Jólakveðja 2022
Jólakveðja frá U3A Reykjavík
Það birtir í sálunni við að sjá jólaljósin kvikna á húsum og torgum og lýsa upp skammdegismyrkrið. Þá er gott að staldra við og njóta augnabliksins og gleyma önnum um stund. Aðventan á einmitt að vera tími þar sem hvílum í núinu og njótum. Það þýðir þó ekki að við eigum að halla okkur aftur og aðhafast ekkert. Núvitund er einfaldlega það að velja að láta athyglina hvíla á líðandi stund og taka eftir hvað er að gerast á meðan það er að gerast. Mikilvægt er að grípa tækifæri og skapa tækifæri á aðventu og jólum til að njóta samveru með ástvinum og í góðum félagsskap. Þannig ræktum við tengsl við fjölskyldu og vini sem eru okkur svo mikilvæg og nærandi.
Mér er ofarlega í huga einmitt nú hvað það er ánægjulegt að sjá salinn okkar í Hæðargarði fyllast fólki á fyrirlestrunum og hvað það eru mikil viðbrigði frá undanförnum Covid árum þegar engir eða örfáir máttu koma saman. Stjórnarmenn í U3A eiga þakkir skilið fyrir að leggja sig fram um að útvega áhugaverða fyrirlesara um efni og fyrir að undirbúa vikulega flutning og útsendingu. En það var einmitt á Covid-tímanum sem við hófum að streyma og taka upp fyrirlestrana. Undirtektir félagsmanna voru svo góðar að við höldum áfram að deila fyrirlestrum til félagsmanna og nú á haustdögum njóta um 200 manns að meðaltali hvers fyrirlesturs.
Við höldum ótrauð áfram með fjölbreytta dagskrá á nýju ári. Það er tilhlökkunarefni að hitta ykkur, félagsfólk U3A Reykjavík á fyrirlestrum í Hæðargarði, í hópastarfi, í heimsóknum og á viðburðum á vegum félagsins.
Hafið það gott um jól og áramót, lýsið upp þennan myrka tíma með ljósum en líka með nærveru ykkar. Sjáumst heil á nýju ári.
Gleðileg jól!
Birna Sigurjónsdóttir
formaður U3A Reykjavík
Dagur
- 24.12.2022
- Expired!
Tími
- 08:00 - 18:00
The event is finished.
Næsti viðburður
- Samsæriskenningar
-
Dagur
- 08 okt 2024
-
Tími
- 16:30