Forsíðumynd: Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir og Hjördís Hendriksdóttir við heiðursveitinguna – Ljósmynd: Vigdís Pálsdóttir
Að vera til fyrirmyndar í lífinu
Fyrirmyndir eru persónur sem eru tilbúnar til að skuldbinda sig og verja tíma og fyrirhöfn til að ná tilteknu markmiði. Eitt af einkennum þessara fyrirmynda er að hafa þor, þrautseigju og seiglu frammi fyrir hindrunum og áskorunum. Eldmóður þessara frumkvöðla smitar út frá sér og hvetur aðra til að leggja málefninu lið.
Þann 16. mars 2012 voru félagasamtökin U3A Reykjavík stofnuð að erlendri fyrirmynd. Hvatamaðurinn að stofnuninni var Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir ásamt þeim Ásdísi Skúladóttur, Lilju Ólafsdóttir og Helgu Margréti Guðmundsdóttur. Stofnfélagar voru 18 og í lok árs 2012 var fjöldi félaga orðinn 49. Í dag er fjöldi félaga að nálgast 1.600.
Félög þriðja geirans eru afar mikilvæg fyrir velferð samfélagsins. Þriðji geirinn eru óhagnaðardrifin félög sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum samfélagsins og starfsemi þeirra byggist fyrst og fremst á sjálfboðastarfi. Ingibjörg er ein af þessum félagslegu frumkvöðlum sem hefur það markmið að bæta samfélagið. Með stofnun U3A vildi Ingibjörg stuðla að því að fólk á þriðja æviskeiðinu hefði aðgang að fjölbreyttri fræðslu og stuðla að virkni og aukinni vitund þessa hóps og samfélagsins alls um mikilvægi þessa æviskeiðs.
Frá stofnun U3A Reykjavík starfaði Ingibjörg í stjórn U3A Reykjavík frá árinu 2012 til 2018 auk þess að stofna til og vinna að evrópskum samstarfsverkefnum eins og „BALL – Verum virk með ævinámi“ og framhaldsverkefninu „Catch the BALL – Gríptu boltann“. Bæði þessi verkefni hlutu styrk frá Erasmus+ menntaáætlun ESB. Auk þess leiddi Ingibjörg íslenska hluta evrópska samstarfsverkefnisins „HeiM -Leiðir að menningararfinum“ og var einn af stofnendum Fréttabréfs U3A Reykjavík árið 2020. Ingibjörg situr í ritstjórn fréttabréfsins og skrifar reglulega greinar í fréttabréfið. Hægt er að fræðast um þessi verkefni og árangur þeirra á vefsíðu okkar https://u3a.is. Á vefnum má meðal annars sjá í fyrri fréttabréfum margar sögur Ingibjargar um ímyndaðar persónur sem ná árangri á þriðja æviskeiðinu með því að nýta sér markaðstorg Vöruhúss tækifæranna, fólkið okkar.
Það var því vel við hæfi að heiðra Ingibjörgu með þakklæti fyrir frumkvöðlastarf og óbilandi atorku við stofnun og þróun U3A Reykjavík með því að kjósa hana fyrsta heiðursfélaga samtakanna á aðalfundi 25. mars 2025. Fólk eins og Ingibjörg gerir samfélagið okkar betra.
Heiðursskjalið má sjá hér
Hjördís Hendriksdóttir, formaður U3A Reykjavík
Væntanlegir viðburðir

F.v.: Silja Bára Ómarsdóttir, Steinunn J. Kristjánsdóttir, Stefán Gíslason,
Jóhanna Erla Torfadóttir
1. apríl mun Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í alþjóðasamskiptum og nýkjörin rektor við Háskóla Íslands flytja fyrirlestur sem hún nefnir Skammhlaup í alþjóðakerfinu þar sem farið verður yfir ástand heimsmálanna
8. apríl mun Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði til okkar í Hæðargarð með erindi sem hún nefnir: Sjöundármálin í nýju ljósi.
29. apríl mun Stefán Gíslason líffræðingur flytja erindi sem hann nefnir Nýtni er ekki níska sem fjallar breytingar á lífsháttum á Íslandi og víðar á undanförnum 100 árum.
6. maí kynnir Jóhanna Eyrún Torfadóttir lektor við H.Í. og verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu Ný næringarviðmið Landlæknisembættis með áherslu á eldri borgara.
Allir fyrirlestrarnir verða í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík og hefjast kl. 16:30
6. apríl stendur Menningarhópur U3A fyrir heimsókn í Landnámssetrið í Borgarnesi þar sem Vilborg Davíðsdóttir rekur söguna í Laxdælu.
Nánari upplýsingar um viðburði á vegum U3A Reykjavík má finna á vef félagsins: https://u3a.is/vidburdayfirlit/
Fréttir af aðalfundi U3A Reykjavík

Á aðalfundi U3A Reykjavík, sem haldinn var 25. mars sl., var ný stjórn kjörin fyrir starfsárið 2025 til 2026
Eftirtalin hlutu kosningu:
- Hjördís Hendriksdóttir var endurkjörin formaður
Önnur í aðalstjórn voru kosin og munu skipta með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar:
- Birna Sigurjónsdóttir
- Einar Sveinn Árnason
- Jón Ragnar Höskuldsson
- Stefanía Traustadóttir
- Vigdís Pálsdóttir
- Þórleif Drífa Jónsdóttir
Varamenn stjórnar:
- Emma Eyþórsdóttir
- Hans Kristján Guðmundsson
Skoðunarmenn:
- Lilja Ólafsdóttir
- Gylfi Þór Einarsson
- Þórleifur Jónsson til vara
Nánari frétta af aðalfundinum er að vænta á vef samtakanna, U3A.is
Stjórn U3A Reykjavík
Skuldar þú félagsgjald fyrir 2024?

Mynd: ChatGTP – Forskrift: Eldri hjón greiða árgjald til U3A Reykjavík
Eitthvað er um að félagar hafi ekki greitt árgjald sl. árs, án þess þó að segja sig úr samtökunum og kunna ástæður þess að vera af mörgum toga.
Samtökin bjóða vikulega yfir vetrarmánuðina uppá áhugaverða fyrirlestra sem jafnframt eru sendir út í rauntíma og síðan aðgengilegir á netinu í mánuð eftir flutning.
Einnig er boðið uppá heimsóknir til áhugaverðra fyrirtækja og stofnana, svo og ferðalaga á innlendar og erlendar slóðir.
Það er því augljóst að eftir miklu er að slægjast fyrir hóflegt árgjald sem nú er 3.000 krónur.
Í samþykktum samtaka er eftirfarandi tiltekið:
Hafi félagi ekki greitt árgjald tvö ár í röð, skal hann færður af félagaskrá.
Nú er komið að því að grisja félagaskrána áður en innheimta félagsgjalda verður send út fyrir yfirstandandi ár.
Þau sem enn eiga ógreitt félagsgjald samtakanna í netbanka frá sl. ári, þ.e. fyrir 2024 og vilja vera áfram í samtökunum, hvetjum við til að ganga frá greiðslu fyrir 19. apríl nk.
Gjaldkeri samtakanna
Öldungar í Ráðhúsinu

Ráðhús Reykjavíkur – Ljósmynd: Reykjavíkurborg
Öldungaráð skulu skipuð í hverju sveitarfélagi fyrir sig samkvæmt lögum frá Alþingi.
Öldungaráð er til ráðgjafar fyrir stjórn sveitarfélags um þau málefni sem taka til hagsmuna eldra fólks, að vinna að eflingu félagsauðs og kynningu á þjónustu sveitafélags við íbúa sem eru 67 ára og eldri
Þar er kveðið á um að stjórnmálasamtök sem eiga fulltrúa í stjórn viðkomandi sveitarfélags skipi 3 fulltrúa, að 3 fulltrúar komi frá félagi eldri borgara og 1 fulltrúi í ráðinu komi frá heilsugæslunni.
Í Reykjavík hefur verið starfandi öldungaráð síðan lögin tóku gildi og fundað er að jafnaði einu sinni í mánuði nema yfir hásumarið.
Á síðasta ári var ákveðið af borgarstjórn Reykjavíkur að hleypa fulltrúum fleiri félaga eldri borgara að borðinu en áður hafði verið, því í eins stóru sveitarfélagi eins og Reykjavík er eldra fólk afar stór og fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir, langanir og áherslur. Til að koma til móts við þessa breidd var ákveðið að þessir þrír fulltrúar eldra fólks sem eiga að vera í öldungaráði skiptust á milli þriggja félaga: Félags eldri borgara í Reykjavík, Samtaka aldraðra og U3A Reykjavík – Háskóla þriðja æviskeiðsins.
Síðasta haust tók Viðar Eggertsson sæti í öldungaráði f.h. U3A Reykjavík og Birna Sigurjónsdóttir er varamaður U3A. Þau hafa skipst á að sitja fundi öldungaráðs fram eftir vetri, þó Viðar sýnu oftar sem aðalfulltrúi.
Í sáttmála nýs meirihluta sem tók við nú snemma árs var ákveðið að færa öldungaráð ásamt tveim öðrum ráðum hagsmunaaðila, fjölmenningarráð og samráðshóp um málefni fatlaðs fólks, undir mannréttindaráð. Sérstök samþykkt var gerð um nýtt og víðtækara hlutverk mannréttindaráðs. Samþykktina má lesa hér
Þetta er afar áhugaverð breyting, því með þessu gefast tækifæri til að rödd þessara hagsmunahópa fái betur að hljóma. Í stað þess að þrír pólitískir fulltrúar sitji í ráðum hagsmunahópana sem oftast hafa verið vara borgarfulltrúar, eins og t.d. í öldungaráði, þá sitja í mannréttindaráði sjö fullgildir borgarfulltrúar sem aðalmenn eða áheyrnarfulltrúar frá öllum stjórnmálasamtökum sem skipa borgarstjórn í dag. Það gefur því auga leið að það sem er rætt á fundum með hagsmunahópunum og samþykkt er, fær meira vægi inn í borgarráð og borgarstjórn en áður hefur verið.
Engin breyting verður á fjölda funda öldungaráðs né á fulltrúafjölda eldra fólks þar og halda t.d. þau Viðar og Birna áfram sem fulltrúar U3A Reykjavík í öldungaráði, eins og áður, sem nú er hluti sterkara og fjölskipaðs mannréttindaráðs. Það er því ekki slegið af með þessu fyrirkomulagi, heldur gefið í og þá helst með virkari aðkomu borgarfulltrúa og meira vinnuframlagi af þeirra hálfu.
Með þessari nýju skipan gefst einnig tækifæri til samlegðar þegar málefni skarast. Ferlismál hafa verið ofarlega í umræðu fatlaðs fólks og þar á eldra fólk einnig oft samleið í hagsmunum. Eins fer fjölgandi eldra fólki sem á uppruna sinn í öðru landi en hefur sest hér að. Það fólk er ekki alltaf nógu upplýst um réttindi sín og skyldur. Því er þar líka stundum skörun þegar kemur að málefnum fjölmenningarráðs. Auk þess þá þarf að hafa auga með mannréttindum eldra fólks sem oft getur orðið afskipt ef ekki er vakað yfir hagsmunum þess.
Með því að allir þessir hópar með sín sérstöku mál eigi sameiginlegan vettvang í mannréttindaráði er hægt að boða til sameiginlegra funda með þessum ólíku, en þó líku, hópum ef þörf kallar á. Og það sem mest er um vert: með fullgildum borgarfulltrúum.
Viðar og Birna eru full bjartsýnis fyrir komandi tímum og hvetja eldra fólk til að senda þeim ábendingar um málefni sem vert væri að taka upp í öldungaráði innan nýs mannréttindaráðs. Best væri ef þau bæði fengju erindin á netföng sín í sama netbréfinu. Viðar: vidaregg@islandia.is og Birna: skogarsel@simnet.is
Viðar Eggertsson
Við megum engan tíma missa

Er íslenska lífeyriskerfið á villigötum? Hér verður leitast við að svara þeirri spurningu.
Núverandi lög um almannatryggingar tóku gildi í ársbyrjun 2017. Markmið þeirrar lagasetningar var að einfalda almannatryggingakerfið með því að sameina bótaflokka. Þannig var ellilífeyrir, sem hér eftir verður nefndur grunnlífeyrir, tekjutrygging og framfærsluuppbót sett í einn bótaflokk.
Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram haustið 2016 voru öll frítekjumörk felld niður og allar tekjur skertar um 45 %, hvort sem um var að ræða lífeyrissjóðatekjur, launatekjur eða vaxtatekjur. Nefnd sú sem vann að þessari lagasmíð var fjölmenn og einkum skipuð aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum stjórnmálaflokka. Í þessari fjölmennu nefnd átti Landsamband eldri borgara aðeins einn fulltrúa sem telja verður sérkennilegt þar sem lögin fjölluðu eingöngu um málefni eldri borgara þar sem að Öryrkjabandalag Íslands dró sig úr nefndarstörfum. Fjölmennasta og þróttmesta félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni FEB, mótmælti harðlega þessum tillögum, sem að mati félagsins miðuðu í þá átt að gera Tryggingastofnun að eins konar fátæktarstofnun.
Á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands um velferðarkerfið, sem haldin var fyrir nokkrum árum kom fram sú eindregna skoðun ræðumanna að ekki mætti einskorða bætur almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á sviði velferðar- og lífeyrismála, Joakim Palme, sem er sonur Olofs Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, dró í erindi sínu dökka mynd af því ástandi sem myndaðist þegar velferðarkerfi væru aðeins hugsuð sem aðstoð fyrir þá allra verst settu í þjóðfélaginu. Afleiðing slíks kerfis væri sú að mati Palme að velferðarkerfið væri svelt, vandkvæði tengd neikvæðri stimplun styrkþega kæmi upp auk fátæktargildru. Því meira sem eftirlaun eru lágtekjumiðuð, því lægri verður upphæðin sem er til ráðstöfunar, þ.e. því meiri áhersla verður lögð á að beina eftirlaunum aðeins til hinna fátækustu í samfélaginu, því minni árangri nær velferðarríkið í því að draga úr ójöfnuði.
Þess má geta að umrætt frumvarp og þar með lögin virtust bera keim af sérstakri vanþekkingu og hroðvirkni. Ekki verður séð að upplýsinga hafi verið aflað um almannatryggingar annars staðar, sérstaklega á Norðurlöndunum, en réttindagrunnur almennra lífeyrissjóðs verkafólks hér á landi var einmitt sniðinn að ATP kerfinu í Danmörku. Ekki voru skoðaðar tekjuskerðingar í löndum OECD ríkjanna, sem full þörf hefði verið að gera.
Ísland og Ástralía eru til að mynda einu löndin innan OECD ríkjanna þar sem lífeyrissjóðagreiðslur skerða algjörlega ellilífeyri almannatrygginga og með auknum lífeyrissjóðaréttindum fjölgar eldri borgurum á hverju ári sem ekkert fá frá almannatryggingum. Þannig má geta þess að tæplega 13 % landsmanna 70 ára og eldri fengu engar greiðslur frá Tryggingastofnun á síðasta ári. Þetta hlutfall var 7 % hjá sama aldurshópi fyrir setningu laganna. Auk þess sem 9400 manns á eftirlaunaaldri fengu engan lífeyri frá TR.
Ein afdrifaríkustu mistökin voru þau að meðhöndla lífeyrissjóðagreiðslurnar með sama hætti og aðrar tekjur. Allt fram að hruni fjármálamarkaða 2008 skertu lífeyrissjóðatekjur ekki grunnlífeyri almannatrygginga. Það var hins vegar gert tímabundið eftir hrun, en leiðrétt svo aftur. Þúsundir eftirlaunaþega misstu hins vegar grunnlífeyrinn í ársbyrjun 2017.
Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar segir um almannatryggingar:
„frítekjumark ellilífeyris hækkar í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði, tekið verður upp frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og dregið úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna.“
Ég hef áður sagt það og segi það enn. Hækkun frítekjumarka um hænufet er ekki lausn. Allt frá því að tekjutryggingin var tekin upp árið 1971 hefur það verið endalaus barátta verkalýðshreyfingarinnar að hækka frítekjumörkin. Með einu pennastriki voru síðan frítekjumörkin nær því alveg felld niður árið 2017. Sú þróun að hækka frítekjumark launa en skilja eftir frítekjumark lífeyrissjóðatekna er í hæsta lagi óeðlileg og ósanngjörn. Ef menn vilja tjasla eitthvað upp á almannatryggingakerfið væri fyrsta skrefið að hækka svo um munar frítekjumark lífeyrissjóðatekna.
Hitt er svo annað mál og ætti að vera megin krafa Landsambands eldri borgara að fram fari heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Ríkisstjórnin ætti nú þegar að skipa sérstaka verkefnastjórn sem hefði það að megin verkefni að koma á réttlátu ellilífeyriskerfi. Sú verkefnastjórn á ekki að vera fjölmenn, en aðal atriðið er að hún verði skipuð kunnáttumönnum. Búum til réttlátt og sanngjarnt almannatryggingakerfi sem þarf ekki marga mánuði til að undirbúa. Við eldri borgarar megum engan tíma missa!
Greinarhöfundur er Hrafn Magnússon,
fyrrverandi framkvæmdarstjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Lestarferðir um Evrópu:
Uppgötvanir fyrir alla aldurshópa

Ferðalagið sjálft er stundum meiri upplifun en áfangastaðurinn sjálfur. Þetta á til dæmis við um lestaferðir gegnum gamlar borgir, bleika akra, fjöll og firnindi. Kannski er ástæða til að við ferðaglöðu Íslendingar nýtum okkur þennan ferðamála í meira mæli. Því valmöguleikarnir í framboði lestarferðalaga um Evrópu aukast sífellt og margir afar spennandi kostir eru í boði fyrir þá sem vilja prófa nýjan, spennandi og umfram allt þægilegan ferðakost.
Það er frekar stutt síðan ég áttaði mig á því að Interrail lestakerfið, gildir fyrir alla aldurshópa, ekki aðeins fyrir ungt fólk, eins og hér áður fyrr, og Interrail-passar eru seldir með afsláttarkjörum til eldri borgara. Slíkir passar leyfa handhöfum þess að ferðast frjálst bæði innan landa og milli landa í Evrópu með lestum. Passinn getur bæði verið rafrænn eða prentaður miði sem veitir aðgang að lestum í allt að 33 löndum í Evrópu. Þeir sem kaupa Interrail-passa geta valið á milli þess að ákveða fjölda ferðadaga innan ákveðins tímabils (t.d. 7 ferðadagar innan 1 mánaðar) eða ótakmarkaðan fjölda ferða í ákveðinn fjölda daga (t.d. 15, 22 eða 30 daga samfleytt ferðalag). Báðir kostirnir veita mikinn sveigjanleika í ferðum þannig að hægt er að dvelja mislengi á stöðum sem ferðalangnum þykir spennandi að skoða betur, hvort sem er stórborg eða sveitaþorp. Sammerkt er að passinn er frábær kostur fyrir þá sem vilja ferðast um mörg lönd með lítilli fyrirhöfn. Interrail passinn veitir auk þess afslátt af ýmsum ferðatengdum kostum eins og hótelgistingu, ferjum o.fl.
Hægt er að kaupa miða í gegnum vefsíðuna www.interrail.eu eða hjá öllum helstu lestarfélögum í Evrópu.
Baltic-Express
Dæmi um nýja og spennandi lestaferð, sem Interrail-passinn gildir í, er um sögulegar slóðir frá stórveldistímum austurhluta Evrópu. Lestarleiðin nefnist Baltic-Express og nær yfir alls 878 km leið um Tékkland og Pólland. Ferðin er sögð gefa ferðalöngum einstaka sögulega upplifun um forna stórveldistíma hinna ýmsu tímabila í sögu Evrópu, m.a. Þýska keisaradæmið, Austurrísk-ungverska heimsveldið, Sovéttímann, auk ummerkja eftir tímabil nasismans. Þetta er engin hraðlest, en býður engu að síður uppá notaleg sæti, netteningu, veitingar og öll nútíma þægindi. Þeir sem ferðast með lestinni geta yfirgefið hana á einhverri þeirra 20 lestarstöðva þar sem stoppað er og komið aftur um borð – allt að eigin vild.

Upphaf ferðarinnar er í hinni fornfrægu aðallestarstöð í Prag í Tékklandi Hlavní Nádraží-stöðinni. Lestarstöð þessi hefur verið nefnd „dómkirkja járnbrautarsamgangna“, þar sem tvöfaldar hvelfingar hennar rísa upp af þakinu líkt og rómverskt hof. Stöðin var byggð árið 1871, þegar Austurrísk-ungverska heimsveldið var og hét.
Hlavní Nádraží-stöðin í Prag er aðeins dæmi um það sem er í vændum fyrir ferðalanginn. Endastöð Baltic-Express lestarlínunnar er í borginni Gdynia við Eystrasaltsstrendur Póllands, skammt norður af pólsku borginni Gdansk, sem er mörgum Íslendingum kunnug. Á leiðinni gegnum Tékkland og Pólland gefst ferðalangnum tækifæri á að upplifa borgir og þorp sem ekki eru þéttsetnar ferðamönnum. Nefna má tékknesku borgina Pardubice, með merkilegu torgi og húsum í skrautlegum pastellitum, þá pólska heilsulindabæinn Kłodzko eða pólsku miðaldaborgina Leszno. Matur og menning á þessum stöðum er oft önnur en við eigum að venjast. Þá ber fyrir augu miðaldakastala, íburðarmiklar kirkjur og miðaldaborgir, svo eitthvað sé nefnt.
Emil B. Karlsson
Vísnapistill Fréttabréfsins

Mynd: ChatGPT – Forskrift: Karlmaður frá 19. öld les upp kvæði
Ákveðið hefur verið að gera tilraun með örlitla umfjöllun um íslenska vísnagerð í fréttabréfi U3A Reykjavík.
Í fyrsta þætti er vert að minnast Kristjáns Níelsar Jónssonar (1860-1936) sem þekktur er undir skammstöfun skírnarnafna sinna (KN (Káinn)) Hann flutti ungur til Vesturheims og vann fyrir sér sem vinnumaður á bæjum í Íslendingabyggðum. Káinn var gott skáld og hagyrðingur, þótti orðheppinn og fljótur að svara fyrir sig en glímdi nokkuð við Bakkus.
Eitt sinn var kona nokkur að vanda um við Káin fyrir ístöðuleysi í lifnaðarháttum og sagði að ef hann drykki ekki svona hefði hann áreiðanlega getað gifst góðri stúlku og orðið gildur bóndi.
Káinn svaraði af bragði:
Gamli Bakkus gaf mér smakka
gæðin bestu, öl og vín.
Honum á ég það að þakka
að þú ert ekki konan mín.
Efnuðum presti í nágrenni Káinns var gefinn fyrirtaks hestur og orti hann þá:
Tíðum hér á tölti‘ ég sést
til þess eru líkur,
gefið mér þeir hefðu hest,
hefði ég verið ríkur.
Um brennivínið orti hann:
Bindindismennirnir birta það hér
að brennivín geri menn „crasy“
en það get ég sannað að orsökin er
oftast nær brennivíns-leysi.
Meira seinna
Lilja Ólafsdóttir