Fjölbreytt dagskrá fræðslufunda er framundan hjá U3A Reykjavík í febrúar eins og áður. Við vonumst til að innan skamms tíma getum við aftur komið saman í salnum í Hæðargarði og hér fyrir ofan birtist mynd frá viðburði síðastliðið haust. En undanfarið hafa fyrirlestrar verið sendir út í streymi og engir gestir í sal. Félagar eru hvattir til að fylgjast með útsendingum. Fyrirlestrar eru síðan aðgengilegir félagsmönnum í viku eftir flutning eins og verið hefur.
1.febrúar fáum við erindi frá Þóri Haraldssyni, forstjóra Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hann segir frá starfsemi stofnunarinnar og kynnir helstu áherslur og nýjungar í starfseminni.
8. febrúar kynnir Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælaverkfræðingur og stjórnarformaður Hyndlu fyrirtækið og starfsemi þess. Tilgangur félagsins er að rannsaka, þróa og rækta stórþörunga á Íslandi, framleiða og markaðssetja afurðir úr þeim jafnt innanlands sem utan.
15. febrúar kemur til okkar Sigurður Halldórsson framkvæmdastjóri Pure North sem endurvinnur plast með „grænni orku“ með það að markmiði að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor. Vinnsluaðferð Pure North Recycling er einstök á heimsvísu, umhverfisvæn og byggir á íslensku hugviti
22.febrúar ætlar Hjörleifur Sveinbjörnsson að fræða okkur um kínverska menningu og listir en hann hefur meðal annars þýtt bókina Apakóngur á silkiveginum og fékk fyrir það íslensku þýðingarverðlaunin.