Fréttabréf U3A
Janúar 2026

Áramótaheit eða markmiðasetning eldri

Allt að 70% fólks á Vesturlöndum setur sér áramótaheit. Rannsóknir sýna að á milli 6-9% nái þeim yfir árið.

Það er munur á markmiðssetningu og áramótaheitum. Munurinn er einkum þessi:

Áramótaheit fyrir næsta ár eru sett á gamlárskvöldi standandi úti í frosti, með freyðivín í glasi og tímabundnu fölsku sjálfstrausti.

Hins vegar eru markmið fyrir næsta ár sett daginn eftir, sitjandi með kaffibolla og skýrt raunsæi um að maður sé bara mannlegur.

Áramótaheit hljóma gjarnan svona:

  • „Ég ætla að hreyfa mig meira.“
  • „Ég ætla að léttast.“
  • „Ég ætla að draga úr áfengisneyslu.“

Þetta eru falleg heit en líka óljós, sem er hentugt, því þá er erfitt að segja nákvæmlega hvenær maður braut þau. Er ganga í Bónus hreyfing? Já. Telst gulrót í hamborgara sem grænmeti? Alveg klárlega. Fór maður fyrr að sofa ef maður sofnaði fyrir fréttir – þó í sófanum? Dómur fellur notanda í vil.

Markmiðssetning eldri Reykvíkings er annars eðlis. Hún er varkárari, raunsærri og inniheldur varaplan. Hún segir ekki:

  • „Ég ætla að ganga 10.000 skref á dag.“

Hún segir:

  • „Ég ætla að ganga aðeins meira – nema það sé hálka, rok, rigning, myrkur eða eitthvað áhugavert í sjónvarpinu.“

Áramótaheit gera ráð fyrir líkama tvítugrar manneskju á meðan markmið eru sett fyrir líkama sem þarf upphitun áður en hann stendur upp úr stól. Eldri borgarinn fer ekki með látum í ræktina „heldur er hann líklegri til að fara í hógværa leikfimi fyrir eldri borgara eða fara í sund og sitja lengi í heita pottinum að spjalla.

Stærsti kosturinn við markmiðssetningu er að hún tekur tillit til lífsins eins og það er. Hún veit að janúar er ekki mánuður breytinga heldur þrautseigju. Hún skilur að ef maður kemst í buxurnar sínar án þess að halda niðri í sér andanum, þá er það dagur sem má telja sem árangur.

Svo já – áramótaheit eru fín. Þau eru eins og flugeldar: hávær, glæsileg og búin áður en maður nær að átta sig á meðan markmiðssetning er meira eins og góð göngugrind: ekkert sérstaklega töff, en heldur manni á hreyfingu og kemur manni heilum heim.

Stjórn U3A Reykjavík og ritstjórn Fréttabréfs U3A óska félagsmönnum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er að líða.

Væntanlegir viðburðir

Fv: Kristín Linda Jónsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir,
Laura Sólveig Lefort Scheefer, Bjarni F. Einarsson, Njörður Sigurðsson

Þriðjudaginn 6. janúar kl. 16:30 mun Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur og fararstjóri fjallar um ævi og hugarheim Agöthu Christie í Hæðargarði 31.

Þriðjudaginn 13. janúar kl. 16:30 mun Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælafræðingur fjalla um um pylsur og pylsugerð Hæðargarði 31.

Þriðjudaginn 20. janúar kl. 16:30 mun Laura Sólveig Lefort Scheefer, forseti Ungra umhverfissinna og ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála deila með okkur upplifun sinni frá COP30 í Belém í Brasilíu síðastliðinn nóvember.

Þriðjudaginn 27. janúar kl. 16:30 mun Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur segja frá fornleifauppgreftri á Stöð í Stöðvarfirði. Þar hafa fundist skálar sem samkvæmt vísbendingum eru frá því fyrir 871.

Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 16:30 mun Njörður Sigurðsson, aðstoðarþjóðskjalavörður kynna fjölbreytta starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands í Hæðargarði 31. Í safninu er varðveitt stærsta heimildasafn Íslands um sögu lands og þjóðar og eru elstu skjöl safnsins frá 12. öld og þau yngstu frá árinu 2025

U3A – Hvað er það?

Fjölmennt var á tíu ára afmælismálþingi U3A Reykjavík vorið 2022.
Frumkvöðullinn Ingibjörg Rannveig á fremsta bekk.

Það eru nú að verða liðnir sex áratugir frá árinu 1968, árinu sem heil kynslóð hefur verið kennd við. Árinu þar sem stúdentar gerðu uppreisn gegn skipulagi háskólasamfélagsins og náði hún kannski hæstu hæðum á götum Parísar og annarra borga Evrópu og í mörgum háskólaborgum Bandaríkjanna þar sem stúdentar féllu fyrir kúlum úr byssum lögreglunnar.

Þessi átök höfðu víðs vegar mikil áhrif, sem leiddu m.a. til þess að Frakkar endurskoðuðu háskólalöggjöf sína þetta sama ár, en hún takmarkaði mjög aðgengi að háskólanámi. Þessi lagabreyting skyldaði franska háskóla til þess að bjóða möguleika á ævinámi og opnaði þannig fleiri aldurshópum aðgang að háskólum landsins. Árið 1972 reið háskólinn í Toulouse í Suður-Frakklandi á vaðið og bauð ellilífeyrisþegum upp á sumarnámskeið með fyrirlestrum, ferðum með leiðsögn og öðrum menningarviðburðum. Áhugi á þátttöku varð mikill og árið eftir var ákvörðun um að halda röð námskeiða, undir nafninu Université du Troisième Age (e. University of the Third Age), samþykkt af stjórn alþjóðamáladeildar háskólans. Í stjórninni áttu m.a. sæti fulltrúar alþjóðastofnana heilbrigðismála (WHO) og vinnumála (ILO), ásamt UNESCO, og lýstu þeir yfir stuðningi við samþykktina í þeim tilgangi að kanna hvernig háskólinn gæti stuðlað að auknum lífsgæðum og bættri heilsu eldra fólks. Þarna, fyrir rúmri hálfri öld, varð sem sagt til hugtakið „Háskóli þriðja æviskeiðsins“ með skammnefninu U3A.

Skemmst er frá því að segja að þessi hugmynd að námi fyrir fólk á efri árum dreifðist hratt til annarra franskra háskóla og einnig til annarra háskóla í Evrópu og víðar undir heitinu U3A og þremur árum seinna voru U3A-námskeið hafin í Belgíu, Sviss, Póllandi, Ítalíu, Spáni og í Quebec í Kanada. Á Norðurlöndum hefur þetta verið nefnt „Senioruniversitetet”. Í Bretlandi var fyrsta U3A stofnað í Cambridge 1981 og hugmyndin dreifðist hratt til annarra borga þar. Bretar fóru aðra leið í skipulagi U3A. Þeir höfnuðu nánum tengslum við háskóla, en stofnaðir voru hópar áhugasamra á hverjum stað sem sjálfir skipulögðu starf sitt og völdu efni og virkni eftir þörfum og áhuga. Þessi tegund fræðastarfs og virkni hefur nú náð til á annað þúsund slíkra hópa á Bretlandi og hefur dreifst til landa innan Breska samveldisins, Ástralíu, Nýja Sjálands, Indlands og Suður-Afríku. Milljónir fólks um heim allan taka nú þátt í starfi og námskeiðum U3A og eflaust munar þar mest um Kína, þar sem starfa á sjöunda tug þúsunda skóla fyrir fólk á efri árum með milljónum nemenda.

Víkur nú sögunni til Íslands. Það var kjarnorkukonan og frumkvöðullinn Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir sem velti fyrir sér, þegar hún sá fram á að hætta starfi sjötug samkvæmt íslenskum lagabókstaf um opinbera starfsmenn, hvernig mætti halda við og auka lífsgæði og virkni þegar vinnuveitandi vill ekki njóta starfskrafta þeirra lengur. Eftir að hafa uppgötvað U3A og kynnt sér það starf sem þar fór fram, gekk hún í það, með öflugum samstarfshópi áhugasamra einstaklinga á svipuðum aldri, að stofna samtökin U3A Reykjavík 16. mars 2012 og byggja starfið á bresku aðferðinni sem sjálfstæð félagasamtök. Stofnfélagar voru 49, þar af 31 skráður félagi á fyrsta árinu. Starfið hefur síðan blómstrað og er félagatalið nú um 1600 manns. Árið 2017 var síðan stofnað U3A Suðurnes, sem heldur úti fræðslu- og hópastarfi.

Markmið U3A Reykjavík er m.a. að stuðla að því að félagsmenn hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu og að stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr.

Mikilvægasti þáttur starfsins er að mati undirritaðs þriðjudagserindin sem bjóða upp á fræðslu og skemmtun um sögu, vísindi, dægurmál og fróðleik af ýmsu tagi. Komast þar oft færri að en vildu. Síðan í Covid-faraldrinum hefur þessum erindum verið streymt og eykur það möguleika á að fylgjast með úr fjarlægð. Hópastarf er mikilvægt og má þar nefna hóp um umhverfismál og menningarhóp sem sækir og kynnir menningarviðburði. Á fyrstu árum starfsins var hrundið af stað verkefnastarfi í samstarfi við systursamtök erlendis og voru nokkur verkefni unnin með styrkjum frá Erasmus+ áætlun ESB eins og BALL verkefnið sem að mörgu leyti mótaði stefnu samtakanna. Öllu þessu eru gerð góð skil á vef samtakanna u3a.is og undirsíðum hans.

Hvað er þá eiginlega þriðja æviskeiðið? Oft er talað um eftirlaunaárin en aðrir telja að þriðja æviskeiðið byrji fyrr. Í starfi U3A Reykjavík er litið svo á að upphaf þriðja æviskeiðsins sé mat hvers einstaklings. Þar sé átt við árin eftir miðjan aldur, þegar ábyrgð og skyldur minnka, fjárhagsstaða er viðunandi og almenn heilsa ásættanleg. Þau ber að nýta til að horfa til framtíðar, hugsa til starfsloka, vitja drauma sem enn geta ræst og hugmynda sem ekki hefur áður verið hægt að sinna. Þriðja æviskeiðið er til að undirbúa og njóta ellinnar áður en heilsan tekur af manni öll völd. U3A Reykjavík er góður vettvangur til þess og býður upp á tækifæri til að fræðast og fylgjast með málum líðandi stundar.

Heimildir um sögu U3A eru sóttar til bókarinnar The University of the Third Age and Active Ageing: European and Asian-Pacific Perspectives, bindi 23 af International Perspectives on Aging þar sem er meðal annars grein undirritaðs um U3A á Íslandi. Editor Marvin Formosa, Springer International Publishing 2019. ISBN 3030215156, 9783030215156.

Hér eru svo nokkrir tenglar til fróðleiks um U3A starf erlendis:

Hans Kristján Guðmundsson

Var Karl Marx umhverfissóði?

Ég er einn þeirra, af minni kynslóð, sem heilluðust af kenningum Karls Marx á yngri árum. Kenninguna um að samþjöppun auðs á sífellt færri hendur myndi leiða til þess að kapítalisminn liði óhjákvæmilega undir lok, að alþýða manna sameinaðist og tæki völdin í sínar hendur. Að kapítalisminn myndi að lokum eyða sjálfum sér vegna spennu milli stétta. Hugmyndir Marx fjalla um stéttaskiptingu, firringu, ójöfnuð og áhrif peninga og efnishyggju á þróun þjóðfélagsins sem hafa að miklu leyti mótað stjórnmála- og hugmyndasögu síðustu tveggja alda. Þær eru ýmist upphafnar eða úthrópaðar, frekar en skoðaðar sem kenningar settar fram við þær aðstæður sem giltu við upphaf iðnbyltingar, einkum í Þýskalandi og Bretlandi.

Nú deila menn um hvort Marx hafi verið umhverfissóði og ekki skeytt um þau áhrif sem jarðefnavinnsla og mengandi verksmiðjuframleiðsla hafi á loftslag og úthöf, eða hvort hann hafi einmitt varað við því að eigendur stórfyrirtækja skeyti ekki um neitt nema að hagnast sem mest á sem skemmstum tíma, – hver svo sem áhrifin verða. Allt bendir reyndar til að Karl Marx hafi, á miðri nítjándu öld, ekki haft neina vitneskju um áhrif koldíoxíðs á andrúmsloftið eða séð fyrir sér skaðsemi af jarðefnavinnslu og mengandi iðnaðarframleiðslu.

Japanski heimspekingurinn Kohei Saito er einn þeirra sem halda því fram í bók sinni Marx in the Anthropocene að Karl Marx hafi bent á mikilvægi verndunar vistkerfisins í skrifum sínum. Þessar kenningar Saito, og skoðanabræðra hans, hafa verið gagnrýndar af frjálslyndari fræðimönnum á borð við Matt Huber og Leigh Phillips, sem segja Marx hvergi hafa fjallað um verndun vistkerfa. Og halda því jafnvel fram að Marx sé að einhverju leyti ábyrgur fyrir því hvernig komið er í loftslagsmálum okkar í dag.

Þessar deilur finnst mér minna svolítið á deilur sem risu um tíma hér á landi um hvort sjálfstæðishetjan okkar, Jón Sigurðsson, myndi vilja að Ísland gerðist aðili að ESB í dag eða hvort hann væri andvígur aðild Íslands að bandalaginu, ef hann væri enn á lífi. Um slíka hluti geta menn skemmt sér við að rífast endalaust.

Það er varhugavert að líta á skrif fyrri tíma hugsuða eins og trúarbrögð um hvað sé rétt og satt eða rangt og ósatt í nútímanum. Marx sá til dæmis ekki fyrir að jafnaðarstefnan í Evrópu yrði jafn sterk og raun bar vitni. Ekki heldur sá hann fyrir að stjórnvöld í Sovétríkjunum og Kína myndu kenna einræðis- og klíkustjórnir sínar við kenningar hans. Ekki heldur sá hann fyrir uppgang þjóðernispopúliskra afla nútímans.

Vörumst söguskekkjur. Það er varhugavert að varpa innsýn okkar í nútímanum á fyrri tíma hugsuði.

Emil B. Karlsson

Að halda sér saman – bókstaflega

Að líma fyrir munninn á sér áður en maður fer að sofa hljómar eins og eitthvað sem ætti að koma með ábyrgðarviðvörun. Samt hefur þetta orðið að vinsælli „heilsubót“ á netinu, þar sem fólk fullyrðir að límband á varirnar geti lagað öndun, minnkað andremmu og jafnvel meitlað kjálkalínu sem gæti fengið skúlptúr til að skammast sín.

Rökin eru einföld: Neföndun er betri en munnöndun vegna þess að nefið síar loftið, hitar það og gerir það rakara – á meðan munnurinn gerir ekkert af þessu og lætur loftið bara vaða beint inn og óboðna gesti með. Munnöndun tengist auknum hrotum, verri munnheilsu og kæfisvefni, þar sem öndunin ákveður að taka sér stutt hlé um nætur.

Þetta hljómar allt vel þar til vísindin fá orðið. Rannsóknir á munnlímingu sýna aðeins væg merki um ávinning. Rannsóknir eru byggðar á fámennu úrtaki og veikburða niðurstöðum sem jafnvel rannsakendur sjálfir eru ekki fullkomlega sannfærðir um. Jú, hrotur og öndunartruflanir minnkuðu hjá sumum – en ekki nóg til að kalla þetta byltingu í svefnlækningum.

Í sumum tilvikum gæti munnlíming virkað sem viðbót með öðrum meðferðum, en ein og sér stendur hún ansi berskjölduð. Fyrir fólk með alvarlegan kæfisvefn eða stíflað nef getur hún meira að segja verið hættuleg. Að loka munninum þegar nefið er varla starfhæft er ekki hugmynd sem fær lof hjá bráðamóttökunni.

Að líma saman munninn fyrir nóttina gæti komið í veg fyrir að viðkomandi ljóstri óvart upp leyndarmálum með því að tala upp úr svefni en aðrar fullyrðingar um betri munnheilsu eru enn ósannaðar og sögurnar um skarpari kjálkalínu eiga helst heima á sama stað og „detox-fótabað“ og kraftkristallar.

Læknar vara við því að límband sé ekki lausn heldur möguleg afsökun til að fresta því að leita raunverulegrar greiningar. Erfið neföndun getur bent til alvarlegra kvilla – sem lagast sjaldnast með föndurvörum úr byggingarvöruverslun.

Niðurstaðan er einföld: ef heilsubótin krefst límbands á andlitið, er það líklega eitthvað annað sem þarfnast athygli. 

Hjördís Hendriksdóttir
 

Fréttir af Tuma

TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma

Skjápásan
Óttar G. Birgisson, sálfræðingur og doktor í Íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, kynnti Skjápásuna, hliðarverkefni við lokaverkefni sitt um tengsl netsamskipta, geðheilsu og líkamlega heilsu 15 ára unglinga. Reikna má með, birt hér án ábyrgðar, að á einum mánuði sofi meðalmanneskjan 228 klst., vinna/skóli sé um 126 klst., akstur og útréttingar 54 klst., að borða 36 klst. og fleira er tiltekið en í stuttu máli má ætla að frítími einstaklingsins á mánuði sé 334 klst. og þar af sé skjátíminn 312. Auðvitað er skjátími ekki endilega slæmur, en væri önnur nýting á hluta tímans einhvers virði? Segja má að Skjápásan https://skjapasa.ottar.is/ sé mótefni gegn endalausu og óþarfa hangsi í símanum. Væri þess virði að breyta óvirkum tíma í virkan? Slíkt hefur verið reynt í þunglyndismeðferð, og á svæðinu thunglyndi.is er þörf samantekt um mikilvægi þess að auka virkni. Skjápásan er í raun listi um ýmislegt sem gera mætti í stað óvirks skjátíma og gæti gefið hugmyndir.


Síminn týndur? Vera úti? Skoða sýningu? Nýja húfu?

Átak UN Women gegn stafrænu, kynbundnu ofbeldi
Sara McMahon, kynningarstýra UN Women á Íslandi, sagði frá 16 daga átaki sem fram fór um mánaðarmótin nóv. des., sjá krækju https://unwomen.is/stafraent-ofbeldi-eykst-hratt-en-naer-helmingur-kvenna-og-stulkna-i-heiminum-byr-enn-ekki-vid-lagalega-vernd-gegn-thvi/  Greinaskrif, viðburðir og Ljósagangan einkenndu átakið 2025, en árlega er snúist gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið, sem nú beindist að stafrænu kynbundnu ofbeldi, var óvenju stórt vegna stuðnings Atlantsolíu. Sara rakti hér nokkrar tölur. Að því er best er vitað lendir ein af hverjum þrem konum í kynbundnu ofbeldi, en tvær af hverjum þrem í stafrænu kynbundnu ofbeldi. Stafrænt ofbeldi birtist á fjölmargan hátt og yfir fjörutíu birtingarmyndir eru skilgreindar. Stafrænt kynbundið ofbeldi er enn sjaldnar tilkynnt en ofbeldið í raunheimum. Dogpiling er enska orðið yfir það þegar margir hrúgast á einn, og gætir þess talsvert nú orðið. Með gervigreind og djúpfölsun er gjarnan ráðist gegn konum í opinberum stöðum, framboði eða áhrifastöðum. Minnti Sara á að stafrænt ofbeldi er ofbeldi, og víða er skortur á lagalegri vernd, alþjóðalög þarf að styrkja. Styrkja þarf alþjóðlegt samstarf, styðja þolendur og draga gerendur til ábyrgðar, tæknifyrirtæki axli ábyrgð og fjárfest verði í forvörnum og breytingu á viðhorfum. Stafræna kynbundna ofbeldið er klár ógn við lýðræðið, þar sem þolendur draga sig gjarnan í hlé. Nánar má kynna sér málin hér https://www.unwomen.org/en/digital-library/publications/2025/12/tipping-point-the-chilling-escalation-of-violence-against-women-in-the-public-sphere-in-the-age-of-ai

Fræðsluefni Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands
Haukur Brynjarsson, sérfræðingur hjá Netvís, kynnti fræðsluefni Netvís. Fræðslan er byggð á gögnum, sbr. skýrslur Fjölmiðlanefndar https://fjolmidlanefnd.is/midlalaesi/ Sem dæmi um fræðsluefni fyrir ólíkan aldur og mismunandi hópa eru: Netumferðarskólinn, Algóritminn sem elur mig upp, Stolin athygli leitar eiganda síns, Gervigreindarlæsi, Rauðu flöggin, netsvik & falsfréttir, og Hvað er málið með þessar kökur? Á nýlegu vefsvæði Netvís, https://netvis.is/, má sjá fræðsluefni í boði og eins er þar eyðublað til þess að biðja um fræðslufundi fyrir hópa.

Bestu kveðjur og óskir um farsælt ár 2026.
Guðrún Bjarnadóttir

Vísnahorn Lilju

Hjálmar Jónsson fyrrverandi dómkirkjuprestur og Alþingismaður er vel kunnur hagyrðingur. Árið 2022 sendi hann frá sér bók sem ber heitið Stundum verða stökur til. Í bókinni er fjöldi skemmtilegra vísna eftir Hjálmar og aðra góða vísnasmiði og yfirleitt fylgir frásögn á tilurð vísnanna.

Fyrsta vísan (sem innifelur titil bókarinnar) er svona:

Andagift ég ekki skil
eða þekki.
Stundum verða stökur til
og stundum ekki.

Hjálmar segist yrkja vísur vegna þess að hann hafi gaman að því. „Fjölbreytni og blæbrigði málsins er spennandi viðfangsefni í ljóðum og vísum,“ segir hann. „Margt af því sem ég hef sett saman hefur orðið til í samfélagi við vini mína, samstarfsfólk og samferðafólk í lífinu.“

Hér eru fáein dæmi úr bókinni og ég hvet áhugafólk um kveðskap til að skoða hana.

Ólafur G. Einarsson var að hætta á Alþingi og í ræðu af því tilefni sagði hann að nú stefndi í að Steingrímur J. Sigfússon hefði lengstan starfsaldur á Alþingi. Þá orti Hjálmar: 

Ólafur talar og ekki kann hann sér læti
og eftirfarandi mælti í sínu nafni:
„Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti“
Og ennþá er Steingrímur þar eins og gripur á safni.

Hjálmar Árnason og Hjálmar Jónsson voru samtíða á Alþingi.  Sá fyrrnefndi skammaði Sighvat Björgvinsson úr ræðustól og Sighvatur orti:

 Hjálmara tvo í hópnum tel
hérna um sinn.
Annar er séra og sæmir það vel,
svo er það hinn.

Svo hætti Hjálmar Jónsson þingmennsku og fór aftur í prestskapinn og Sighvatur bætti við: 

Ljáðu, faðir, líkn með þraut,
sem löngum fyrr
því Hjálmar séra er horfinn á braut
en hinn er kyrr.

Hjálmar lenti í hjartaaðgerð 2004. Jón Ingvar Jónsson, sá mikli hagyrðingur orti þá: 

Hjálmar má þola hremmingu stranga
og heilsufarsbresti.
Drottinn minn, láttu nú dæluna ganga
í dómkirkjupresti.

Síðar fékk Hjálmar blóðtappa og þá orti Jón Ingvar:

 Hjálmar er traustur og heiðurskarl mesti
Og hefur það sannað.
Drottinn minn, taktu nú tappann úr presti
Og trodd‘onum annað.

Hjálmar var sæmdur fálkaorðunni 2006 og þá orti Hermann Jóhannesson frá Kleifum: 

Á afburðamenn og ótínda skálka
(því auðvitað fljóta þeir með)
krækja menn orðu, sem kennd er við fálka,
og kætir vort geð.

Það vekur upp hugsun um frelsarann forðum,
þann framsýna athafnamann.
Sómt hefði dável að sæma hann orðum,
en synd var að krossfesta hann.

En þetta‘ eru aðrir og siðlausir sálmar
og sannlega gleður það oss
að nú skyldi kross vera hengdur á Hjálmar
en Hjálmar ekki á kross.

Lilja Ólafsdóttir

Scroll to Top
Skip to content