www.linkedin.com/pulse/how-prepare-your-third-age-nigel-pacey

Við lestur greinar Nigel Pacey kemur sögumanni og þýðanda hennar í hug Vöruhús tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ því að í Vöruhúsinu er boðið upp á fjölda tækifæra sem koma að góðu gagni við að undirbúning þriðja æviskeiðsins m.a. við að feta nýjar slóðir. Einnig má finna leiðbeiningar um slíkan undirbúning í bókinni „Til móts við þróttmikið þriðja æviskeið“, sem unnin var í evrópsku samstarfi á vegum U3A Reykjavík, sjá https://www.proyectosupua.es/ball/sites/default/files/BALL_PublKonc_Internet/Ball_is2_013_200.pdf

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Almenn skynsemi er alls ekki svo almenn

Almenn skynsemi  (á ensku: common sense) er hæfileikinn til að átta sig á því sem er dagljóst. Almenn skynsemi  segir okkur til dæmis að búast vel áður en haldið er á íslenskt hálendi því að reynslan sýnir að þar er allra veðra von.


Um aldamótin 1800 komu fram skoskir heimspekingar sem kenndu sig við almenn skynsemi. Fremstir í flokki þeirra voru þeir Thomas Reid og nemandi hans, Dugald Stewart. Þeir sögðu undanfarna efahyggjumenn hafa lagt upp frá röngum stað. Allt hið augljósa, sem hverjum manni er nærtækt með fulltingi almenna  skynsemi, setti heimspekilegum vangaveltum takmörk. Ef maður sér glas á borði er deginum ljósara að glasið er með sanni á borðinu, sögðu þeir, og öll heimspeki sem vill efast um það er á villugötum.

Að höfða til skynsemi er grunnur stjórnmálanna eða ætti alla vega að vera það.  Í grein sem birt var í Proceedings of the National Academy of Sciences bentu Mark Whiting og Duncan Watts, reiknifélagsfræðingar við háskólann í Pennsylvaníu, á að hugtakið almenn skynsemi þyrfti að rannsaka gaumgæfilega.

Þeir félagar ákvaðu að bæta úr því. Þeir byrjuðu á benda á að hugtakið almenn skynsemi hefur nokkuð hringlaga skilgreiningu:almenn  skynsemi er mengi fullyrðinga sem skynsamt fólk er sammála og skynsamt fólk er það sem býr yfir skynsemi.

Til að komast framhjá  heimspekilegum flækjum fengu rannsakendurnir 2.046 manns til meta 50 staðhæfingar úr hópi 4.407 fullyrðinga sem líklega gætu talist skynsamlegar.

Eins og almenn skynsemi hefði sennilega spáð fyrir um voru skýrt orðaðar fullyrðingar um staðreyndir um raunheiminn líklegastar til að sýna fram á skynsemi einsog t.d.”þríhyrningar hafa þrjár hliðar” að mati þátttakenda.

Því hugrænni sem fullyrðingarnar voru, einsog t.d. „allar manneskjur eru skapaðar jafnar“ því minni líkur voru á að þátttakendur væru sammála um að þær væru skynsamlegar.

Þegar fullyrðingarnar voru flokkaðar eftir viðfangsefni kom í ljós að fullyrðingar sem snerta tækni og vísindi voru mun líklegri til að vera metnar sem skynsamlegar fremur en fullyrðingar um sem snertu sagnfræði og heimspeki.

Svo virðist sem aldur, kyn, tekjur og stjórnmálaskoðanir hafi óveruleg áhrif á mat fólks  um hvað það telji skynsamlegt. Fremur er það félagsleg skynjun og hæfni einstaklinga til að skilja afstöðu annarra sem hefur áhrif á mat um hvað sé skynsamlegt og hvað ekki.

Eftir að hafa rannsakað skoðanir einstaklinga skoðuðu vísindamennirnir hvernig skynsemi virkar í stórum hópum. Hér fundu þeir mun minna samræmi en búast mátti við. Einungis um 44% staðhæfinga voru metnar sem skynsamlegar af að minnsta kosti 75% svarenda. Með strangari skilgreiningu á almennri skynsemi, þar sem allir urðu að samþykkja að staðhæfing sé skynsamleg  lækkar þessi tala niður í aðeins 6,6%.

Samkvæmt þessu ætti ágreiningur í þjóðmálaumræðunni ekki að koma á óvart. Er t.d. skynsamlegt að einkavæða heilbrigðikerfið? Á að banna hvalveiðar? Eigum við að taka á móti fleira flóttafólki?

Þegar hver og einn tekur afstöðu út frá því hvað hann telur skynsamlegt verður skoðanaágreiningur og missætti. Almenn skynsemi virðist því í besta falli  vera hverful tálsýn.

Hjördís Hendriksdóttir þýddi og endursagði

Þegar skyldan kallar – Borgaraleg óhlýðni og borgaraleg ókurteisi

Þriðjudaginn 9. janúar síðastliðinn flutti Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, erindi á vettvangi U3A Reykjavík þar sem hann fjallaði um hugtakið borgaraleg óhlýðni. Í erindi sínu rakti Ólafur Páll sögulegar rætur hugtaksins í samhengi við grunngildi lýðræðislegs samfélags. Hann vísaði þar meðal annars í bandaríska heimspekinginn og náttúrufræðinginn Henry David Thoreau, sem margir þekkja sem höfund bókarinnar Walden eða Lífið í skóginum. Árið 1848 hélt Thoreau ræðu með yfirskriftinni „Réttindi og skyldur einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu“ (The Rights and Duties of the Individual in relation to Government). Í þessari ræðu gerði Thoreau þrælahaldið í Banda­ríkjunum og stríðið við Mexíkó að umtalsefni og sagði að hann gæti ekki litið á þá ríkisstjórn, sem stæði í þrælahaldi, sem sína ríkisstjórn.

Ólafur Páll benti á að borgaraleg óhlýðni byggir á þeirri forsendu að í lýðræðisríki séu það borgararnir sjálfir sem séu handhafar valdsins.  Og að þessi forsenda á jafn vel við í dag og hún átti við á tímum Thoreaus. En er þá við hæfi að óhlýðnast hvenær sem maður er ósammála ríkisstjórninni? Er það þá borgaraleg óhlýðni að greiða ekki skattana, ef manni finnst skattlagning ósanngjörn? Hvað með að virða umferðarreglur eða önnur lög sem takmarka frelsi okkar?

Lykilatriði er að óhlýðnin sprettur af sjónarmiðum sem varða hlutverk borgaranna sem borgara og felur oft í sér lögbrot, en markmiðið með slíkri háttsemi er aldrei persónulegur ávinningur heldur hagsmunir samfélagsins í heild. Það sem er í húfi er sjálft réttlætið, lýðræðið, jafnvel sjálft samfélagið. Thoreau leit raunar svo á að honum hefði ekki einungis verið heimilt að óhlýðnast yfirvöldum heldur hefði honum beinlínis borið skylda til þess að gera það. Sem borgari – kannski sem borgari alls heimsins – leit hann svo á að honum bæri skylda til þess að hafna þrælahaldi og stríði. Við getum spurt okkur svipaðra spurninga í dag. Ber okkur skylda til að hafna einhverju af því sem ríkisvaldið gerir, vitandi að athafnir ríkisvaldsins eru á endanum í okkar nafni?

Eins og svo oft áður fylltu U3A félagar salinn í Hæðargarði og gerðu góðan róm að erindi Ólafs Páls og spunnust fjörugar umræður að erindinu loknu.

Ólafur Páll hefur vinsamlega veitt U3A Reykjavík leyfi til að deila þessu erindi sinu  og færum við honum kærar þakkir fyrir. Finna má texta erindisins í pdf skjali á síðum vefs U3A Reykjavík á slóðinni:
Þegar skyldan kallar – Borgaraleg óhlýðni og borgaraleg ókurteisi. (u3a.is)

Hans Kristján Guðmundsson

Viðburðir U3A Reykjavík í febrúar 2024

F.v.: Vilborg Davíðsdóttir, Þórarinn Gíslason, Svava Steinarsdóttir,
Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, Vilhjálmur Árnason

Í febrúar höldum við áfram að bjóða upp á áhugaverða fyrirlestra og viðburði.

6. febrúar:          Land næturinnar, Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur
13. febrúar:        Umhverfi og heilsa, Þórarinn Gíslasons og Svava Steinarsdóttir
20. febrúar:       Öldrunarþjónusta, Sigrún Huld Þorgrímsdóttir
27. febrúar:       Harðræði verðleikanna, Vilhjámur Árnason
Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík.

Með kveðju frá stjórn U3A Reykjavík.

Scroll to Top
Skip to content