Aðalfundur 22. mars 2022, fundargerð

Strjórn U3A Reykjavík, 2022-2023

Haldinn þriðjudaginn 22. mars 2022 kl. 16:30 í fundarsal Félagsmiðstöðvarinnar að
Hæðargarði 31 í Reykjavík.

Fundinn sátu 25 félagar. Fundurinn var boðaður með tölvupósti til allra félaga og á heimasíðu
samtakanna.

Dagskrá aðalfundar var boðuð samkvæmt samþykktum U3A:

  • Setning fundar
  • Kosning fundarstjóra og fundarritar
  • Skýrsla stjórnar kynnt og umræður um hana
  • Reikningar félagsins lagðir fram og bornir upp til samþykktar
  • Umræður um starfið framundan
  • Ákvörðun árgjalds
  • Breytingar á samþykkt
  • Kosning formanns, stjórnar og tveggja skoðunarmanna reikninga ásamt einum til vara
  • Önnur mál
  1. Setning fundar og kosninga fundarstjóra og fundarritara.
    Birna Sigurjónsdóttir setti fund og bar upp tillögu um fundarstjóra; Lilju Ólafsdóttur og fundarritara; Emmu Eyþórsdóttur.
    Tillagan samþykkt samhljóða.

  2. Skýrsla stjórnar (verður sett á heimasíðu U3A).
    Birna Sigurjónsdóttir formaður U3A Reykjavík fór yfir helstu atriði í skýrslu stjórnar. Haldnir voru 12 stjórnarfundir á starfsárinu og helstu verkefni stjórnar voru skipulagning dagskrár á þriðjudögum í Hæðargarði auk ýmissa annarra erinda. Þróun fjölda félagsmanna hefur verið mjög jákvæð og eru félagar núna 1021. Mjög lítið er um úrsagnir úr samtökunum.

    Haldnir voru 44 viðburðir alls á starfsárinu, þar af 33 viðburðir á þriðjudögum sem var öllum streymt. Að meðaltali voru 132 félagar sem fylgdust með erindum í rauntíma eða eftir á.

    Aðrir viðburðir voru:
    Námskeið: Gyðingar, siðir, saga og menning í umsjá Þorleifs Friðrikssonar og Jóns Björnssonar.

    Hópastarf: Starfandi eru fjórir hópar; alþjóðahópur, menningarhópur, gönguhópar HeiM og bókmenntahópur. Virkni hópanna hefur verið mismikil vegna samkomutakmarkana.

    Vorferð var farin í Landnámssetrið í Borgarnesi á sýningu Reynis T. Geirssonar um Bayeaux refilinn.

    Stjórn hefur leitast við að kynna samtökin sem víðast. Viðtöl við formann U3A Reykjavík birtust dagblöðum á starfsárinu og fjölgaði félögum í kjölfarið. U3A er aðili að tengslaneti fjölmiðlanefndar (TUMI) og er þátttaka í miðlalæsisviku framundan á þessu ári. U3A er einnig aðili að Reykjavíkurakademíunni og þar er skrifstofuaðstaða og aðgangur að
    fundarherbergi.

    U3A er aðili að alþjóðasamtökunum AIUTA/IAUTA þar sem formaður er tengiliður.

    Verkefninu Heritage in Motion (HeiM) eða Leiðir að menningararfinum,sem unnið var í samstarfi fjögurra landa undir forystu Spánverja, lauk á árinu með afbragðs umsögn frá Erasmus+ sem styrkti verkefnið.

    Vöruhús tækifæranna er sjálfstætt verkefni innan U3A með sérstaka stjórn sem hefur verið mjög virk á starfsárinu. Vöruhúsið er með sérstaka heimasíðu sem var endurnýjuð á árinu og gefur út mánaðarlegt fréttabréf. Kynningarátak vöruhússins „Aldrei of seint“ sem styrkt er af Félagsmálaráðuneytinu, hefur birt auglýsingar í fjölmiðlum að undanförnu.
    Að lokum vék Birna Sigurjónsdóttir að starfinu framundan sem reiknað er með að verði með svipuðu sniði og undanfarið með fjölbreyttum viðburðum. Stefnt er að málþingi haustið 2022 í tilefni að 10 ára afmæli samtakanna. Skipa þarf undirbúningshóp fyrir málþingið. Stofnun umhverfishóps er einnig framundan vegna væntanlegrar þátttöku í
    norrænu verkefni sem er að frumkvæði umhverfiráðuneytis.
    Formaður þakkaði að lokum fyrir virkni, áhuga og félaga U3A. Hún þakkaði framlag félagsmanna og annarra sem hafa gefið vinnu sína þ.á.m. fyrirlesurum sem og stjórnarmönnum.

  3. Reikningar.
    Jón Ragnar Höskuldsson fór yfir ársreikninga U3A Reykjavík, ársreikning Vöruhúss tækifæranna og uppgjör HeiM verkefnisins. Uppgjör miðast við almanaksárið 2021. Tekjur samtakanna voru kr. 2.140.035, þar af voru félagsgjöld kr. 1.619.000. Gjöld voru kr. 1.496.229 og rekstrarafkoma jákvæð um kr. 643.806. Eignir voru kr. 1.546.250 í árslok 2021. HeiM verkefnið skilaði rekstrarafgangi sem var færður til tekna á ársreikningi U3A. 

    Allir reikningar voru undirritaðir af ábyrgðarmönnum og skoðunarmönnum. Engar athugasemdir voru gerðar við reikningana og voru þeir samþykktir með lófataki.

  4. Umræður um skýrslu stjórnar.
    Enginn kvað sér hljóðs.

  5. Ákvörðun árgjalds.
    Tillaga stjórnar um óbreytt árgjald kr. 2000 var borin upp. Engar
    athugasemdir komu fram og tillagan samþykkt.

  6. Breytingar á samþykktum U3A.
    Engar tillögur höfðu borist um breytingar á samþykktum.

  7. Kosningar.
    Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar um afbrigði við samþykktir þannig að Birna Sigurjónsdóttir verði kjörgeng í embætti formanns þrátt fyrir þrjú ár í embætti. Tillagan var samþykkt samhljóða.

    Ekki bárust aðrar tillögur um formann og Birna Sigurjónsdóttir því sjálfkjörin sem formaður til eins árs og var því fagnað með lófataki.
    Birna Bjarnadóttir og Jón Ragnar Höskuldsson hafa lokið 2ja ára stjórnarsetu og gengu því úr stjórn. Aðrir stjórnarmenn hafa lokið einu ári af tveggja ára kjörtímabili.

    Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar um tvo nýja stjórnarmenn, þær Guðríði Þorsteinsdóttur og Þórleifu Drífu Jónsdóttur.
    Kjör þeirra var samþykkt samhljóða.

    Stjórn næsta starfsárs verður því þannig skipuð:
    Birna Sigurjónsdóttir formaður
    Hans Kristján Guðmundsson
    Guðrún Bjarnadóttir
    Emma Eyþórsdóttir
    Borgþór Arngrímssson
    Guðríður Þorsteinsdóttir
    Þórleif Drífa Jónsdóttir

    Skoðunarmenn reikninga þau Lilja Ólafsdóttir og Gylfi Þór Einarsson gáfu kost á sér áfram.

    Einnig Þórleifur Jónsson til vara. Endurkjör þeirra var samþykkt samhljóða.

    Formaður þakkaði Birnu Bjarnadóttur og Jóni Ragnari Höskuldssyni fyrir stjórnarsetuna og vel unnin störf fyrir samtökin og afhenti þeim blóm í þakklætisskyni.

  8. Önnur mál.
    a) 10 ára afmæli U3A Reykjavík.
    Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir tók til máls og rifjaði upp aðdraganda að stofnun U3A á sínum tíma. Hún fann upplýsingar U3A á netinu og byrjaði að fylgjast með þeim erlendis. Skráði sig á alþjóðaráðstefnu U3A í Indlandi 2010 og tók þátt í henni. Í framhaldinu varð til hugmyndin að stofnun U3A á Íslandi og Ingibjörg fékk félagsmiðstöðina í Hæðargarði í samstarf um málið. Fjórar konur voru í undirbúningsnefnd og fyrsti fundur þeirra var 4. janúar 2012. Stofnfundur U3A var haldinn 18. mars 2012 og þar mættu 18 manns. Þeir sem gengu í samtökin á fyrsta
    starfsárinu, alls 48 voru skráðir stofnfélagar. Ingibjörg sýndi mynd af fyrstu stjórninni en hún var sjálf fyrsti formaður U3A Reykjavík.

    Formaður þakkaði Ingibjörgu sérstaklega fyrir frumkvæði og einstakan áhuga við stofnun og uppbyggingu samtakanna og færði henni blómvönd. Stofnfélagar sem viðstaddir voru á fundinum voru síðan kallaðir upp til myndatöku og þeir hylltir með lófataki.
    b) Umræður um starfið framundan
    Hjördís Henriksdóttir þakkaði störf allra sem unnið hafa að þróun samtakanna frá upphafi. Hún spurði hvort komnar væru fram hugmyndir að þema fyrir afmælisráðstefnu í haust.
    Birna Sigurjónsdóttir svaraði því til að ekkert væri ákveðið en hugmyndir væru um að tengja það virkni fólks á efri árum. Mögulega væri hægt að fá erlendan fyrirlesara með reynslu annars staðar frá.
    Hans Kristján Guðmundsson lýsti fyrstu kynnum sínum af U3A árið 2013. Hann vakti athygli á miklu starfi U3A í öðrum löndum. Víða er U3A skilgreint sem háskóli innan háskóla en eru sjálfstæð félagasamtök í öðrum löndum.
    Helga Margrét Guðmundsdóttir rifjaði upp tildrög að stofnun U3A og fyrstu kynni sín af Ingibjörgu. Hún taldi störf hennar að stofnun U3A hennar bera vott um einstaka þrautseigju.
    Fundarmenn hrópuðu að lokum fjórfalt húrra fyrir Ingibjörgu.
    Birna Sigurjónsdóttir, formaður þakkaði að lokum traustið sem henni var sýnt og minnti á að hægt er að hafa samband hvenær sem er með hugmyndir og ábendingar um starfsemi samtakanna.

    Fundi slitið um kl. 18.
    Fundarritari Emma Eyþórsdóttir
Scroll to Top
Skip to content