Það er aldrei of seint!
Við erum almennt mjög ung, alltof ung eftir á að hyggja, þegar að við tökum stórar örlagaríkar ákvarðanir um framtíð okkar. Flest okkar eigum við drauma um lífið og hvernig við viljum að verja því. En lífið er ekki endilega alltaf bein lína og fyrirætlanir ganga stundum ekki upp vegna kringumstæðna sem við sáum ekki fyrir. Stundum getum við aðlagað plön okkar að breyttum veruleika en stundum verðum við að slá þau af og gera eitthvað allt annað. Gamlir draumar lifa svo gjarnan áfram í undirmeðvitund okkar eða við eignumst kannski nýja drauma á lífsleiðinni.
Samfélagið okkar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Hugmyndir um að einstaklingurinn velji sér eina leið út í lífið og haldi áfram á þeirri braut þar til yfir lýkur hafa, sem betur fer, runnið sitt skeið. Menntun tilheyrir ekki lengur ákveðnu aldursskeiði heldur þykir nauðsynlegt að fólk mennti sig allt lífið. Stór tímamót urðu þegar MH opnaði öldungadeild árið 1972 sem veitti fólki tækifæri, sem fram að því hafði ekki átt möguleika á að ljúka stúdentsprófi. Þessa nýju leið til náms eftir tvítugt og leið til að komast í háskólanám nýttu sér fjölmargir og ekki síst konur.
Við tengjum gjarnan ávinning menntunar við hefðbundinn starfsframa og fjárhagslegan ávinning því tengdan. En rannsóknir sýna að ávinningur menntunar er mun víðtækari. Þar má telja t.d. bætta kunnáttu, hugrænan þroska, jákvætt sjálfsmat og aukið sjálfsöryggi. Þetta leiðir til betra andlegs og líkamlegs ástands enda margsannað að það er samband á milli menntunar og heilsu fólks. Allir þessir þættir hafa síðan áhrif á að einstaklingurinn öðlast sterkari félagsleg tengsl og verður virkari í samfélaginu t.d. með því að taka virkari þátt í menningarlegum viðburðum, félagasamtökum og stjórnmálum.
Á næstu vikum mun Vöruhús tækifæranna, með stuðningi félagsmálaráðuneytisins, vekja athygli á nokkrum einstaklingum sem eru að nýta efri árin og þriðja æviskeið sitt til að gera eitthvað nýtt og spennandi. Þessi hópur á það sameiginlegt að vera óhræddur við að stíga út fyrir þægindaramman, taka áhættu og láta drauma sína rætast. Þetta eru sannkallaðar fyrirmyndir!
Grein þessi styðst m.a. við rannsóknir Jóns Torfa Jónassonar prófessors emeritus við HÍ.
Hrútakofinn Bara karlar
Hrútakofinn er leshringur á vegum Borgarbókasafnsins ætlaður karlmönnum sem þar kynnast nýju lesefni og deila lestrarreynslu sinni. Fundir Hrútakofans, undir stjórn Gunnars Þórs Pálssonar, eru haldnir fyrsta miðvikudag í mánuði á Borgarbókasafninu Spönginni í Grafarvogi kl. 17:30 – 18:30.
Aðspurður um tilurð Hrútakofans sagði Gunnar Þór að hann hefði alist upp á bókaheimili þar sem mikið var lesið og rætt um bækur. Hann kynntist leshringi sem frönskumælandi eiginkona hans heldur utan um fyrir frönskumælandi fólk á Reykjavíkursvæðinu og Gunnar Þór ákvað að finna leshring við sitt hæfi, en það reyndist ekki svo einfalt. Starfandi leshringir á vegum bókasafnanna eru almennt fullir og einungis hægt að skrá sig á biðlista. Leshringir sem Gunnar fann á Facebook gera ráð fyrir að allir lesi sömu bókina, nánast alltaf eingöngu skáldsögur og það hugnaðist Gunnari Þór ekki.
Annað sem Gunnar uppgötvaði í leit sinni að „rétta“ leshringnum fyrir sig var að þetta voru yfirleitt mjög kvenlægir leshringir. Gunnar var fullviss um að það hlytu að vera til fullorðnir karlar sem lesa sér til skemmtunar og hefðu hugsanlega áhuga á því að hittast til að ræða bækur af ýmsum toga, þ.m.t. fræðandi bækur en ekki eingöngu skáldsögur.
Dag einn rakst Gunnar Þór á auglýsingu frá bókasafninu í Spönginni að verið væri að leita að fólki til að stofna sína eigin leshringi og sjá um þá, en að bókasafnið byði upp á aðstöðuna. Deildarbókavörðum í Spönginni leist vel á þá hugmynd að draga lesandi karlmenn uppá yfirborðið og Hrútakofinn varð til.
Það hefur gengið ágætlega að fá menn í hringinn sem í dag er fámennur kjarni sem hittist mánaðarlega til að kynna og ræða bækur. Sá yngsti í hópnum er tvítugur og sá elsti sjötugur. Öllum körlum er vel tekið og enginn skammaður þó að hann hafi ekki klárað bókina.
Hægt er skrá sig í leshringinn með tölvupósti á netfangið: hrutakofinnleshringur@gmail.com
Næsti fundur leshringsins verður miðvikudaginn 2. febrúar kl. 17:30
Nánari upplýsingar er að finna á: https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/hrutakofinn-leshringur-karla/
Menntastofa tækifæranna fyrir þjálfara og mannauðsstjóra
Rétt eins og Vöruhús tækifæranna styður Menntastofa tækifæranna við viðleitni þriðja æviskeiðsins, fólks yfir fimmtugt, til þess að eiga þróttmikið og virkt þriðja æviskeið. Til þess að svo megi verða býður Vöruhúsið upp á tækifæri fyrir þennan aldurshóp við að feta nýjar slóðir í lífinu og láta drauma sína og óskir rætast og Menntastofan veitir leiðsögn um hvernig megi aðstoða fólk á þessu æviskeiði við að uppgötva styrkleika sína, þarfir og þrár.
Menntastofa tækifæranna er þróuð samhliða Vöruhúsi tækifæranna og má finna hér á vef Vöruhússins. Menntastofa tækifæranna er handbók, „Manual for Trainers and Facilitators“ sem leggur upp aðferðafræði fyrir þjálfara, starfsmenn á mannauðssviðum, ráðgjafa og alla þá sem leiðbeina fólki yfir fimmtugt hvernig það getur undirbúið, fundið nýjar leiðir og eignast þróttmikið þriðja æviskeið. Í bókinni er námskeiðslýsing á hvernig best megi standa að því.
Líkt og Vöruhúsið er Menntastofan afurð alþjóðlega Erasmus+ samstarfsverkefnisins Catch the BALL (2016-2018) þar sem U3A Reykjavík, íslenska fyrirtækið Evris ses, Kaunas STP, Vísinda- og tæknigarður Kaunas, Litháen, og MBM, starfsþjálfunar- og þróunarmiðstöð í Liverpool, Bretlandi, lögðu saman krafta sína, þekkingu og reynslu til undirbúnings virks þriðja æviskeið. Í þessu þróunarstarfi tóku þátt fjölmargir sérfræðingar, markþjálfar og fólk með reynslu af slíku þjálfunarstarfi frá öllum samstarfslöndunumsem og lauk því með vel heppnuðu og fjölmennu tilraunanámskeiði í Kaunas, Litháen.
Hugmyndir þær sem þróaðar eru í Menntastofunni hafa verið nýttar með góðum árangri af aðilum sem tóku þátt í þróunarstarfinu og tilraunanámskeiðinu hér sem erlendis. Meðal annars hefur U3A Reykjavík staðið fyrir einu námskeiði á þessum grunni, „Gríptu tækifærið“ sem áformað er að endurtaka þegar færi gefst frá samkomutakmörkunum Covid-19 faraldursins
Hann Nonni okkar
Nonni önnum kafinn við vinnu
Hugarsmíðin hann Nonni okkar er 60 ára gamall bifvélavirki og heitir fullu nafni Sigurjón Kristmannsson. Hefur búið í Kópavogi í um þrjátíu ár en á ættir sínar að rekja til Djúpavogs. Nonni er ógiftur og býr einn. Á tvær sambúðir að baki sem gengu ekki upp. Dóttir varð til í þeirri fyrri. Vinnur hjá bílaverkstæðinu Við reddum því í Kópavogi og hefur gert s.l. 20 ár. Pólitískar skoðanir Nonna eru ekki sterkar eða öfgakenndar né er hann mikið fyrir að flíka þeim. Kýs helst í takt við það sem vinnufélagarnir gera. Oftast eru það Píratar sem verða fyrir valinu.
Nonni er hlédrægur, feiminn að eðlisfari og óframfærinn. Hefur sig því ekki í frammi þá sjaldan hann fer á mannamót og hangir helst heima. Finnst þó gaman að hitta kunningjana á barnum af og til um helgar en er ekki alltaf ánægður með sjálfan sig á eftir. Annars er það sjónvarpið og útvarpið og þá auðvitað Fyrir forvitna. Nonni vill hjálpa og styður mörg og margvísleg góðgerðafélög með mánaðarlegum greiðslum. Helst vill hann styrkja félög sem safna fyrir aðstoð við börn og konur. Má ekkert aumt sjá, vill þá koma til aðstoðar. Hugsar líka hlýtt til móður sinnar, systra og systurbarna fyrir austan og sendir þeim eitthvað smáræði við og við. Nonni er ekki mikið fyrir sport. Gengur í og frá vinnunni og lætur það duga. Skeytir engu þó vinnufélagarnir séu að gera grín að honum og hvetja hann til þess að koma með sér í ræktina. Finnst hún bara vera fyrir vöðvatröll. Hefur skoðað Karlar í skúrum í Hafnarfirði og veltir fyrir sér að líta við hjá þeim. Ekki sakaði ef hann skyldi þekkja einhvern karlana.
En Nonni er einmanna og hefur nú ákveðið að gera skurk í sínum málum. Sambúðarkona nr. tvö hafði á sínum tíma bent honum á Vöruhús tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ sem hún hafði heimsótt þegar hún ákvað að verða færari í sínu starfi. Nonni kíkti inn í Vöruhúsið, renndi yfir nöfn rekkana sem þar eru og fannst best að kynna sér fyrst tækifærin í rekkanum Lífsfylling. Kannske gæti hann kynnst einhverjum eða jafnvel eignast nýja kunningja og eða vini. Nonni ákvað því að byrja á hillunni Félagsskapur í rekkanum. Þar fann hann tvennt sem hann ákvað að skoða betur, Makaleit. Stefnumótasíða og Paris- félag þeirra sem eru einir. Nonni skráði sig strax á Stefnumótasíðuna og sem félaga í Paris. Heilmikið afrek fannst honum og var ánægður með sig. Sá fram á betri tíma.
Nonna hélt áfram og nú var það hillan Samskipti þar sem hann fann upplýsingar sem hentuðu honum eins og um Silver surfers, netspjallrás fyrir fólk á aldrinum 50+ og slóð á sálfræðinga sem aðstoða við samskiptavanda. Auðvitað margt annað í boði þar eins og hvernig hann gæti lært á Zoom eða umgengist stjúpbörn. Áfram hélt Nonni og opnaði á tækifæri um sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum á hillunni Samfélagsvirkni. Spennandi fannst Nonna og vel í takt við hugsun hans að hjálpa öðrum. Á hillunni Viðburðir sá Nonni mörg tækifæri til að hitta aðra, ekki bara hanga heima, t.d. viðburði hjá U3A Reykjavík á þriðjudagskvöldum. Nonni er ekki ennþá alveg tilbúinn í hilluna Heilbrigðir lífshættir. Nóg um hvatninguna hjá vinnufélögunum sem eru sífellt að gefa honum smá pillur um holdafarið og stirðleikann. En hver veit? Kannski kemur hann þeim að óvörum?
Nonni saknar fjölskyldu sinnar á Djúpavogi, bæjarins og umhverfisins sem hann telur það fallegasta á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hann vill þó ekki flytja austur aftur vegna uppkominnar dóttur sinnar sem býr ein í Kópavogi með litla strákinn sinn sem Nonni elskar út af lífinu. Hann vill vera til taks á stundinni ef eitthvað kemur upp á.
Taktu efri árin með trompi
Við viljum öll lifa þróttmikið þriðja æviskeið, efri fullorðinsárin. Mikilvægt er að undirbúa þau tímanlega til þess að geta átt virk og gefandi ár þegar komið er á eftirlaunaaldur og heilsa, fjárráð og fjölskylduaðstæður leyfa. Staldra við, líta til baka, skoða hug sinn, áhugamál og drauma og meta styrk sinn og getu til þess að láta þá rætast. Gott er þá að geta leitað ráða og fá aðstoð sem er víða í boði, t.d. má finna fjölda slíkra tækifæra á námskeiðum, hjá ráðgjöfum og á Netinu.
Við vekjum hér athygli á hlaðvarpi sem Dr. Dorian Mintzer, markþjálfi heldur úti á Netinu, og kallar ”Revolutionize your Retirement” og hægt er að nálgast á slóðinni:
https://revolutionizeyourretirementradio.buzzsprout.com/
Í hlaðvarpinu er og verður að finna áhugaverð erindi um hvernig skipuleggja megi eftirlaunaárin og njóta þeirra ára sem einkennast af gleði og auknu sjálfstrausti. Þar eru m.a. ræddir þættir á borð við væntingar, fjármál, lífstíl, sjálfsmynd og heilsu.
Dorian, kölluð Dori, sem er búsett í Bandaríkjunum, hefur faggildingu sem starfslokamarkþjálfi og er ráðgjafi og vinsæll fyrirlesari sem m.a. hefur um langt skeið boðið mánaðarleg viðtöl á Netinu við fjölmarga sérfræðinga sem rannsaka og veita ráðgjöf um hvernig best megi undirbúa starfslok og eftirlaunaárin til þess að njóta þeirra sem best.
Vefsíðu Dori má skoða á slóðinni: https://RevolutionizeRetirement.com.
Á vefsíðunni má svo finna upplýsingar um hana og verkefni hennar og þá þjónustu sem hún býður upp á. Þar má einnig finna upptöku af TEDx fyrirlestri hennar um “The Bonus Years” sem fróðlegt er að hlusta á.
Til gamans má geta þess að Dori hafði heyrt af starfi okkar í U3A Reykjavík í Evrópuverkefnum sem samtökin hafa tekið þátt í og að fyrir nokkrum árum stoppaði hún hér á landi á leið sinni um Atlantshafið. Var ánægjulegt að skiptast á skoðunum við hana um efri árin og starf okkar í U3A.
Nýtt útlit – sama góða innihaldið
Þannig auglýsa margir framleiðendur og seljendur matvæla og sælgætis til að endurvekja athygli á söluvöru sinni. Þetta kann að virðast brosleg aðferð en augað er í framlínu skynjunarinnar og því er þetta áhrifarík til að endurheimta athygli.
En það er ekki aðeins söluvaran sem fær nýtt útlit, við erum öll að endurnýja útlit okkar með einum eða öðrum hætti, t.d. í fatavali.
Nú hefur Vöruhús-tækifæranna.is einnig hresst upp á útlitið án þess þó að mikið sé hróflað við uppsetningu eða skipulagi.
Þó hefur verið bætt við síðu með samantekt yfir örsögur um ímyndaða notendur, sem leita fyrir sér í Vöruhúsinu, en vel gætu átt sér raunverulegar fyrirmyndir. Þá síðu er að finna undir VÖRUHÚSIÐ í valslá.
Við vonum því að vefurinn vekji athygli og dragi til sín gesti.
Viðburðir U3A Reykjavík í febrúar 2022
Frá vinstri: Þórir Haraldsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Sigurður Halldórsson og Hjörleifur Sveinbjörnsson.
Fjölbreytt dagskrá fræðslufunda er framundan hjá U3A Reykjavík í febrúar eins og áður. Undanfarið hafa fyrirlestrar verið sendir út í streymi og engir gestir í sal en þegar samkomutakmörkunum hefur verið aflétt verður aftur hægt að bjóða félögum að mæta í salinn í Hæðargarði. Félagar eru hvattir til að fylgjast með því. Fyrirlestrar eru síðan aðgengilegir félagsmönnum í viku eftir flutning eins og verið hefur.
1. febrúar fáum við erindi frá Þóri Haraldssyni, forstjóra Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hann segir frá starfsemi stofnunarinnar og kynnir helstu áherslur og nýjungar í starfseminni.
8. febrúar kynnir Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælaverkfræðingur og stjórnarformaður Hyndlu fyrirtækið og starfsemi þess. Tilgangur félagsins er að rannsaka, þróa og rækta stórþörunga á Íslandi, framleiða og markaðssetja afurðir úr þeim jafnt innanlands sem utan.
15. febrúar kemur til okkar Sigurður Halldórsson framkvæmdastjóri Pure North sem endurvinnur plast með „grænni orku“ með það að markmiði að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor. Vinnsluaðferð Pure North Recycling er einstök á heimsvísu, umhverfisvæn og byggir á íslensku hugviti.
22. febrúar ætlar Hjörleifur Sveinbjörnsson að fræða okkur um kínverska menningu og listir en hann hefur meðal annars þýtt bókina Apakóngur á Silkiveginum og fékk fyrir það íslensku þýðingarverðlaunin.