Málþing U3A Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli
Málþingið var haldið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur laugardaginn 15. október 2022. Málþingið var fjölsótt og félagsmenn og nýir félagar fylltu salinn. Á dagskrá voru stutt erindi undir yfirskriftinni: Seinni hálfleikur, fræðsla og virkni alla ævi. Birna Sigurjónsdóttir, formaður U3A Reykjavíkur opnaði málþingið og lagði áherslu á stöðuga fjölgun félagsmanna og fjölbreytta fyrirlestra og hópastarf á vegum félagsins. Fundarstjóri Ásdís Skúladóttir tók síðan við og stýrði fundinum.
Dagskráin samanstóð af sex erindum sem öll voru u.þ.b. 10 mínútur. Einnig ávarpaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri málþingið. Öll erindin voru í léttum tón og skemmtileg á að hlýða. Hér á eftir fer ágrip af erindum sem flutt voru og byggt á ritun Emmu Eyþórsdóttur, ritara stjórnar U3A Reykjavík.
Ingibjörg R. Guðlaugsdóttir sagði frá stofnun U3A Reykjavík sem hún hafði frumkvæði að fyrir 10 árum. Hún sótti alþjóðaþing U3A í Indlandi árið 2010 og kynntist þar fólki sem studdi hana í undirbúningi að stofnun U3A Reykjavík. Hún fékk til liðs við sig undirbúningshóp og samdi við Reykjavíkurborg um aðstöðu í félagsmiðstöðinni Hæðargarði 31. Stofnfundur var haldinn í mars 2012 og mættu 18 manns en 48 gengu í félagið fyrir árslok og teljast stofnfélagar.
Marian Aleson, forstöðumaður UPUA við Alicanteháskóla á Spáni flutti því næst ávarp sem varpað var upp á tjald. Hún rakti samstarf „The Permanent University“ sem er starfrækt af háskólanum í Alicante, við U3A Reykjavík frá 2014 og hófst með BALL verkefninu (Be Active through Lifelong Learning). Í kjölfarið fylgdi svo Vöruhús tækifæranna, verkefni sem hefur hlotið viðurkenningar og HEIM verkefnið sem einnig er verðlaunað og hefur kennt okkur margt um Ísland. Samstarfið hefur leitt til gagnkvæmrar vináttu og áhuga á að kynnast betur og halda samstarfinu áfram í framtíðinni. Hún lauk máli sínu með árnaðaróskum til U3A Reykjavík á 10 ára afmælinu og óskum um áframhaldandi gott samstarf.
Jón Björnsson flutti erindi sem hann nefndi: Ævin og augnablikin og sagði frá argentínska rithöfundinum og skáldinu Jorge Luis Borges sem dó árið 1986. Hann var frægur víða um lönd, var aðdáandi norrænnar menningar og kom þrisvar til Íslands. Honum hefur ranglega verið eignað frægt ljóð, „Instantes“ sem hefur verið þýtt á mörg tungumál. Höfundur ljóðsins er hins vegar ókunnur. Jón las þetta ljóð, Andrá, í þýðingu Snædísar Snæbjarnardóttur. Ljóðið lýsir eftirsjá skáldsins vegna augnablika og góðra stunda í lífinu sem ekki urðu að veruleika vegna þess að hann greip ekki tækifærin sem buðust.
Í kaffihléi lék tónlistarhópur létta tónlist. Hópinn skipa Jón Ragnar Höskuldsson og félagar.
Sigrún Stefánsdóttir nefndi erindi sitt: Er engin leið að losna við þig? Sigrún lýsti reynslu sinni eftir starfslok í föstu starfi við Háskólann á Akureyri þar sem hún hefur tekið að sér ýmis störf þó fastri ráðningu sé lokið. Hún hefur upplifað fordóma gagnvart sér í þessu hlutverki þar sem ýmsum virðist að fólk eigi að láta sig hverfa við sjötugt. Hún vill hafa nóg að gera og það hefur gengið eftir og hefur nóg er af verkefnum. Seinni hálfleikurinn á að skapa tækifæri til að njóta sín í störfum eða áhugamálum eftir því sem hverjum hentar. Einkunnarorðin ættu að vera: „Mikið er gott að við fáum að njóta þín“.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ávarpaði samkomuna og ræddi samfélagsbreytingar sem eru að gerast þar sem eldra fólki fjölgar hlutfallslega og reiknað er með að helmingur þeirra sem fæddir eru á síðari hluta 20. aldar nái 100 ára aldri. Menntun fram eftir aldri er nú sjálfsögð sem ekki var áður og fleira fólk býr við góða heilsu langt fram eftir aldri. Sveigjanleg starfslok eru nú tilraunaverkefni hjá Reykjavíkurborg og það getur rutt brautina fyrir vinnumarkaðinn almennt líkt og feðraorlof og stytting vinnuvikunnar. Hann nefndi kjörorð menntastefnu Reykjavíkurborgar sem er „Látum draumana rætast“ og benti á að það eigi líka við fólk á þriðja æviskeiðinu. Starfsemi U3A styður fólk til þess.
Benedikt Jóhannesson flutti erindið: Ekki hætta, hann ræddi um regluna um starfslok við sjötugt sem hann taldi órökrétta og ekki skynsamlega. Vitnaði í Cicero um að aldraðir hafi yfirburði vegna þekkingar sinnar og reynslu. Starfslok eigi ekki að miða við ákveðinn aldur heldur vilja og getu til starfa. Hann nefndi fjölda dæma um fólk sem vann sín helstu afrek og var/er í fullu fjöri í mörg ár eftir sjötugt. Jafnframt á fólk að njóta þessa tímabils, gera eitthvað fyrir sjálft sig og breikka áhugasviðið. „Aldur er auðlind“.
Davíð Þór Jónsson: Listin að tala við fólk. Davíð Þór sagði frá reynslu sinni af að fá inni með þátt í útvarpi og var hann spurður um markhóp fyrir þáttinn. Hann taldi að flokkun fólks í markhópa væri markleysa – allir hópar eru fjölbreyttir innbyrðis og ekki ástæða til að skipa fólki í hópa. Hann sagði frá starfi sínu með eldri borgurum í Laugarneskirkju þar sem honum var þakkað fyrir að tala ekki niður til eldra fólks. „Það á að tala við fólk eins og ég vil að aðrir tali við mig“ en ekki ákveða fyrirfram hvaða „hópi“ þau tilheyra.
Ásdís fundarstjóri þakkaði fyrirlesurum og minnti á að við þurfum að vinna í þágu þeirra sem eiga eftir að verða 100 ára í framtíðinni. Hún las síðan ljóðið „Barn“ eftir Stein Steinarr.
Í lokin kom Ari Eldjárn fram með stórskemmtilegt uppistand að vanda.
f.v.: Ingibjörg R. Guðjónsdóttir, Marian Aleson Carbonell, Jón Björnsson,
Sigrún Stefánsdóttir, Benedikt Jóhannesson og Davíð Þór Jónsson
f.v.: Ari Eldjárn, Dagur B. Eggertsson, Birna Sigurjónsdóttir,
Ásdís Skúladóttir, JRH tríó og gestir
Ekki hætta Það er engin leið að hætta segir í bragnum. Það er engin leið að hætta.
Samt keppist samfélagið við að segja okkur að þeir sem hafa lifað svo og svo mörg ár megi ekki vinna lengur og verði að hætta. Ríkið setur þá reglu að enginn ríkisstarfsmaður vinni nema til sjötugs. Íslandsbanki sagði fyrir hrun að enginn sem kominn er yfir sextugt gæti starfað sem stjórnandi. Sama viðhorf var í öðrum bönkum. Ungt og djarfhuga fólk átti að leiða þá í hæstu hæðir. Við munum hvar sú vegferð endaði. Og við hvern töluðu fjölmiðlar eftir hrunið til þess að skýra leiðina út úr ógöngunum? Jónas Haralz hagfræðing, tæplega níræðan. Betur hefði þjóðin hlustað á hans vísdómsorð fyrr.
Aldur er afstæður er oft sagt. Aldurfordómar koma á ýmsum aldri, ekki bara gagnvart þeim sem við tölum um sem aldraða í daglegu tali. Ég varð fyrst fyrir aldursfordómum þegar ég var 16 ára verkamaður í sumarvinnu. Við komum úr kaffi tveir jafnaldrar, en nokkrir litlir strákar höfðu nýtt tækifærið til þess að leika sér að skóflunum á meðan. Þegar við nálguðumst kölluðu þeir upp: „Hlaupum, karlarnir eru að koma.“
Sjálfur var ég ekki miklu skárri. Þetta haust byrjaði ég í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar var margt fornfálegt, ekki síst stelpurnar í sjötta bekk, sem mér fannst óttalegar kerlingar.
Fyrst ég er byrjaður að játa á mig aldursfordóma verð ég að bæta því við að ég minnist þess þegar ég var strákur sagði Tómas eldri bróðir minn, sem ég leit mikið upp til, einu sinni við eldhúsborðið: „Ég ætla að skjóta mig ef ég verð fertugur.“ Rétt er þó að skýra frá því að blessunarlega varð ekkert af þessu örþrifaráði og bróðir minn lifir enn góðu lífi og stundar vinnu sem læknir, sjötíu og sex ára gamall.
„Treystu engum yfir þrítugt“, sögðu hipparnir og blómabörnin á sínum tíma. Og hvar eru þau nú? Þau eru fólkið sem nú er á lífeyrisaldri og er hissa á því að samfélagið telji að fólk breytist úr þegnum í vandamál við sjötugt.
Það eina sem við getum verið viss um er að þegar einhver hefur orð á því hversu ungleg við séum þá erum við farin að sýna ellimerki, eins og Mark Twain sagði á sínum tíma.
Ellin er samt sannarlega ekki nýtt „vandamál“. Rómverski mælskumaðurinn Cicero segir í bók sinni um ellina eitthvað á þessa leið:
„Þeir sem telja að í ellinni sé fólk gagnslaust eru eins og þeir sem halda því fram að það sé ekkert gagn að skipstjóranum á skipinu, hann sitji þögull og hreyfingarlítill við stjórnvölinn meðan aðrir klifra upp í möstrin, hlaupi um þilfarið eða dælurnar. Skipstjórinn hamast kannski ekki eins mikið og þeir yngri, en hans hlutverk er miklu mikilvægara en þeirra. Stórvirki eru ekki unnin með vöðvaafli, hraða og líkamskröftum heldur umhugsun, viljastyrk og dómgreind, því þessir hæfileikar minnka sjaldnast heldur aukast þegar árin bætast við.“
Ekki hætta, segi ég. Ekki hætta hverju, má spyrja. Svar mitt er: Ekki hætta að lifa lífinu. Margir spyrja sig eftir sextugt hvort skynsamlegt sé að hætta að vinna. Satt að segja spyrja ýmsir mig líka að því hvort það sé skynsamlegt fyrir þá að hætta að vinna. Kannski halda þeir að ég hafi meira vit á því en aðrir, því að ég fæst dagana langa við að reikna út stöðu lífeyrissjóða.
Ég spyr á móti: „Finnst þér gaman að vinna? Ef svarið er já þá áttu að halda áfram í vinnunni. Ertu búinn að reikna út hvað þú færð í eftirlaun og ertu sáttur við það? Áttarðu þig á því að lífeyrir hækkar um 7-8% á ári við hvert ár sem þú bætir við þig í vinnu? Ertu klár á því að eftir að þú hættir mun enginn hringja í þig og spyrja ráða?“ Auðvitað þarf enginn sem er orðinn hundleiður og á nóga peninga að spyrja ráða, þá er svarið augljóst.
Þetta er samt ekki aðalvandinn. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að í stað þess að miða við ákveðinn eftirlaunaaldur, einn afmælisdag sem breytir öllu í lífi fólks, eigum við að miða við vilja og getu hvers og eins.
Vilja, því margir kjósa að sinna fjölskyldu eða öðrum hugðarefnum á efri árum og finnst því gott að hafa meiri tíma en áður fyrir sjálfa sig fremur en að vera í fastri vinnu. Aðrir una sér best með störfum, sem þeir hafa yndi af og kraft til þess að vinna. Það er allt of algengt að fólk sitji heima og finnist það skyndilega orðið tilgangslítið. Maður er manns gaman og þau sem heima sitja hitta kannski ekki marga og fá því ekki þá uppörvun sem skyldi.
Getu, því engum er greiði gerður með því að sinna störfum sem hann ræður ekki lengur við, óháð aldri.
Ég hef haldið þessari skoðun fram í ræðu og riti í áratugi, óháð mínum aldri. Stundum er ég skammaður fyrir þetta baráttumál af starfsmannastjórum eða öðrum yfirmönnum. Þeir segja að það sé svo erfitt að þurfa að segja fólki að það sé orðið of gamalt til þess að sinna vinnunni sinni vel. Þetta er örugglega rétt, en á að reka fullfrískt fólk, bara vegna þess að það er erfitt að láta þá sem ekki ráða við sín störf lengur fara?
Vissulega ber ég velferð þeirra sem komnir eru til ára sinna fyrir brjósti, en baráttan fyrir því að fólk vinni lengi er líka barátta fyrir almannahag. Fyrir hvern árgang sem fer af vinnumarkaði tapar samfélagið, því það er reynslumesta og verðmætasta fólkið sem hættir. Mín reynsla af fólki á sjötugs- og áttræðisaldri sem hefur unnið fyrir mig er góð. Þau hafa verið frábært starfsfólk, sjaldan veik, þurfa aldrei að taka frí vegna veikra barna, mæta á réttum tíma og vita hvað þau eiga að gera.
Einhver sagði að skynsamlegt gæti verið banna öllu fólki að vinna eftir sjötugt, því þá myndum við losna við menn eins og Trump og Pútín. Ég segi aftur á móti að ef við ætlum að losna að slíkir fírar geri af sér óskunda þyrftum við að banna öllum að vinna eftir þrítugt.
Rifjum upp nokkra þekkta einstaklinga sem aldrei hafa hætt.
Einn ríkasti maður heims er fjárfestirinn Warren Buffet sem nú er níræður. Hann hefur í áratugi náð að minnsta kosti tvöfalt meiri ávöxtun en hlutabréfavísitalan. Um aldamótin síðustu var hann farinn að nálgast sjötugt og í nokkur ár í röð var ávöxtun sjóðsins hans, Berkshire Hathaway, ekki upp á marga fiska. Buffet var orðinn sjötugur og í viðskiptablöðum sagði margur spekingurinn: „Hann hefur auðvitað skilað frábæru ævistarfi, en nú er kominn tími á einhvern yngri sem hefur puttann á púlsi markaðarins.“ Sem betur fer hélt Buffet sínu striki og sjóðurinn hefur sjöfaldast í verði síðan. Auðvitað hafa samt margir spurt hver tekur við af honum og til skamms tíma benti Buffet á aðstoðarmann sinn, Charlie Munger. Charlie er núna 97 ára.
Sagt er að sköpunargáfan sé mest hjá ungum listamönnum. Svo kann að vera, en tónskáldið fræga, Giuseppe Verdi lét aldurinn ekki stoppa sig. Eftir að hafa samið meistaraverkið Aidu hátt á sextugsaldri litu flestir svo á að glæstum ferli væri lokið með bravör. Hann bætti reyndar við Sálumessu sinni skömmu eftir sextugt og mönnum fannst það viðeigandi svanasöngur, rétt eins og hjá Mozart, sem náði ekki einu sinni að ljúka sinn sálumessu. Og árin liðu og virtust staðfesta þennan almannadóm. En viti menn. Þegar meistarinn var 74 ára kom meistaraverkið Ótelló. Þá fannst Verdi komið nóg af alvarlegum verkum, venti sínu kvæði í kross og samdi gamanóperuna Falstaff. Áttræða snillingnum var fagnað með hálftíma lófataki á frumsýningu hennar.
Einn frægasti eðlisfræðingur 20. aldar var Poul Dirac, sem fékk Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1933. Þegar Dirac varð 67 ára var hann látinn fara frá Cambridge vegna aldurs. Á sama tíma voru forráðamenn eðlisfræðideildarinnar í Florida State University (FSU) í Tallahassee að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að lyfta henni á hærra stig. Segir þá deildarforsetinn: „Ef við hefðum einhvern heimsfrægan eðlisfræðing, eins og Dirac, þá myndu allir vilja koma hingað.“
Þetta var sagt í hálfkæringi, en hvers vegna ekki að reyna? Hann náði sambandi við Dirac sem gat vel hugsað sér að flytja til Flórida og halda áfram að vinna þar sem prófessor. Hann var þar allan tímann meðan ég var við nám í Tallahassee í tölfræði og stærðfræði en ekki eðlisfræði. Ég man að hann lofaði FSU í viðtali þar sem hann sagði: „ Hér eru menn ekki jafnstífir á reglum um aldur og í Cambridge“ Á árunum í Flórída skrifaði Dirac 60 fræðigreinar, þá síðustu skömmu fyrir andlátið, 82ja ára gamall.
Rolling Stones eru ein vinsælasta tónleikahljómsveit heims og hefur verið í um sex áratugi. Þeir sanna að útlitið er ekki algildur mælikvarði á aldur. Með einbeittu líferni tókst þeim að breytast úr drengjalegum piltum í rúnum rist gamalmenni á örfáum árum. Fólk flýtti sér að ná að sjá þá í síðasta sinn á tónleikum fyrir aldamótin. Sjálfur hef ég séð þá spila oftar en einu sinni og ég er sannfærður um að Mick Jagger er unglingur í líkama gamals mann, þannig eru aðfarir hans á sviðinu. Félagi hans, Keith Richards, hreyfir sig reyndar ekki mikið. Ég minnist þess að í miðju lagi þurfti hann að fá sér sígarettu og tók sér hlé frá gítarnum á meðan. Ekki heyrðist að hljómsveitin missti úr einn einasta tón. Ég hefði gaman af að sjá 25 ára gamlan tónlistarmann leika það eftir.
En það eru ekki bara útlendingar sem halda áfram að vinna afrek eftir sjötugt.
Þegar Halldór Laxness var orðinn 65 ára hafði hann ekki gefið út skáldsögu í allmörg ár og margir töldu að honum fyndist nóg komið. En sem betur fer er engin regla sem skyldar rithöfunda að hætta störfum á ákveðnum aldri. Ári síðar kom út Kristnihald undir jökli, ein hans allra besta bók. Allt fram undir áttrætt streymdu snjallar minningabækur úr penna hans.
En þó að ég hafi fram til þessa talið upp snillinga sem hafa haldið sínu striki, óháð aldri, eru líka glæsileg dæmi um fólk sem haslar sér völl á nýju sviði eftir sjötugt.
Vigdís Finnbogadóttir er sá forseti sem borið hefur hróður Íslands víðast um heiminn. Hún lét af embætti forseta þegar hún var 66 ára eftir glæstan feril. Enginn hefði láð henni að hægja á ferðinni við þau tímamót. En það var Vigdísi fjarri. Hún hefur undanfarna áratugi unnið glæsilegt starf í vernd og útbreiðslu tungumála, en hún er enn í dag verndari stofnunar sem við hana er kennd og hún sinnir af alúð, komin fram yfir nírætt. Hún hefur ekki talið eftir sér að efla þá stofnun með ráðum og dáð allt til þessa dags.
Svo getum við litið á allt annars konar dæmi. Margir vita að við Guðni Ágústsson erum ekki á sömu pólitísku línu. Guðni hefur átt fjölbreyttan feril. Hann byrjaði sem mjólkurfræðingur, en eftir það fór ferillinn niður á við, fannst mér. Hann varð þingmaður Framsóknarflokksins, síðar ráðherra og loks formaður flokksins. En viti menn. Eftir að hann hætti pólitísku vafstri sneri hann við blaðinu og varð á sjötugsaldri skemmtikraftur. Óháð pólitískum skoðunum eru allir sammála um að þar sé hann á réttir hillu. Sumir velta því fyrir hvort hann hefði ekki betur farið þá braut strax.
Við getum líka litið til Bretlands þar sem Karl prins fór loks að vinna alvarlega vinnu sjötíu og þriggja ára gamall. Tók reyndar við af öðru marglöggiltu gamalmenni, 96 ára móður sinni, konu sem vann sín skyldustörf til hinsta dags.
Fyrr á árinu dó 103ja ára maður í Bandaríkjunum að nafni Albert Vice. Hann var farinn að nálgast ellefta tuginn svo hratt að ættingjar töldu einsýnt að boða yrði til 100 ára afmælisveislu. Erfitt reyndist að finna heppilegan dag, því mikil eftirspurn var eftir Albert til að leiðbeina á námskeiðum, en hann hafði fundið upp flokkunarkerfi um hvernig best mætti nýta krafta starfsfólks með mismunandi hæfileika. Dagurinn fannst þó og að streymdi fjölmenni. Afmælisbarnið flutti ræðu og heyra hefði mátt saumnál detta þegar hann sagði lokaorðin:
„I am Albert Vice. I know who I am, I know what I stand for, and I know how to behave myself.”
Þetta mættu margir miklu yngri taka sér til fyrirmyndar.
En þegar ég segi ekki hætta, á ég ekki bara við vinnu. Hættum ekki að lifa lífinu. Margir hafa safnað sér peningum til elliáranna og það er skynsamlegt. En það er ekki gáfulegt að halda því áfram fram í andlátið. Ég hef í gegnum tíðina stundum hjálpað öldruðum ættingjum að telja fram og tók þá eftir því að yfirleitt hækkaði í bankabókinni milli ára. Síðar hef ég sannreynt að það gera flestir.
Ég spurði roskna frænku mína hvers vegna hún gerði ekki vel við sjálfa sig og ferðaðist um heiminn. Hún sagðist gjarnan vilja skilja eitthvað eftir fyrir börnin. Og hvað voru börnin gömul? Öll á sjötugsaldri og farin að nálgast lífeyrisaldurinn fræga sjálf.
Pabbi hringdi einu sinni í mig eftir að hann varð áttræður og sagði mér að sér hefði áskotnast milljón og spurði hvað hann ætti að gera við hana. Ég vissi umsvifalaust hver væri besta fjárfestingin: „Eyddu henni í sjálfan þig!“
Síðastliðinn vetur hélt ég erindi um lífeyrismál þar sem ég brýndi fyrir fundarmönnum að til þess væru peningarnir að eyða þeim. Einn fundarmanna kom til mín eftir erindið og sagði mér að hann væri orðinn 76 ára og tvær kerlingar væru farnar að heimsækja sig æ oftar og drægju úr honum kraft við eyðsluna. Ég hélt að hann ætlaði að segja mér frá einhverjum gömlum frænkum sínum, sem hann talaði svona óvirðulega um. Nei, það var ekki. Þetta voru kerlingarnar Elli og Leti. Ég sagði við hann: „Blessaður flýttu þér að eyða peningunum þínum áður en þær verða of þaulsetnar.
Ég man vel eftir því þegar ég heyrði stærðfræðinginn og heimspekinginn Bertrand Russel fyrst nefndan. Þá var hann 94 ára og hafði boðað til réttarhalda sem við hann voru kennd og fjölluðu um meinta stríðsglæpi Bandaríkjamanna í Víetnam. Russel, sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950, lét aldurinn aldrei hamla sér. Hann var handtekinn 89 ára fyrir mótmæli.
Russel kom víða við og sagði meðal annars í greininni How to Grow Old: „Besta leiðin til þess að yfirvinna hræðsluna við dauðann er breikka áhugasviðið. Fá áhuga á hlutum sem eru fjarri sjálfum okkur. Smám saman verður egóið minna og þitt líf verður hluti af lífi alheimsins.“
Einmitt þetta er kjarninn í starfsemi Háskóla þriðja aldursskeiðsins að breikka áhugasviðið í stað þess að setjast í helgan stein.
Russel hélt áfram:
„Við getum ímyndað okkur ævina eins og á sem byrjar sem lítill stilltur lækur, en verður sífellt sprækara og fer svo að falla ástríðufullt um fossa og flúðir, en eftir því sem hún fellur fram mást bakkarnir, hún verður breiðari og kyrrari þangað til hún fellur í hafið og sameinast þar öllum öðrum fljótum heimsins.“
Mottó Russels, sem hann lifði eftir til hinsta dags: „Ég vona að ég deyi meðan ég er enn að vinna, vitandi vits um að aðrir munu halda áfram því sem ég get ekki lengur gert og sannfærður um að ég gerði allt sem ég gat.“
Þessa lífsreglu eigum við öll að temja okkur meðan okkur endist líf og heilsa. Hættum aldrei, leggjum aldrei árar í bát. Ekki bara fyrir okkur sjálf heldur samfélagið allt. Gleymum því aldrei að aldur er auðlind.
Benedikt Jóhannesson
Er engin leið að losna við þig? Mínir aldursfordómar og annarra
Í vor sat ég á fundi úti á gangi í Háskólanum á Akureyri og var að undirbúa mikilvægt verkefni, vísindaskóla fyrir börn á Akureyri
Þá kemur akademiskur starfsmaður skólans og bankar í öxlina á mér og segir: Er engin engin leið að losna við þig?
Það fauk í mig, sem gerist stundum. Mér fannst þessi spurning alveg hundleiðinleg og óþörf.
Áður en ég vissi af kallaði ég á eftir manninum og sagði að það væri nær að spyrja hann þessarar sömu spurningar. Hann brást hvefsinn við og spurði á móti hvort ég héldi að það yrði gagnlegt fyrir skólann. Ég játti því. Á eftir skammaðist ég mín fyrir hafa verið svona uppstökk. Maðurinn ætlaði bara að vera skemmtilegur!
En mér fannst hann bara alls ekki skemmtilegur. Ég er búin að hugsa talsvert um þennan árekstur. Áreksturinn varð vegna þess að ég er orðin ótrúlega leið á því að vera dæmd úr leik af öðrum. Ferðu nú ekki að taka því rólega? Ertu enn að kenna fjölmiðlafræðina? Hvað er eiginlega að þér? Ertu að vinna til þess að borga upp skuldir? Kanntu ekki að slaka á?
Svarið mitt við þessum spurningum er einmitt það að ég kann ekki að slaka á og hef aldrei kunnað það og vil ekki læra það. Það varð engin stökkbreyting á mínum karakter þegar ég komst á «aldur». Ég var ekki alin upp til þess að slaka á. Ég átti að vera vinnusöm, vera dugleg og gera gagn. Þannig vil ég hafa það.
Ég skulda ekki krónu og hef engan áhuga á golfi. Ég er góð í því að kenna. Ég er góður leiðsögumaður, sem útskrifaðist rúmlega sjötug.. Og ég vil stjórna eigin lífi.
Sem opinber starfsmaður vissi ég að ég yrði að hætta í fastri stöðu þegar ég yrði sjötug. Ég hafði fengið að sjá uppsagnarbréf eldri kollega minna og kynnst viðbrögðum þeirra við fyrsta skriflega uppsagnarbréfi starfsævinnar, sem kom sem gjöf á sjötugsafmælinu. Ég fór því til míns ágæta rektors og sagði honum að hann þyrfti ekki að senda mér uppsagnarbréf. Ég skil minn vitjunartíma, sagði ég við hann.
En í raun skildi ég hann ekki. Þennan vitjunartíma, sem felur sig lúmskulega í ártalinu 1947. Eftir að aldursárið neyddi mig úr föstu starfi, var ég strax beðin um að halda áfram að kenna sem ég geri enn, fimm árum síðar. Ég gæti verið að leiðsegja árið um kring ef ég hefði áhuga á því og ég fer í ævintýraferðir með barnabörnin út um allan heim.
Vikurnar fljúga og dagbókin mín er full af verkefnum sem ég hef lofað að taka að mér. Þannig lífi hef ég alltaf lifað og vil fá að halda því áfram svo lengi sem ég hef orku og áhuga. Ég er svo heppin að fá að lifa litríku og skemmtilegu lífi þrátt fyrir fjötra úreltra ákvaðanna um starfslok. Samt er búið að dæma mig formlega úr leik. Ég er komin yfir sjötugt. Minn vitjunartími er kominn.
Þetta sem ég hef sagt hér á undan er bjarta hliðin á lífinu mínu, sem löglegt gamalmenni. Sú svarta læðist að mér á nóttinni þegar ég fæ svitaköst af kvíða vegna fyrirlesturs sem ég á að flytja, kvíða yfir því að ferðamannahópurinn fái áfall þegar hann hittir þessi «gömlu konu» sem á að fylgja þeim um Ísland og Grænland. Ég hlýt að vera orðin úrelt – orðin 75 ára – bara of vitlaus til að skilja það sjálf.
Spurningar læðast að mér í næturmyrkinu. Ertu ekki að taka verkefni frá ungu kynslóðinni? Getur þú ekki glatt syni þína með því að slappa af? Þú kemst alveg af og ekki ferðu með bankabókina í gröfina?
Ég bylti mér, fer fram og pissa í þeirri vona að ég geti líka náð að sturta kvíðanum niður í klósettið og náð svo að sofna. Það gerist sjaldan.
Ég segi við sjálfa mig að ég ætti að hætta að segja já en horfist um leið í augu við að ef ég hef ekki þessar áskoranir þá dett ég niður í þunglyndi. Þunglyndi hefur alltaf bankað á dyr hjá mér þegar ég sé ekkert framundan til þess að glíma við. Það hvarf ekki á sjötugsafmælinu. Þunglyndi og verkefnaleysi hafa verið ferðast saman í mínu lífi.
Ég var svo heppin að fá að taka þátt í afmælisráðstefnu samtakanna ykkar U3A sem bar yfirskriftina Seinni hálfleikur. Ég vildi bara að við upplifðum þetta aldursskeið sem seinni hálfleik en ekki sem leikhlé þar sem okkur er vísað út af. Í boltanum er seinni hálfleikur oft miklu meira spennandi en fyrri hálfleikur.
Þannig vildi ég sá viðhorfið til okkar aldurshóps. Við erum kynslóðin sem fékk tækifæri til þess að mennta okkur. Húsakostur og vinnuskilyrði eru allt önnur en áður. Vitneskja um gildi mataræðis og hreyfingar hefur gert það að verkum að við eldumst betur en fyrri kynslóðir og lifum lengur. Mér finnst það því sjálfsögð krafa að við fáum að skjóta langt og hátt í seinni hálfleik og vinna þá leiki sem við treystum okkur í. Það er nefnilega ekki krankleiki að verða sjötugur eins og sumir virðast halda.
Sigrún Stefánsdóttir
Nýtt nám um þriðja æviskeiðið
F.v.: Ragnhildur Helgadóttir rektor HR, Guðfinna S. Bjarnadóttir ein stofnenda Magnavita og fyrrverandi rektor HR, Benedikt Olgeirsson einn stofnenda Magnavita og Linda Vilhjálmsdóttir verkefnastjóri hjá Opna háskólanum.
Undanfarin ár hefur það færst í aukana að stofnanir og fyrirtæki bjóði starfmönnum sínum sem eru að nálgast eftirlaunaaldurinn upp á námskeið um leiðir til að takast á við væntanleg tímamót og tækifæri fólks á þriðja æviskeiðinu. Með bættri lýðheilsu og hækkandi lífaldri fjölgar eftirlaunaárunum sem skapar tækifæri til að gera þriðja æviskeiðið að uppskerutíma í lífinu og njóta lífsgæða.
Nú hefur Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík mun bjóða frá og með næstu áramótum upp á nýja námslínu sem ætluð er fólki á þriðja æviskeiðinu, þ.e. fólki sem er um það bil að ljúka störfum eða hafa lokið þeim og vilja meðvitað móta sitt næsta æviskeið á eigin forsendum. Í náminu setja nemendur sér skýra stefnu og markmið fyrir þriðja æviskeiðið þannig að lífsgæða sé notið og tíminn nýttur eins vel og mögulegt er til þess að skipuleggja innihaldsríkt líf. Nálgunin í náminu er heildstæð og byggir á rannsóknum og gagnreyndri þekkingu. Áhersla er á andlega og líkamlega hreysti, félagsleg tengsl, gleði og virkni. Námið hefst á heilsu-, þol- og styrktarmati nemenda, þ.e. stöðupróf í janúar og í lok náms verður aftur mat á heilsu, þoli og styrk nemenda, þ.e. endurmat í desember.
Námið samanstendur af tíu þriggja daga námskeiðum sem kennd eru á þriðjudögum kl. 9:15 15:00. Á vorönn er kennt frá 10. janúar til 25. apríl, (frí 11. apríl) og á haustönn frá 6. september til 13. desember. Námið er einstaklingsmiðað en þó er mikið er um hópavinnu í náminu sem gefur færi á að styrkja tengslanetið og eignast nýja vini.
Frekari upplýsingar má finna í Vöruhús tækifæranna https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/nam-um-thridja-aeviskeidid/
Vöruhúsið og að stofna fyrirtæki
Af hugarsmíðunum okkar fjórtán eru helst þrjár sem hafa hug á að stofna fyrirtæki, þær stöllur Jóna, Lára og Sigga. Allar eru þær á ólíkum aldri og með ólíkan bakgrunn en eiga það sameiginlegt að dreyma um að stofna fyrirtæki. Og hvar byrja annarsstaðar en í Vöruhúsi i tækifæranna að leita sér upplýsinga um hvernig skuli láta drauminn rætast.
Jóna er 57 ára með meistaragráðu í náms og starfsráðgjöf og kennsluréttindum. Draumur Jónu er að stofna eigið ráðgjafafyrirtæki. Til þess skortir hana þó þekkingu og leitaði hún því í rekkann Stofnun fyrirtækis í Vöruhúsi tækifæranna. Jóna vildi byrja á að vita hvernig hún ætti að gera viðskiptaáætlun og skoðaði því tækifærin á hillunni Viðskiptaáætlun í rekkanum. Á hillunni fann hún m.a. upplýsingar frá Hugverkastofu þar sem eru taldar upp reglur sem gilda um uppbyggingu viðskiptaáætlunar. Og þá var það fjármagnið því án þess gat Jóna ekki látið draumann rætast og viti menn á hillunni Sjóðir og styrkir var gnægð upplýsinga um sjóði sem hægt er að sækja um styrki til. Jóna fann að þetta var ekki nóg og leitað því á hillunni Aðstoð þar sem hún fann m.a. hlekki á fyrirtæki sem veita faglega þjónustu á sviði fyrirtækjarekstrar. Að lokum var það hillan Hvatning sem Jóna leitaði á sér til uppörvunar en á hillunni eru dæmisögur frá vefnum lifdununa.is um þá sem hafa stofnað fyrirtæki eftir miðjan aldur og tekist vel. Nú var Jóna tilbúin að hefjast handa.
Lára okkar er 70 ára hárgreiðslukona sem áður átti hárgreiðslustofu sem dóttir hennar rekur í dag. Jóna er þó ekki af baki dottin þó að formlegum eftirlaunaaldri er náð heldur sækir hún hin ýmsu námskeið sem efla færni og hugmyndir í viðskiptum og hefur bæði farið á netnámskeið og á námskeið í Opna Háskólann í Reykjavík í t.d. stjórnun, fjármál minni fyrirtækja, stjórnarsetu og stefnumótun. Jóna vill þó meira og lítur á vefgátt Vöruhúss tækifæranna til þess að efla sig enn frekar og þá er það helst rekkinn Stofnun fyrirtækis þar sem Lára finnur tækifæri um hvar á að leita að styrkjum og ráðgjöf við hinum ýmsu viðskiptahugmyndum sem hún fær.
Sigga er 60 ára, viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem ritari forstjóra í stóru fyrirtæki. Sigga á sér draum sem er að koma á laggirnar litlu gistihúsi sem hún ætlar að kalla Nornin. Rekkinn Stofnun fyrirtækis í Vöruhúsinu er akkúrat staðurinn fyrir Siggu að láta drauminn rætast. Ólíkt Jónu byrjar Sigga á að leita að tækifærum á hillunni Aðstoð, þar næst er það hillan Sjóðir og styrkir þar sem sagt er frá ráðgjöf sem Íslandsbanki veitir þeim sem hyggjast stofna fyrirtæki og vísar á sjóði sem styrkja slíkt. Eftir að hafa fengið allar þessar upplýsingar er Sigga tilbúin að gera viðskiptaáætlun fyrir gistihúsið sitt og smellir á hilluna Viðskiptaáætlun þar sem er að finna gnótt upplýsinga um hvernig skuli gera slíka áætlun. Þar eru meira að segja upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um hvað það kostar að stofna fyrirtæki. Sigga sleppir því í bili að skoða hilluna Hvatning því draumurinn drífur hana áfram. Hún er meira að segja farin að hugleiða að ganga í FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu.
Viðburðir U3A Reykjavík í nóvember 2022
F.v.: Ásgeir Brynjar Torfason, Jón Björnsson, Þorvaldur Friðriksson,
Tótla Sæmundsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Arnþór Gunnarsson
Þriðjudaginn 1. nóvember kemur Ásgeir Brynjar Torfason doktor í viðskiptafræði í Hæðargarð með erindi sem hann nefnir: Rafmagnaðir peningar og fjallar þar m.a. um Bitcoin.
Fimmtudaginn 3. nóvember hefst svo námskeið Jóns Björnssonar um Fjandann, víti og hið illa. Námskeiðið heldur áfram fimmtudagana 10. og 17. Nóvember og hefjast kl. 16:30.
Þriðjudaginn 8. nóvember verður erindi um keltnesk áhrif á Íslandi sem Þorvaldur Friðriksson, fornleifafræðingur flytur.
Þriðjudaginn 15. nóvember er á dagskrá kynning frá Samtökunum 78 sem Tótla Sæmundardóttir, fræðslustýra samtakanna flytur.
Þriðjudaginn 22. nóvember kemur Stefán Jón Hafstein til okkar og kynnir bók sína: Heimurinn eins og hann er.
Þriðjudaginn 29. nóvember kemur til okkar Arnþór Gunnarsson, sagnfræðingur og talar um sögu hæstaréttar á Íslandi.
Menningarhópur stefnir að viðburði í nóvember og annar fundur umhverfishóps einnig í nóvember sem og fundur bókmenntahóps. Allir þessir viðburðir verða auglýstir sérstaklega.
Jólafundur U3A Reykjavík verður í Nauthól 8. desember kl. 15-17. Takið daginn frá.
Vetrarkveðjur,
Stjórn U3A Reykjavík