Fréttabréf U3A
Janúar 2021

Nýtt ár - nýtt upphaf

Að strengja nýársheit er aldagömul hefð og er talið að yfir 50% íbúa hins vestræna heims, og víðar, strengi heit um hver áramót. Algengast er að fólk einsetji sér að halda áfram góðum venjum og breyta óæskilegri hegðun til að ná persónulegu markmiðum eða að bæta líf sitt á annan hátt. Kannanir sýna að 88% þeirra sem strengja áramótheit standa ekki við þau og eru konur ólíklegri til þess. En hver er þá munurinn á þeim sem ná að standa við áramótaheitin og þeim sem ekki tekst það?

Vísbendingar eru um að 35% hafi sett sér óraunhæf markmið og að 33% fylgdust ekki með framvindu sinni í að ná þeim. Kannanir benda til að líklega 10% þeirra sem strengja áramótaheit strengi of mörg heiti. Þá gleymdu 23% þeirra sem strengdu áramótaheit hreinlega hvaða áramótaheit þeir höfðu sett sér!
En hvað með þessi 12% sem tekst að standa við áramótaheitin sín? Hvað getum við lært af þeim?

Markmiðin þurfa að vera skýr, mælanleg og tímasett. Að setja sér almenn og óljós markmið eins og „að léttast á nýju ári“ og „að hreyfa sig meira“ (sem eru á meðal algengustu áramótaheita) er ekki vænlegt til árangurs. Árangursríkara er að skrifa niður markmið áramótaheita og þann jákvæða ávinning sem fæst með því að ná markmiðinu. Skilgreindu til hvaða aðgerða þú þarft að grípa til þess að ná þeim, tímasetja þær og hvenær markmiðinu á vera náð. Almennu dæmin hér að ofan um að „léttast“ og „hreyfa sig meira“ gætu því litið svona út:

Markmið:

Að auka hreyfingu og léttast
Ávinningur: bætt heilsa, léttari lund og betra útlit
Aðgerðir: að hreyfa sig utandyra a.m.k. 1 klst á dag
Mælieining: Byrja á 20 mínútna göngu á dag og bæta við 10 mínútum á mánuði.
Markmiði um 1 klst. hreyfingu utandyra náð 31. maí 2021.
Þegar hugað er að markmiðasetningu er gott að velta fyrir sér hvað það er sem veitir þér orku og hamingju og hvað skiptir þig mestu máli í lífinu. Hér að neðan eru algengust áramótaheitin:

  • Bætt matarræði (71%)
  • Meiri líkamleg hreyfing (65%)
  • Léttast (54%)
  • Eyða minna og spara meira(32%)
  • Læra nýja færni eða að taka upp nýtt áhugamál (26%)
  • Hætta að reykja (21%)
  • Lesa meira (17%)
  • Skipta um starf eða starfsvettvang (16%)
  • Drekka minna áfengi (15%)
  • Eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum (13%)

Síðasta ár einkenndist af boðum og bönnum sem settu einhverjar hömlur á daglegt líf okkar flestra. Nú eru bólsetningar gegn Covid-veirunni hafnar og við sjáum fyrir endann á þessu fordæmalausa ástandi eftir einhverjar vikur. Þangað til getum við nota tímann til að setja okkur markmið fyrir árið 2021 og skipuleggja hvernig við getum unnið að þeim. Hægt er að finna alls konar hugmyndir og tækifæri á vefgátt Vöruhúss tækifæranna.

Stjórn Vörhúss tækifæranna óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vonumst til að heyra tillögur og ábendingar frá ykkur á árinu um hvaða tækifæri kæmu ykkur að mestum notum í að ná markmiðum ykkar fyrir 2021

Júlía Levi hlýtur gullviðurkenningu í samkeppninni „Listin að lifa á ævintýralegum tímum“

Í apríl-fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna sögðum við frá samkeppni sem Aiuta, sem eru alþjóðleg samtök U3A félaga, efndi til í vor undir yfirskriftinni: The Art of Living Under All Circumstances. Félagsmenn U3A voru hvattir til að taka þátt og það gerði Júlía Leví sem sendi inn vatnslitamyndina Kerlingarmynd sem hlaut gull-viðurkenningu (Golden Award) fyrir besta portrett.

Júlía Leví

Júlía, sem er fædd 1947, hefur farið á nokkur myndlistanámskeið í gegnum tíðina en ekki stundað formlegt nám í listaskólum. Hún vann í banka í 20 ár og önnur 20 ár í veitingasölu fyrir háskólanema. Þá stundaði hún ferðamálanám við háskólann á Hólum og hefur unnið á sumrin við ferðamannaþjónustu. Júlía hætti að vinna 69 ára. Hún heyrði þá af U3A og gekk í félagið. Síðustu sumur hefur hún verið einskonar staðarhaldari í Listasafni Samúels Jónssonar vestur í Selárdal í Arnarfirði. Sjá hér 

Splunkuný rannsókn um jákvæð áhrif tedrykkju!

Í rannsókninni voru nýtt gögn úr rannsókn sem nefnist Newcastle 85+ sem hófst árið 2006 með þátttöku meira en 1.000 manns og stendur sú rannsókn enn yfir. Fyrri rannsóknir á áhrifum tedrykkju höfðu sýnt ýmsa heilsufarslega ávinninga svo sem lækkun blóðþrýstings og kólesteróls og jafnvel jákvæðu þyngdartapi. En nú eru vísbendingar um að te sé einnig vörn fyrir heilann.

Niðurstöður hinnar nýju rannsóknar, sem birtar voru 29 desember s.l., sýna að fullorðið fólk sem drekkur 5 eða fleiri bolla af tei á dag býr að betri samhæfingu heila og hreyfinga, þ.e. betra samspili skynjunar, taugakerfis og vöðvahreyfinga. Prófanir sýndu að þessi hópur bjó yfir meiri nákvæmni og hraðari viðbrögðum sem geta hjálpað til við daglegar athafnir eins og að klára púsluspil, sauma eða keyra bíl.

En Dr Edward Okello vill ekki fullyrða hvort það sé drykkurinn sjálfur, þ.e. teið, eða venjan við að brugga sér te – sé það sem geri gæfumuninn á heilastarfseminni. Hann segir að „færnin sem viðhelst í þessum hópi geti ekki einungis stafað af efnasamböndunum sem finnast í tei, heldur geta það líka verið helgisiðir þess að brugga pott af tei eða deila spjalli yfir tebolla sem séu bara eins mikilvæg.“

En hverju sem þessi ávinningur tedrykkju er að þakka þá ætti tedrykkja klárlega að vera eitt af áramótaheitunum okkar!

Háskóli þriðja æviskeiðsins – næstu viðburðir

Á undanförnum misserum hefur U3A Reykjavík (Háskóli þriðja æviskeiðsins) staðið fyrir vikulegum fræðslufundum í Hæðargarði 31 þar sem fjölbreyttur hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum hafa fjallað um viðfangsefni sín. Vegna Covid faraldursins hafa fyrirlestrarnir á undanförnum mánuðum verið fluttir í vefstreymi í gegnum Zoom tölvuforritið. Fyrirlestrarnir hafa verið vel „sóttir“ og fundagestir verið virkir í því að senda spurningar til fyrirlesara.

U3A Reykjavík, heldur áfram starfsemi sinni á nýju ári. Hinir vikulegu fyrirlestrar á þriðjudögum kl. 16:30 hefjast 12. janúar n.k. þegar Páll Melsted, prófessor við Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, flytur fyrirlestur um raðgreiningu kórónaveirunnar – sjá nánar í næsta pistli og hér .

Aðrir fyrirhugaðir fyrirlestrar eru sem hér segir:

Þriðjudagurinn 19. janúar – Íslenskir vitarIngvar Hreinsson verkstjóri hjá Vegagerðinni flytur erindi um íslenska vita en hann hefur farið fyrir vitaflokki Vegagerðarinnar og heimsótt alla vita á landinu undanfarin 20 ár.
Þriðjudagurinn 26. janúar – Íslenski þjóðbúningurinnSólveig Theódórsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélagsins, og Oddný Kristjánsdóttir, sem sér árlega um að skrýða fjallkonuna, munu fræða áheyrendur um sögur og þróun íslenska þjóðbúningsins frá 18. öld.
Þriðjudaginn 2. febrúar – Íslandi fyrir innfytjendurHallfríður Þórarinsdóttir, doktor í menningarmannfræði frá the New School for Social Research í New York, flytja erindi um innflytjendalandið Ísland.
Enn um sinn verða fyrirlestarnir einungis í vefstreymi en vonast er til að á næstu mánuðum verði aftur hægt að bjóða áheyrendum að vera einnig viðstaddir fyrirlestrana í sal Hæðargarðs.

Nánari upplýsingar um viðburði á vegumU3A er að finna á heimsíðu samtakanna U3A.is

Fyrirlestur um raðgreiningar á Covid-veirunni

Páll Melsted

Næsti fyrirlestur U3A Reykjavík verður haldinn þriðjudaginn 12 janúar kl. 16:30. Þar mun Páll Melsted prófessor við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu fara yfir í stuttu máli hvernig raðgreining á Covid-veirunni fer fram og hvað læra megi af niðurstöðunum en Íslensk erfðagreining hefur raðgreint nær öll Covid sýni sem greinst hafa hér á landi. Nánari upplýsingar um rannsóknir Páls má finna á vísindavef Háskóla Íslands https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75910

Fyrirlesturinn er opinn öllum félagsmönnum U3A Reykjavík. Hægt er að gerast félagi með því að skrá sig á vefsíðu U3A Reykjavík:  https://u3a.is/felagaskra/

Viltu læra alvöru handverk?

Handverksskólin í Kópavogi hefur boðið upp á stutt vönduð námskeið með þaulreyndum leiðbeinendum. Námskeiðin, sem almennt eru kvöld eða helgarnámskeið, eru hnitmiðuð til að hjálpa fólki af stað í nýtt spennandi handverk. Öll aðstaða staðnum er til fyrirmyndar, alvöru verkfæri og vélar á staðnum sem og hráefni. Sem dæmi um handverk sem hægt er að læra eru húsgagnasmíð, trétálgun, trérennsli og trétálgun. Þá er hægt að velja um nokkur námskeið í silfursmíði einsog silfurleir, silfursmíði og víravirki þjóðbúninga.

Nánari upplýsingar er að finna á vefgátt Vöruhúss tækifæranna

POWERtalk

Þú færð þjálfun í ræðumennsku, fundarsköpum og fundargerð ásamt sjálfsstyrkingu hjá þjálfunarsamtökunum POWERtalk áður Málfreyjum.

Þjálfunarsamtökin POWERtalk standa á gömlum merg en þau byrjuðu sem Málfreyjur árið 1975 og hafa þau starfað óslitið síðan. Samtökin eru fyrir allan aldur og ókynbundin. Þjálfun þeirra byggist á jafningjafræðslu sem fer fram í deildum þar sem fundir eru haldnir einu sinni til tvisvar í mánuði. Meðan á COVID faraldrinum hefur staðið hefur verið fundað rafrænt og mun það halda áfram fyrir þá sem ekki eiga heimangegnt.

Í deildunum fer þjálfunin fram undir handleiðslu eldri félaga sem jafnframt manna stjórnir deilda og útdeila verkefnum fyrir hvern fund. Félagar fá alltaf endurgjöf þegar verkefni er lokið í formi mats eftir settum reglum. Fundir eru formlegir og fara eftir fundarsköpum til að þjálfa félaga í fundarsetu, fundarstjórn, fundargerð og að koma fram.

Allt þetta eflir sjálfstraust einstaklinganna en þjálfunin fer fram á hraða hvers og eins og er einstaklingsmiðuð. Þjálfun í viðburðarstjórnun er stór þáttur í starfi samtakanna og fer hún þannig fram að félagar skipuleggja og halda viðburði á vegum samtakanna.

Einnig er hugað að félagslega þættinum og þarna hefur myndast traustur vinskapur sem enst hefur langt fram yfir veru félaga í samtökunum. Einnig er hægt að þjálfa fundarsköp á ensku og fer sú þjálfun fram í POWERtalk deildinni Sögu sem hefur aðsetur í Mosfellsbænum en líka er hægt að taka þar þátt á rafrænan máta.

Sjá nánari upplýsingar á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/powertalk-ad-baeta-sig-i-tjaskiptum/

Scroll to Top
Skip to content