Sólstöðuganga um Viðey 21. júní 2022 – Uppfært

Viðey

U3A Reykjavík vekur athygli á Sólstöðugöngu um Viðey að kvöldi þriðjudagsins 21. júní með leiðsögn Guðbrands Benediktssonar, safnstjóra Borgarsögusafns og Þórs Jakobssonar, veðurfræðings, félaga í U3A Reykjavík og þátttakanda í verkefninu HeiM. Gangan, sem er öllum opin, hefst með um tíu mínútna ferjuferð yfir Viðeyjarsundið. Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20, gengið um austurhluta Viðeyjar og stefnt að heimferð um kl. 22. Ferjugjaldið greiðir hver fyrir sig og er gjaldið greitt í litlu húsi við Skarfabakkann.

Gjaldið í ferjuna fram og til baka er 1950 krónur fyrir fullorðna, 1755 krónur fyrir eldri borgara og nemendur og 975 krónur fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakorts sigla frítt. Mælst er til þess að gestir mæti tímanlega, því búast má við fjölmenni ef sólin skín. Nánari upplýsingar má finna hjá Borgarsögusafni á slóðinni https://fb.me/e/1CMIMC41S

U3A Reykjavík hvetur félaga sína eindregið til að nýta sér þetta tækifæri og njóta leiðsagnar Þórs og Guðbrands sem eru manna fróðastir um Viðey og sögu hennar. Gangan verður nánast sama leið og sólstöðuleiðin, sem var ein af fimm íslenskum leiðum sem voru skráðar með Wikiloc appinu í alþjóðlega HeiM verkefninu sem U3A Reykjavík tók þátt í. Hönnuðir HeiM-gönguleiðarinnar um Viðey á sólstöðum eru Þór Jakobsson og Jóhanna Jóhannesdóttir. Nánari upplýsingar um leiðina með korti er að finna hér

Mannkynið hefur fagnað sumar- og vetrarsólstöðum í þúsundir ára um alla Evrópu og víðar og gerir það jafnvel í dag þótt þær séu ekki eins mikilvægar og áður. Fólki finnst sólstöðudagarnir heillandi og skipuleggur alls kyns hátíðir til heiðurs tímamótum á tengslum jarðar við sólu.

Sólstöðuganga í Reykjavík og nágrenni hefur verið skipulögð um langt árabil. Frumkvæðið átti Þór Jakobsson, sem í samvinnu við nokkra félaga skipulagði fyrstu gönguna árið 1985 frá Þingvöllum til Kjarvalsstaða og síðan árlega víðs vegar um höfuðborgarsvæðið þar til um síðustu aldamót en síðan var sólstöðugangan farin árlega í áratug umhverfis Öskjuhlíð. Árið 2011 hófst ánægjuleg samvinna við Borgarsögusafn sem síðan hefur borið hitann og þungann af árlegri sólstöðugöngu í Viðey í samvinnu við Þór Jakobsson og félaga hans í “sólstöðuhópnum”. Þetta er því 38. sólstöðugangan og sú 12. í Viðey.

Fjölbreytt saga Viðeyjar frá 12.öld er allvel þekkt. Í eina tíð var Viðey ríkt menningar- og valdasetur á íslandi en á öðrum tímum gróðursæl bújörð byggð bændafólki. Í seinni tíð hefur Viðey endurlífgast sem staður fornleifa og endurgerðra sögulegra bygginga. Auk þess að vera sögustaður, er Viðey í dag ekki síður vinsæl meðal fjölskyldna í Reykjavík og nágrenni til útivistar og náttúruskoðunar.

Scroll to Top
Skip to content