Tveir hópar félaga í Metardo Čoboto TAU, Háskóla þriðja æviskeiðsins í Vilnius, Litháen, heimsóttu Ísland í ágústbyrjun, Hvor hópur var hér í viku og ferðaðist vítt og breitt um Suður- og Vesturland, allt frá Snæfellsjökli austur að Jökulsárlóni. Fyrir hópunum var deildarforseti ferðamálafræða í skólanum, Teodora Dilkiene, sem skipuleggur slíkar ferðir með U3A félögum um víða veröld á hverju ári, þar á meðal nokkrum sinnum til Íslands.
Skemmst er að minnast heimsóknar hennar og annarra stjórnenda, kennara og félaga til Íslands á haustmánuðum 2017. Sú ferð var sérstaklega skipulögð til að heimsækja U3A Reykjavík og fagna með okkur 100 ára sjálfstæði beggja landa frá 1918 með þakklæti til Íslands fyrir að verða fyrst til að viðurkenna endurnýjað sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 1991. U3A Reykjavík tók vel á móti þessum velkomnu gestum og á sameiginlegum fundi var spjallað um starfið og samfélagið í báðum löndum og gestirnir voru mjög ánægðir með að Jón Baldvin Hannibalsson rifjaði upp aðkomu sína sem utanríkisráðherra Íslands þegar sjálfstæðið var viðurkennt.
Í þetta sinn var erindi Litháanna fyrst og fremst að skoða náttúru og menningu með stífri dagskrá. Tími gafst þó aðeins til að hittast og spjalla, en Teodora óskaði eftir því að hitta fulltrúa U3A Reykjavík í þeim tilgangi að ræða möguleika á framtíðarsamstarfi. Birna Sigurjónsdóttir, formaður U3A Reykjavík og Hans Kristján Guðmundsson náðu að setjast með Teodoru og nokkrum félögum hennar stutta morgunstund 12. ágúst áður en þéttriðin dagskrá þeirra hófst. Komu þar upp ýmsar hugmyndir um samstarf, m.a. umhverfismál og tungumálakennsla. Verða þessar hugmyndir nánar ræddar á vettvangi U3A Reykjavík. Á myndinni má sjá Teodoru lengst til hægri. Fræðast má um starf þeirra á vefslóðinni News – Medard Chobot University of the Third Century (mctau.lt)