BALL, Be Active through Lifelong Learning
Á árunum 2013- 2014 þegar unnið var að stefnumótun í hinum nýstofnuðu samtökum mótaðist hugmyndin um mikilvægi ævináms í virkri og farsælli öldrun. Í framhaldi var verkefnið BALL (Be Active through Lifelong Learning), „Verum virk með ævinámi“, skilgreint með það að markmiði að þróa leiðarvísi og leiðbeiningar um hvernig best mætti undirbúa sig undir þróttmikið þriðja æviskeið. Verkefnið hófst í september 2014 og var skipulagt sem evrópskt samstarfsverkefni og unnið í samstarfi við U3A aðila í Póllandi (LUTW í Lublin) og á Spáni (UPUA í Alicante) með styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins um fullorðinsfræðslu. Ráðgjafarfyrirtækið Evris ses í Reykjavík fór með stjórn verkefnisins og að því komu einnig íslenskir styrktaraðilar, BHM (Bandalag háskólamanna), STRV (Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Reykjavíkurborg (mannauðsskrifstofan) og Landsvirkjun.
Verkefninu lauk með ráðstefnu í Reykjavík 14. september 2016 og voru niðurstöður þess birtar í bókinni “Til móts við þróttmikið þriðja æviskeið” Niðurstöður verkefnisins hafa vakið mikla athugli víða um heim og hafa þær verið kynntar á vettvangi AIUTA og í alþjóðlegum tengslanetum um málefni þriðja æviskeiðsins. Verkefnið hlaut gæðaviðurkenningu Erasmus+ áætlunarinnar við hátíðlega athöfn í Hörpu á 30 ára afmælishátíð áætlunarinnar í nóvember 2017. Hægt er að skoða og hlaða niður bókinni og skýrslum BALL verkefnisins hér.