Fréttabréf U3A
Febrúar 2021

Dönsum okkur inn í framtíðina

Áratuga rannsóknir hafa leitt í ljós margvíslegan líkamlegan og andlegan ávinning af því að dansa – ekki síst þegar við eldumst. Rannsóknirnar sýna að dansinn styrkir hjarta og lungu; eykur vöðvastyrk; eykur þol og hreyfihreysti; styrkir  bein og dregur úr hættu á beinþynningu; bætir samhæfingu og jafnvægi og eykur andlega virkni og félagsfærni.

Tegund dans skiptir ekki öllu máli heldur það að finna sinn dansstíl og taka það á sínum hraða. Það er fjölbreytt úrval af námskeiðum boði fyrir einstaklinga eða pör.

Kramhúsið býður t.d. upp á dansnámskeið fyrir einstaklinga svo sem magadans, burlesque, ballet of afró- dansa.

Fyrir þá sem kjósa hefðbundnari dansa má benda á Dansskóla Köru þar sem boðið er upp námskeið í samkvæmisdönsum fyrir fullorðna byrjendur þar sem kenndir eru  suður-amerískir dansar sem nýtast á dansleikjum s.s. Jive, Cha Cha Cha, Mambó og Salsa ásamt Tjútti og fleiri dönsum. Á framhaldsnámskeiðum er svo boðið upp á Ballroomdansar s.s. Tango, Samba og Vínarvals.

Góða skemmtun!

Útskrifaðist sem doktor frá Háskóla Íslands 78 ára að aldri

Björk Guðjónsdóttir

Orðatiltækið „það er aldrei of seint“ á svo sannarlega við dr. Björk Guðjónsdóttur sem varði doktorsritgerð sína í mannfræði 78 ára að aldri. Í viðtali við Morgunblaðið segir Björk frá starfs-og námsferli sínum. Hún er lærð hjúkrunarfræðingur og starfaði sem slík við geðdeildir Landspítalans í 25 ár. Þar kynntist hún m.a. sjúklingum sem voru að kljást við alkahólisma og einnig aðstandendum þeirra.  Þegar Björk fór á eftirlaun hóf hún nám í mannfræði og útskrifaði með meistarapróf frá Háskóla Íslands árið 2010. Í doktorsritgerð sinni „Kjarkur til að breyta til“ skoðaði Björk stúlkur sem ólust upp með foreldrum í virkri fíkn.

Björk komst að þeirri niðurstöðu að þær stúlkur sem nýttu sér Al-Alon félagsskapinn vegnaði betur í lífinu en öðrum í þeirra stöðu. Í doktorsverkefninu sýnir hún fram á hvernig stúlkurnar breyta persónuleika sínum hægt og rólega með 12 spora kerfinu. Prógrammið kennir fólki  ekki bara að tjá sig heldur einnig að hlusta. Björk upplifir þessar konur sem yfirvegaðar og með báðar fætur á jörðinni. Hún telur þær verða mjög góða yfirmenn og að þær nái langt í lífinu.

Björk segir að henni finnist æðislegt að læra á öllum aldri og að taka þann tíma sem þarf. „Ef maður ætlar að gera hlutina vel þá er í lagi að þeir taki svolítinn tíma.“

Við óskum dr. Björk innilega til hamingju með doktorsprófið og þökkum henni fyrir að vera svona flott fyrirmynd fólks á þriðja æviskeiðinu.

Veist þú hver heildarréttindi þín eru í lífeyrissjóðum við starfslok?

Flest okkar höfum greitt í þó nokkra lífeyrisjóði yfir stafsævina. Í Lífeyrisgáttinni, sem er samstarfsverkefni allra lífeyrissjóða á Íslandi, getur þú séð öll þau réttindi þú hefur unnið þér inn á starfsævinni, í sama hvaða sjóð þú greiddir.

Það er nokkuð breytilegt eftir sjóðum hvenær hægt er að hefja töku ellilífeyris en almenna reglan er að það sé á aldrinum 62 til 70 ára. Ef töku lífeyris er flýtt þá lækkar fjárhæð mánaðarlegs ellilífeyris og eins ef töku er frestað þá hækkar fjárhæðin.

Ef að mikill munur er á réttindum hjóna þá getur borgað sig að gera samning um skiptingu ellilífeyrisréttinda en slíkan samning þarf að gera fyrir 65 ára aldur, þess sem eldri er. Ráðgjafar lífeyrissjóðanna geta metið hvort slíkur samningur henti viðkomandi.

Mikilvægt er huga að fjármálum einhverjum árum fyrir starfslok. Skoða þarf samspil lífeyrisréttinda, séreignasparnaðar og almannatrygginga.

Sjá nánar á:
https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/lifeyrismal-is-lifeyrismal/

Frábærir túlkendur menningararfsins

Birgir Jónsson og Dagrún Þórðardóttir við Elliðaárnar

Við völdum að lýsa þessari gönguleið af því hún er svo fjölbreytt og áhugaverð og auk þess aðeins í nokkurra mínútna fjarlægð frá heimili okkar, sem var þægilegt þar sem leiðarlýsingin var unnin að vetri til.

Við höfðum aldrei notað svona smáforrit (app) áður, en strax á námskeiði Einars Skúlasonar áður er vinnan hófst, sáum við að það að koma mynskreyttri leiðarlýsingu með leiðarkorti inn í farsíma var aldeilis frábær aðferð til að kynna gönguleiðir.

Á leiðinni sjáum við mjög fjölbreytta náttúru; skóg, fuglalíf, jarðfræði og einnig fossandi á, sem hafði verið beisluð nákvæmlega 100 árum fyrr til að rafvæða ört vaxandi kaupstað.

Gönguleiðin kemur við í tveimur merkilegur söfnum. Í fyrsta lagi Árbæjarsafni sem kynnir húsagerð síðustu 180 ára, allt frá torfkirkju frá Silfrastöðum í Skagafirði og bjálkabyggðum verslunarhúsum upp í gegnum þróun húsbygginga Reykjavík á seinni hluta 19. aldar og inn í bárujárnstímabilið, sem er nær einstakt í heiminum, þar sem þetta nýja þakefni reyndist mjög hentugt sem veggklæðning í íslenskri veðráttu.

Annað safn sem var búið að loka tímabundið, en verður opnað aftur, er stöðvarhús Elliðaárvirkjunar, sem var í gangfæru standi með sínar upphaflegu vélar, þangað tll fyrir nokkrum árum að þrýstivatnspípan frá Árbæjarstíflu brotnaði er jarðvegsskriða rann undan pípunni í miklu vatnsveðri.

Síðari hluti gönguleiðarinnar liggur frá Árbæjarsafni niður að stöðvarhúsi Elliðaárvirkjunar og svo skemmtilega hittist á að gengið er nákvæmlega eftir gömlu þjóðleiðinni inn til Reykjavíkur að austan. Í Árbæ var veitinga- og gistiþjónusta um langt árabil í kringum aldamótin 1900.

Auðvelt er að fylgja Birgi og Dagrúnu á leið þeirra um Elliðaárdalinn með því að smella á hlekkinn:

https://es.wikiloc.com/rutas-a-pie/heim-gonguleid-i-natturunni-i-ellidaardal-isl-51278815

Tækni og tól
Tæknin sem var notuð gerð leiða í HeiM verkefninu er Wikiloc appið og tólið er snjallsíminn. Wikiloc er einfalt í notkun, byrjað er á að stofna aðgang og hlaða því inn í símann sinn og svo er hægt að fara af stað og ganga leiðina sem er fyrirfram ákvörðuð sem og áningarstaðir þar sem er stoppað og teknar myndir. Heima er svo hægt að vinna meira með myndir og texta með þeim.  Wikiloc er til bæði fyrir Android og Apple stýrikerfi. Grunnútgáfa Wikiloc apps er ókeypis fyrir notendur en hægt er að fá betri útgáfu gegn gjaldi.

Nánari upplýsingar eru á https://www.wikiloc.com/

Einar Skúlason

Til séríslenskt leiðakerfi fyrir síma, Wapp, sem Einar Skúlason hannaði 2015 en Einar er mikill áhugamaður um útvist og göngur og rekur gönguklúbbinn Vesen og vergang. Wappið  er notað af göngufólki, hjólreiðafólki og hlaupurum og er fjöldi íslenskra leiða sem eru skráðar í appið kominn í 500. Í Wapp má auk leiða finna upplýsingar um jarðfræði, flóru og faunu viðkomandi svæðis sem og þjóðsögur sem tengjast því, atvinnuhætti, búskap og sögu. Wapp, sem er ókeypis, er til á íslensku og ensku, fyrir Android og Apple stýrikerfi og 112 appið er fléttað inn í Wappið til aukins öryggis.

Nánari upplýsingar eru á
https://wapp.is/forsida/

Hvað vill hún Guðrún okkar?

Guðrún

Guðrún er hugsmíði en á sér áreiðanlega hliðstæðu í raunveruleikanum og því spennandi að vita hvaða tækifærum hún myndi leita að í Vöruhúsi tækifæranna.

Fyrst er að segja að Guðrún nam frönsku í Háskóla Íslands á sínum tíma og  stundaði nám sitt vel og var sífellt að finna nýjar skapandi leiðir í náminu. Hún er til í að skoða hvað hún getur gert með frönskukunnáttuna og bendum við Guðrúni því á tækifærið Europass  á hillunni Einstaklingsfærni í rekkanum Færni en þar sagt „Europass er fyrir alla sem vilja skjalfesta nám sitt eða reynslu innan 32 landa Evrópu“.

Guðrún er í dag skrifstofustjóri á lögfræðistofu og vill gjarnan bæta sig sem stjórnandi og leitar að tækifærum til þess. Þar getur nám í forystu og stjórnun við Háskólann í Bifröst komið að gagni því hægt er að stunda það í fjarnámi og hentar því vel með vinnu. Upplýsingar um námið finnur Guðrún á hillunni Nám og fræðsla í rekkanum Færni.

Fjárhagsleg og félagsleg réttindi eru Guðrúnu einnig ofarlega í huga en hún telur sig ekki vita nóg um þau. Tilvalið er því fyrir hana að fara í rekkann Réttindi þar sem eru tvær hillur, Fjárhagsleg réttindi og Félagsleg réttindi þó að við vitum ekki nákvæmlega að hverju Guðrún er að leita. Í hillunni Fjárhagsleg réttindi er að finna upplýsingar um Landssamtök lífeyrissjóða og Tryggingastofnun. Tryggingastofnun er einnig er finna á hillunni Félagsleg réttindi ásamt Sjúkratryggingar Íslands og Persónuvernd og European Commission. Síðstnefnda tækifærið er tilvalið því þar er fjallað um vinnu utanlands, félagsleg réttindi og sjálfboðastarf ef vera skyldi að Guðrún nýtti sér Europass

Svo viljum við benda Guðrúnu að skoða rekkann Lífsfylling því þar getur Guðrún vafalítið fundið margt við hæfi sem snýr að samskiptum við fjölskylduna og að áhugamálunum sem og að öðru sem vekur gleði og ánægju hjá Guðrúnu. Fimm hillur eru í rekkanum með mýmörgum tækifærum einmitt um þetta. Þær heita: Félagsskapur, Heilbrigðir lífshættir, Samfélagsvirkni, Samskipti og Viðburðir.

Að lokum má nefna að Guðrún er Hafnfirðingur að ætt og uppruna,  er  64 ára, fráskilin, á eigin íbúð og vin sem hún ferðast með. Hún er jákvæð að eðlisfari, brosmild og einlæg, víðsýn og áhugasöm um lífið og tilveruna.

Viðburðir í febrúar hjá U3A Reykjavík

Stjórn U3A Reykjavík hefur sett upp spennandi fyrirlestraröð í febrúar eins og endranær.

  • Þriðjudaginn 2. febrúar: Innflytjendalandi Ísland
    • Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur erindi um Innflytjendalandið Ísland sem hefur tekið stakkaskiptum með tilkomu innflytjenda.
  • Þriðjudaginn 9. febrúar: Drekabollinn
    • Jón Björnsson, sálfræðingur sem er félagsmönnum að góðu kunnur flytur erindi.
  • Þriðjudaginn 16. febrúar: Tengsl Íslands og Spánar
    • Kristinn R. Ólafsson segir frá
  • Þriðjudaginn 23. febrúar: Hetjur norðursins
    • Ragnar Axelsson, ljósmyndari heldur fyrirlestur.

Stjórnin hvetur félagsmenn til að fylgjast með þessum áhugaverðu fyrirlestrum sem auglýstir eru á heimasíðunni u3a.is

Scroll to Top
Skip to content