Jólakveðja
Nú er aðventan gengin í garð með öllum þeim hefðum sem henni fylgja nú til dags. Upphaflega merking orðsins aðventa er jólafasta, sem á uppruna sinn í þeim kaþólska sið að fasta síðustu vikurnar fyrir jól. Alveg sérstaklega átti ekki að neyta kjöts eins og fram kemur í hinni fornu lögbók Íslendinga, Grágás.
Nú er öldin önnur. Í dag fylgir aðventunni að gera vel við sig bæði í mat og drykk á jólahlaðborðum út um allan bæ, að sækja jólatónleika og að mæta á bókaútgáfuhóf þar sem boðið er upp á bók og léttar veitingar.
Og nú eru það ekki lengur bara börnin sem fá súkkulaði jóladagatöl heldur standa konum til boða jóladagatöl með snyrtivörum og pörum af öllum kynjum bjóðast kynlífstækjadagatöl frá Blush.
En á aðventunni erum við minnt á að það eru ekki allir eins lánsamir og við. Hjálparsamtök hérlendis og erlendis biðla til okkar að gefa svolítið af okkar gnægta borði í þágu þeirra sem hafa það ekki gott vegna fátæktar, loftslagsbreytinga og hernaðar. Með því að rétta þessu fólki hjáparhönd tendrum við í skammdeginu ekki einungis jólaljósin heima hjá okkur í heldur líka vonandi vonarljós í hjörtum þeirra sem minnst mega sín. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.
Stjórn U3A Reykjavík og ritstjórn Fréttabréfsins óskar félögum og lesendum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.
Hjördís Hendriksdóttir
formaður U3A Reykjavík |